Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:51:03 (816)

1998-11-03 17:51:03# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., GÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki halda langa ræðu. Ég hafði reyndar boðað forföll og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem ásamt hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni er meðflutningsmaður að málinu, mælti fyrir því og gerði það ágætlega. Fleiri hafa komið inn í umræðuna og ég þakka það.

Auðvitað er það svo að allt orkar tvímælis þá gert er og menn verða að skoða samanburð og menn verða að skoða leiðir í þjóðfélaginu, ekki síst til þess að styrkja heimilið, fjölskylduna sem hornstein. Tildrög þess að þáltill. er flutt eru þau að ég hygg að það sé mörgum ljóst að í öllum þeim hjónaskilnuðum sem eiga sér stað eru það fyrst og fremst börnin sem þjást í slíkum átökum. Auðvitað fara oft margir illa út úr skilnaðarmálum, en ég hygg að karlmenn fari ekki síður illa út úr slíkum málum og kvarta þeir mjög undan því að erfitt sé að stofna til sambúðar á nýjan leik ef þeir eiga börn sem þeir þurfa að borga með, kannski tvö eða þrjú, þá fer þetta að vega þungt af litlum mánaðartekjum og gerir þeim torvelt. Þess vegna tek ég undir það að auðvitað þyrfti að gera heildarskoðun á þessum málum.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að skertar barnabætur og jaðarskattar hafa mikil áhrif og ég vona að þau mál verði skoðuð sérstaklega núna við fjárlagagerðina. En ég er í engum vafa um það, og þess vegna er þessi tillaga lögð fram, að einstæðir feður, þó þeir hafi náð sér aftur í maka, hafa verið ákveðnir huldumenn sakir skulda og sakir þess hversu mikið þeir þurfa að borga og lent í vanskilum og erfiðleikum aftur af fjárhagslegum ástæðum í síðara hjónabandi, sem er auðvitað alvarlegur hlutur. Það er nú kannski svo með karlmenn að þeir segjast ekki gráta og þeir skammast sín fyrir að kvarta og kannski hefur samúðin ekki verið heldur of mikil með þeim mörgum. Ég segi því fyrir mig að þó þetta sé nú kannski ekki akkúrat tillagan þá vona ég að sú nefnd sem fjallar um þetta mál fari málefnalega yfir stöðu þessara einstaklinga og endurskoði þá þáltill. út frá því. Aðalmarkmiðið er að menn skoði sérstaklega þennan hóp, sem við flutningsmenn erum sammála um að hafi orðið svolítið út undan í aðgerðum og hvorki náð eyrum löggjafans né annarra, og þetta verði þá sérstaklega skoðað og mótaðar einhverjar reglur. Við bendum t.d. á Norðurlöndin, að menn kanni það sérstaklega þar.

Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég geri mér grein fyrir því að margir þessara manna hafa líka orðið landflóttamenn. Þeir hafa því miður margir farið úr landi til að sleppa frá þessum erfiðleikum, þannig að ég held að það sé þjóðhagslega mikilvægt að þingið leggi á það áherslu við ríkisstjórnina að hér verði mótuð stefna gagnvart þessum hópi manna sem ég veit reyndar ekki hvað er stór, en þó hygg ég að hann sé allstór, og margir sem þjást við þessar aðstæður.