Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:38:17 (812)

1998-11-03 17:38:17# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Mér fannst óhjákvæmilegt að blanda mér í umræðu um þetta mál af sömu ástæðu og sá sem hér talaði á undan, hv. þm. Sturla Böðvarsson, þ.e. ég tel að sú leið sem hér er lögð til sé ekki rétt. Í henni sé ekki fólgið það jafnræði sem við viljum halda í heiðri ef annar aðilinn í uppeldinu fær frádreginn frá tekjuskattsstofni þann kostnað sem er á honum varðandi uppeldi barns.

Það hefur verið skoðað, herra forseti, hversu mikill framfærslukostnaður er vegna barna. Þær tölur sem ég hef undir höndum eru frá árinu 1991. Þá var staða mála þannig að fyrir börn sem voru á bilinu eins til fimm ára gömul nam meðlagsgreiðslan u.þ.b. þriðjungi af reiknaðri framfærslu. Sömuleiðis fyrir börn á aldrinum sex til níu ára. En síðan fer að syrta í álinn fyrir þann sem hefur forræði yfir barninu vegna þess að þegar barnið er orðið tíu til tólf ára duga meðlagsgreiðslur einungis fyrir einum fjórða af framfærslu. Þegar barnið er orðið enn eldra, eða á aldrinum 13--15 ára, þá duga þær einungis fyrir einum sjötta. Menn sjá því að hér er býsna mikill munur á skyldum þess foreldris annars vegar sem sér um uppeldi barnsins og hefur forræði með uppeldi þess og síðan meðlagsgreiðanda.

Í máli frummælanda kom fram að hækkun hefði orðið á meðlagsgreiðslu og hún varð eftir að þessar tölur voru settar fram sem ég nefndi. En þó að þessi hækkun hafi verið býsna há í prósentum talið lyfti hún tölunni þó ekki hærra upp en svo að meðlag í dag er rétt rúmar 12 þús. kr. Það sér auðvitað hver maður sem þekkir það af eigin reynslu hvað það kostar að framfæra barn, ég tala nú ekki um ungling, að 12 þús. kr. duga ekki langt í uppeldinu.

Það hefur líka gerst á þessu tímabili frá því að þessar tölur voru reiknaðar út árið 1991 að barnabætur hafa breyst. Í dag eru allar barnabætur tekjutengdar. Þær eru tekjutengdar þannig að þær byrja að skerðast við 47 þús. kr. mörkin þannig að fari það svo að einstætt foreldri þurfi að njóta framfærslustyrks, sem hingað til hefur nú ekki þótt ofrausn, nægir slíkur styrkur til þess að barnabætur byrja að skerðast. Við erum því alltaf þegar við erum að tala um hlut þeirra sem eru meðlagsgreiðendur í rauninni líka, og það er óhjákvæmilegt, að bera saman kjör þeirra annars vegar og kjör hinna sem eru framfærendur barnanna.

Það má með réttu halda því fram að barnabætur séu leið skattkerfisins til þess að mæta þeim sem framfærir barnið. Hins vegar eru barnabætur mjög strangt tekjutengdar á Íslandi og menn hljóta að verða að horfa til þess hvernig að þeim er staðið þegar verið er að skoða leiðir til þess að leysa vanda hins aðilans.

Mér finnst virðingarvert og ég vil gjarnan taka þátt í því að ræða hvernig við eigum að leysa vanda fátæks fólks á Íslandi. Þá gildir einu hvort um er að ræða meðlagsgreiðendur, einstæða foreldra eða aðra. Meðlagsgreiðendur lenda oft í því að skuldir þeirra safnast upp hjá Innheimtustofnun en skuldir annars fátæks fólks sýna sig kannski frekar í skuldabréfum í bönkunum. Hvernig viljum við þá leysa þau mál?

Mér finnst það athyglisvert að hér er það nefnt að þau af þríburalögunum sem svo voru kölluð, þ.e. þau sem sneru að Innheimtustofnun og erfiðleikum meðlagsgreiðenda, virðast ekki hafa dugað. Ég hlýt a.m.k. að álykta sem svo að fyrst þær ráðstafanir eru ekki fullnægjandi, þ.e. að Innheimtustofnun var heimilað að semja, hafi þær ekki dugað. Hins vegar væri athyglisvert ef hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem mælti fyrir tillögunni og var í formennsku fyrir síðustu nefndinni sem skipuð var, rekti fyrir þingheimi hvernig sú reynsla hefur verið sem orðin er af lögunum. Það væri líka athyglisvert að fá að vita, og ég þykist vita að hann hafi þær upplýsingar, hve hátt hlutfall meðlagsgreiðslna lendir í vanskilum. Þá er ég ekki að tala um tafir um einhverja mánuði heldur í því sem við getum talað um sem veruleg vanskil. Hversu hátt hlutfall er það? Hvað erum við að tala um stóran vanda miðað við þann vanda sem fólk lendir í varðandi skuldasöfnun yfir höfuð?

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að við samræmum og höfum framfærsluskyldur beggja aðila samræmdar. Það hlyti að þýða það að miðað við það hvað kostar að framfæra barn þyrfti að hækka meðlagsgreiðslur og síðan, ef menn vildu fara skattaleiðina, að samræma þá skattafslætti og barnabætur. Það yrði með einhverjum hætti að ná þessu heim og saman þannig að sanngirni gætti. En á meðan munurinn er svo mikill sem raun ber vitni, þrátt fyrir barnabætur, þá finnst mér að við séum í nokkrum vanda að horfa á tillögu eins og þessa sem alvörutillögu --- nema menn fari í að skoða hinn aðilann einnig.

Herra forseti. Ég vildi að þetta kæmi fram strax við fyrri umr. tillögunnar. Ég held að nauðsynlegt sé að á Alþingi komi fram sem flestar hugmyndir varðandi nálgun þessa máls. Mér finnst þarft og gott að við tölum um þá erfiðleika sem fátækt fólk á Íslandi lendir í en við þurfum að passa að jafnræði sé meðal hópa og að sanngirni sé í því ef einn hópur er tekinn út. Þess vegna þurfa menn að vanda sig bæði í þessari umræðu og eins og í þeirri umfjöllun sem fram fer um þetta mál.