Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 13:58:47 (776)

1998-11-03 13:58:47# 123. lþ. 18.7 fundur 42. mál: #A sveitarstjórnarlög# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram við 3. umr. þessa máls, þar sem ég var fjarverandi þegar það var tekið til 2. umr., að ég var viðstödd afgreiðslu málsins á fundi félmn. þó að í nál. kæmi aðeins fram að meiri hluti nefndarinnar samþykkti frv. og hverjir væru fjarverandi. Ástæða þessa er að ég lýsti því yfir við afgreiðslu málsins úr félmn. að ég tæki ekki afstöðu ...

(Forseti (RA): Forseti vill óska eftir því að hv. þm. gefi ræðumanni hljóð en láta þess um leið getið að þá má reikna með atkvæðagreiðslu innan tíðar.)

Ég þakka forseta fyrir þessi skörulegu viðbrögð enda mun ég ekki tefja fundinn lengi varðandi þetta mál. En það er mjög mikilvægt að koma því til skila að það var vegna ákvörðunar um að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins úr félmn. sem nafn mitt var ekki að finna á nál. félmn.

Það frv. sem hér er tekið til 3. umr. er til staðfestingar á bráðabirgðalögum frá 10. júlí sl. sem voru sett til að taka af vafa um gildistöku sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Mikið ósætti var um afgreiðslu þessa máls í vor vegna ákvæða sem þar var að finna um stjórnsýslu miðhálendisins og við afgreiðslu málsins í vor sat þingflokkur jafnaðarmanna hjá og taldi að málið væri allt á ábyrgð stjórnarmeirihlutans. Ég árétta að það var vegna hálendismálanna sem við vorum með harða afstöðu vegna þess að í sveitarstjórnarlögunum sem slíkum eru mörg mikilvæg ákvæði varðandi sveitarstjórnarstigið. Þetta var grafalvarlegt mál. Þetta er grafalvarlegt mál. Þetta er mál á ábyrgð stjórnarmeirihlutans eins og það var í vor og þess vegna mun þingflokkur jafnaðarmanna sitja hjá við afgreiðslu málsins þegar það kemur til atkvæða, herra forseti.