Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 15:49:26 (788)

1998-11-03 15:49:26# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málefnalegar umræður um þetta frv. í dag. Það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði í umræðunni að fjárlögin eru í eðli sínu spá en þau hafi lagagildi. Fjáraukalögin eru líka spá en þó spá sem ætti að vera betri vegna þess að hún kemur síðar með meiri upplýsingum innan borðs. Samt er það þannig að fjáraukalög á þessu stigi máls er ekki endanlegt uppgjör því að við eigum eftir á næsta ári, vonandi fyrri hluta næsta árs, að fjalla um enn ein fjáraukalög sem munu ljúka árinu og loka því endanlega.

Slíkt frv. er nú til meðferðar fyrir árið 1997, dróst frá því í vor fram á haustþing, og þar er verið að gera upp niðurstöðuna fyrir það ár. En vonandi verður það þannig að þau fjáraukalög, sem þetta frv. spáir að verði niðurstaða ársins, verði nærri lagi þegar árið verður gert upp.

Hér hafa komið fram ýmsar ábendingar, skoðanir og spurningar sem ég ætla að reyna að víkja nokkuð að. Þá vil ég fyrst nefna atriði sem ýmsir hafa vikið að að því er varðar þann tekjuauka sem þetta frv. ber með sér að ríkissjóður á í vændum eða hefur hlotnast á þessu ári.

Það er alveg rétt að að hluta til er tekjuaukningin vegna viðskiptahallans og vegna þeirrar miklu aukningar í veltu sem hefur orðið í þjóðfélaginu. Það er þó ekki nema að hluta til vegna þess að hér er líka um að ræða aukna tekjuskatta.

Það er hins vegar ekki rétt, sem einn hv. þm. hélt fram í ræðu sinni, að ríkisstjórnin forðaðist að ræða þann vanda sem viðskiptahallinn væri. Það er þvert á móti rangt. Við höfum víða rætt það vandamál. Ég ræddi það mjög ítarlega t.d. við 1. umr. um fjárlög og við höfum að sjálfsögðu gert okkur grein fyrir því að ein af ástæðunum fyrir þessum vanda er að þjóðhagslegur sparnaður er ekki nægilegur í landinu. Og hvað gerum við við því? Við reynum að efla hann. Við höfum verið að vinna sérstaklega í því máli. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir, kom líka að því að það vantar sparnaðarhvetjandi kerfi.

Ég mun á næstu dögum leggja fram frv. sem ætlað er að virkja hvetjandi í þessu efni. Það frv. hefur verið afgreitt í þingflokkum stjórnarflokkanna og verður vonandi til þess að sparnaður í hagkerfinu muni aukast. Það byggist hins vegar auðvitað á frjálsum vilja launþega, þeirra sem eiga það fjármagn sem hægt er að leggja til hliðar. Ekki er um að ræða þvingaðan sparnað í því tilfelli eins og stundum hefur þó áður verið gripið til.

En ég vil þá víkja næst að spurningum hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um þetta kerfi sem búið er að taka upp í sambandi við fjárreiður ríkisins og þá framsetningu fjárlaga og fjáraukalaga sem sú löggjöf hefur í för með sér. Hvernig hefur þetta reynst? spurði þingmaðurinn.

Ég tel að sú litla reynsla sem er komin á þetta sé góð. Ég tel ótvírætt að þau spor sem þarna voru stigin hafi verið í rétta átt. Hins vegar má vel vera að það þurfi að fínpússa eitthvað í þessum efnum eins og jafnan er þegar um er að ræða svona nýja hluti. En hugsunin var ótvírætt í rétta átt. Þetta mál er auðvitað framfaraspor og meira að segja hafa ýmsir aðilar erlendis frá komið hingað og kynnt sér þetta, núna síðast frá Bandaríkjunum. Frá bandarísku ríkisendurskoðuninni voru fulltrúar um daginn til þess að kynna sér m.a. þetta fyrirkomulag. Athygli hefur verið vakin á því hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og annars staðar að við skulum hafa verið komnir þetta á undan öðrum.

Ég minnist þess frá þeim tíma þegar ég starfaði sem aðstoðarmaður í fjmrn. og á árunum þar á undan þegar sá hæstv. forseti sem var við upphaf umræðunnar í dag var fjmrh., að fjáraukalög voru aldrei lögð fram. Þá var það bara þannig að fjmrh. ákvað hvort það ætti að veita aukafjárveitingu. (SJS: Þægilegra.) Það var óneitanlega mun þægilegra. Þess munu m.a. hafa verið dæmi að fjárveiting hlaut ekki náð fyrir augum meiri hluta Alþingis við 3. umr. framlaga í desember en var síðan afgreidd sem aukafjárveiting í janúar. Auðvitað var það mun þægilegra.

