Undirbúningur svara við fyrirspurnum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 13:43:36 (772)

1998-11-03 13:43:36# 123. lþ. 18.91 fundur 89#B undirbúningur svara við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna þessarar umræðu vil ég að fram komi að ég hugðist alls ekki eiga orðastað við hæstv. viðskrh. og iðnrh. Ég átti orðastað við hæstv. forseta þingsins vegna þess hvernig haldið hefur verið á þessum málum. Ég kalla eftir svörum forseta þingsins. Nú er liðinn mánuður síðan beðið var um þessi svör. Ég komst í gær á snoðir um að það er verið að skrifast á, milli hæstv. forseta Alþingis og hæstv. ráðherra, um þessa fyrirspurn mína og hvernig tilhögun á henni skuli vera. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að ég sem fyrirspyrjandi fái upplýsingar um þessi bréfaskipti. Ég fer fram á fá þessi bréf milli hæstv. forseta Alþingis og ráðherra. Mér finnst það fullkomlega eðlileg vinnubrögð en fékk ekki svör við því hjá hæstv. forseta áðan hvort ég fengi bréfaskiptin.

Auðvitað ætti að vera auðvelt fyrir hæstv. ráðherra, sem ég vissi reyndar að væri fjarverandi og ætlaði ekki að ræða við að koma með svör við þessum einföldu spurningum um þá starfslokasamninga sem gerðir voru við bankastjóra ríkisbankanna áður en þeir urðu að hlutafélögum. Þetta eru mjög einfaldar spurningar sem ætti að vera hægt að fá svör við, hvort sem væri frá bankaráðum eða öðrum fulltrúum hæstv. ráðherra í bönkunum. Ég kalla eftir því að fá svör frá hæstv. forseta: Fæ ég að kynna mér þau bréfaskipti sem orðið hafa vegna fyrirspurnar minnar? Ég fer fram á það hér með að fá að sjá hvað þarna hefur verið á ferðinni enda eru þar mjög sérkennileg vinnubrögð svo ekki sé meira sagt, herra forseti.