Aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 18:04:39 (764)

1998-11-02 18:04:39# 123. lþ. 17.18 fundur 75. mál: #A aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun# þál., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[18:04]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eindregið taka undir með flutningsmönnum þáltill. um að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði á ofbeldisefni. Mér finnst við standa frammi fyrir alvarlegu ástandi. Ofbeldi í sjónvarpi síðdegis rétt fyrir fréttir er mjög algengt og foreldrar geta oft á tíðum engan veginn varist þessu. Allt þetta leiðir af sér ofbeldi í skólum og almennt meðal barna. Foreldrar eru gjörsamlega varnarlausir gagnvart ofbeldi í auglýsingum í sjónvarpi, þær flæða yfir á versta tíma þegar börnin eru kannski nýbúin að borða í samverustund fjölskyldunnar.

Ég veit þess dæmi að börn vakni upp um nætur, fái martraðir eftir auglýsingar. Þau líða fyrir þetta og samkvæmt rannsóknum hafa börn mjög rangt mat á ofbeldi, þau bera lítið skynbragð á hvað hnefahöggið þýðir. Oft á tíðum halda þau að sá sem beittur er einu höggi rísi bara upp aftur eins og í tölvuleikjunum. Þetta verður bara ekkert mál, dúndra einn niður hér og þar. Matið á styrkleika handarinnar við slíkar kringumstæður er oft á tíðum háð myndinni sem dregin er upp fyrir börn, mynd sem er alröng og mjög alvarleg.

Ég held að þetta tengist líka einelti. Við höfum séð mjög mikla aukningu á einelti í skólum og það er tengt þessum málaflokki líka. Segja má að allar sjónvarpsrásir séu uppteknar af einhvers konar ofbeldi. Ég tel að það sé mjög þarft að taka alvarlega á þessu, ekki ólíkt því sem hv. flm. nefndi rétt áðan, að mynda átak eins og gert hefur verið í sambandi við útivistartíma barna. Ég held að ef fólk mundi bindast samtökum um að gera eitthvað alvarlegt í málinu þá væri hægt að ná árangri.