Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:36:35 (811)

1998-11-03 17:36:35# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:36]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég dró hvergi úr því í ræðu minni að ekki væri til staðar vandi hjá einhverjum meðlagsgreiðendum. Það er eitt og á þeim vanda þarf að taka með einhverjum hætti og ég tel að Innheimtustofnunin hafi reynt það. En ef það dugar ekki þarf auðvitað að leita annarra félagslegra úrræða gagnvart þeim sem eru í slíkum vanda. Ég tel að eðlilegt sé að leita að leiðum til þess.

Á hinn bóginn benti ég á það, herra forseti, að ekki væri eðlilegt og það fælist ekki í því jafnræði að gera það í gegnum skattkerfið vegna þess að þá nyti einungis annar framfærandinn skattafsláttar en ekki hinn og það er ekki ásættanlegt í þjóðfélagi okkar að hafa þann háttinn á. Ég tel því að þennan vanda þurfi að leysa með öðrum hætti en þeim sem tillagan gerir ráð fyrir.

Ég vil bara undirstrika það að mér er alveg ljós þessi vandi. Sem fyrrverandi bæjarstjóri þekki ég mörg dæmi um þann vanda sem fjölskyldur og einstaklingar voru í vegna skulda. Þetta eru auðvitað eins og aðrar skuldir sem þarf að greiða og blandast oft inn í annars konar erfiðleika sem einstaklingar rata í.