Hins vegar var það ekki eins og hlutirnir eiga að vera, þ.e. þar sem Alþingi fer með fjárveitingavaldið og þar sem Alþingi ákveður á endanum hver verða útgjöld ríkisins. Þar hafa auðvitað allir flokkar í þessu gamla kerfi komið að málum og er enginn undanskilinn í þeim efnum. Stóra vandamálið þar var hin mikla óðaverðbólga sem byrgði mönnum ævinlega sýn. Fjárlög sem voru samþykkt í desember voru orðin úrelt í janúar, febrúar vegna verðbólgu. En þetta er sem betur fer allt saman liðin tíð og ástæðulaust að fjölyrða um þetta.

Kem ég þá að nokkrum einstökum þáttum sem hafa verið nefndir. Þó vildi ég kannski fyrst í tengslum við umræðuna um viðskiptahalla, sparnað og skuldir víkja að því sem tveir hv. þm. nefndu í sambandi við þetta, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir og Steingrímur Sigfússon véku bæði að því að viðskiptahallanum fylgir auðvitað bókhaldslega séð óhjákvæmilega skuldaaukning fyrir þjóðarbúið, það er alveg hárrétt. Ríkissjóður er hins vegar á fleygiferð með að borga niður skuldir sínar en það eru aðrir að safna skuldum, það er rétt. Það hefur verið gert á þessu ári í stórum stíl, m.a. í gegnum bankakerfið vegna þess að bankarnir hafa verið stórtækir við að taka lán í útlöndum og endurlána innan lands. Ekki er alltaf víst að í slíkum efnum hafi verið fylgt mikilli fyrirhyggju og skal ég þó ekki um það dæma en ég hef grun um að þar hefði stundum mátt fara hægar í sakirnar hjá bankastofnunum í landinu.

Hverjir eru þá að taka þessi lán? Jú, það eru einstaklingar í stórum stíl og skuldaaukning heimilanna stafar af því að einstaklingar og heimili eru að taka lán af fúsum og frjálsum vilja. Væntanlega vegna þess að þau sjá fram á betri tíð og sjá fram á að geta staðið í skilum. Skuldaaukningin hjá heimilunum þarf ekki sem slík að vera eitthvert hrikalegt böl eins og stundum er látið í veðri vaka. Það er enginn sem neyðir fólk að skuldsetja sig með þessum hætti, t.d. þegar verið er að kaupa bifreiðar eða stærri heimilistæki og þess háttar á góðum lánskjörum. Það er hins vegar allt of mikið um það í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. Pétur Blöndal er óþreytandi við að minna okkur á, að almenningur er hvattur til þess að eyða og taka lán en lítið hvattur til þess að spara og leggja til hliðar. Það er þetta sem þarf að breytast í þjóðfélaginu. Við getum ekki leyft okkur sem þjóð að lifa þannig og við þurfum að spara meira í þjóðarbúskapnum í heild, það þarf að auka og efla þennan þjóðhagslega sparnað sem er margumræddur.

Ég ætla þá að koma að nokkrum spurningum sem fram hafa komið að því er varðar einstaka þætti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson spurði um veittar en óhafnar fjárheimildir og taldi að þar væri pottur brotinn, að ekki ætti að leyfa mönnum að geyma fjárveitingar. Nú rakti ég í framsögu minni að það er breytt fyrirkomulag í þessum efnum sem gengur reyndar þvert á það sem hv. þm. sagði, vegna þess að áður þurfti að sækja sérstaklega um að fjárveitingar flyttust milli ára en núna gerist það sjálfkrafa. Það hygg ég að sé ekki það sem hv. þm. kærði sig um eða vildi að væri. En það er samt afleiðing af lögunum um fjárreiður ríkisins og að mörgu leyti held ég að það gefi meiri sveigjanleika og gefi stjórnendum aukið svigrúm til þess að skipuleggja starfsemina örlítið meira en kannski bara tólf mánuði í einu. Það getur verið mjög gott að hafa slíkt svigrúm, að menn geti geymt fjárveitingu sína án þess að eiga á hættu að hún verði slitin af þeim og sett í eitthvað allt annað ef þeim hentar kannski eða ef það er hagkvæmara að fresta einhverri framkvæmd og eiga þá peninginn vísan. Nú ellegar ef menn þurfa að fara öfuga leið, að flýta einhverri framkvæmd, þá sé hægt að draga af fjárveitingu næsta árs með svipuðum hætti. Þetta vildi ég að kæmi fram sem svar við þessum ábendingum hv. þm.

Ég var búinn að svara honum áður við 1. umr. um fjárlagafrv. að því er varðar lífeyrisskuldbindingarnar og hvort vitað hafi verið um þær í desembermánuði sl. þegar fjárlög voru afgreidd. Það var ekki vitað. Bæði vissu menn ekki hversu margir mundu færa sig á milli deilda í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og þar fyrir utan var ekki heldur vitað hvaða áhrif aðlögunarsamningar, sem voru þá ekki allir komnir í höfn, mundu hafa á það hversu dagvinnulaunin væru stór hluti heildarlaunanna en það er af dagvinnulaununum sem greitt er í lífeyrissjóði eins og allir vita. Þessu hefur því verið svarað.

