Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:04:08 (803)

1998-11-03 17:04:08# 123. lþ. 18.12 fundur 176. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ég sé á móti samtryggingarsjóðum, langt í frá. Ég hef alla tíð lagt mikla áherslu á mikilvægi og gildi samtryggingarsjóða og ég var eindreginn andstæðingur séreignarsjóða þar til þeir fóru að taka upp áhættutryggingar og fóru að tryggja sitt fólk. Þetta er því ekki rétt eftir haft eða munað. Ég hef alls ekki verið á móti samtryggingarsjóðum og ég er mjög hlynntur þeim.

En ég er aftur á móti ekki hlynntur því hvernig stjórnir þeirra eru skipaðar og ég er ekki hlynntur því að sjóðfélagar hafi engin áhrif á stjórnir sinna sjóða. Ég er heldur ekki ánægður með að það skuli ekki vera á hreinu hver eigi það mikla fjármagn sem bundið er í lífeyrissjóðunum. Ég hef meira að segja lagt til --- það var kolfellt fyrir mér og ég man ekki betur en að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi verið á móti því --- að lífeyrissjóðirnir væru eign sjóðfélaganna. Og hann var enn fremur á móti því að sjóðfélagar fengju að kjósa sér stjórn.