[16:00]

Hv. þm. vék einnig að spurningunni um olíugjald og bifreiðaskattana. Það liggur fyrir hver örlög þess máls urðu í þinginu á síðasta vori. Örlög þess máls urðu að hætt var við olíugjaldið og það má endalaust deila um hvort það hafi verið skynsamlegt eða ekki. Önnur leið varð fyrir valinu sem fjmrn. er nú að kanna hvort hafi verið hin allra heppilegasta sem völ var á. Ég geri ráð fyrir því að innan skamms komi fram frv. um þau málefni þar sem tekið verði á augljósum annmörkum sem komið hafa í ljós að því er varðar fyrirkomulagið frá því í vor. Ég hygg að þá verði ýmsum létt þegar tekið verður á nokkrum atriðum sem því miður fá ekki staðist í lögunum frá því í vor. Um það mál er ekki tímabært að fjalla nánar úr þessum ræðustóli.

Þingmaðurinn spurði einnig um aðgerðir gegn skattsvikum og það gerði hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir líka. Það er ekki ýkjalangt síðan fram fór úttekt á umfangi skattsvika. Vandamálið við umfang skattsvika er að enginn veit hversu mikið það er, ella væri ekki mikið vandamál að hafa uppi á þeim sem þar eiga hlut að máli. Hins vegar er hægt að fullvissa þingheim um að allt er gert sem hægt er, miðað við starfsliðið sem fyrir hendi er, til þess að reyna að efla eftirlitsþáttinn í starfi skattkerfisins og ekki slegið slöku við í þeim efnum eins og menn sjá auðvitað af fréttum annað slagið. Ég held að vel og hyggilega sé haldið á málum, t.d. af embætti skattrannsóknarstjóra í þessu tilliti.

Spurt var um aðlögunarsamningana og hvernig ætti að mæta þeim. Ég hygg að hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir hafi átt við þá þegar hún talaði um viðmiðunarkjarasamninga. Ýmsir hafa reyndar gert aðlögunarsamningana að umtalsefni. Hvernig á að mæta þeim? Það hefur auðvitað verið reynt að áætla fyrir þeim eins vel og hægt hefur verið í þessu fjáraukalagafrv. Það kemur til að mynda fram á bls. 79 í plagginu að þar er stór fjárhæð veitt í liðinn Launa- og verðlagsmál í fjmrn. til þess að fjármagna það sem gerst hefur á þessu ári, m.a. hjá heilbrigðisstofnunum vegna kjarasamninga hjúkrunarfræðinga og vegna ákvörðunar kjaranefndar um hina ýmsu hópa sem undir hana heyra, þar á meðal prófessora í Háskólanum. Á þeim lið eru lagðar til hliðar 120 millj. vegna endurmats á launabótum í kjölfarið á kjarasamningum við framhaldsskólakennara. Ég hygg því að fyrir þeim þætti sé séð í fjáraukalagafrv.

Hins vegar má vel vera, og það er hlutur sem við eigum eftir að fara betur yfir, að ekki sé enn komin fullnægjandi yfirsýn yfir alla þessa þætti. Ef svo er þá verða menn auðvitað að ganga þannig frá að staðið verði við það sem samið hefur verið um nema þá að maðkur hafi verið í mysunni í einhverjum slíkum samningum sem mér er ekki kunnugt um, þ.e. að menn hafi samið um eitthvað sem þeir hafa ekki heimildir til. Það eru þá sérmál ef slíkt er uppi. Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta.

Að því er varðar spurningar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um utanríkisþjónustuna og að því vék einnig hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, þá er því til að svara hvað varðar sendiráðin í Berlín, London og París að í Berlín er um að ræða byggingu á nýjum bústað og nýju sendiráði en á móti kemur salan á sambærilegu húsnæði í Bonn. Þetta eru því ekki nettóútgjöld sem þarna er um að ræða og eins og þingmaðurinn benti á hafa menn farið betur út úr þessum viðskiptum en til stóð. Að því er París varðar er um mjög hagkvæm viðskipti að ræða vegna þess að þar var seld íbúð á 18 millj. franka og önnur keypt á 13 millj. franka, ef ég man rétt. Með endurnýjunarkostnaði var um að ræða allnokkurn hagnað ríkisstjórnarinnar á þessum viðskiptum. Hins vegar er þetta fært sem tekjur og útgjöld þannig að það lítur út eins og þetta séu viðbótarútgjöld upp á þessa fjárhæð.

Ég mun þurfa að taka aftur til máls, hæstv. forseti, ef mér leyfist, til að svara því sem eftir er.

(Forseti (GÁ): Forseti verður að biðja hæstv. fjmrh. að víkja úr stólnum svo að hann geti gefið honum orðið á nýjan leik.)