Ráðstafanir í skattamálum

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:10:12 (820)

1998-11-03 18:10:12# 123. lþ. 18.15 fundur 170. mál: #A ráðstafanir í skattamálum# (endurákvörðun skatta, breyting ýmissa laga) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að flytja þetta mál og reifa það. Þetta er mikið hagsmunamál og réttlætismál fyrir skattgreiðendur, eins og hann kom hér inn á, og það hlýtur að gleðja mig að sífellt fleiri hv. þm. verða vinir skattgreiðandans, þ.e. þess eins þriðja hluta framteljenda sem greiða yfirleitt skatt til ríkisins. En það er tilhneiging til þess að skattleggja þá sífellt meira og meira og fækka þeim jafnframt.

Það er sjálfsagt réttlæti að hið sama gildi um ríkið og einstaklinga og að jafnræði sé á milli þeirra, en svo hefur aldeilis ekki verið hingað til. Það er rétt sem hv. þm. benti á að það hefur verið mikil mismunun t.d. varðandi vaxtagreiðslur, ríkið endurgreiðir með innlánsvöxtum eða jafnvel vaxtalaust, en er ekkert að tvínóna við það að taka dráttarvexti og sektir ef menn ekki greiða á réttum klukkutíma. Þá falla til sektir, eitt prósent á dag, í sumum sköttum.

Annað mætti skoða í þessu sambandi og það er mat á eignum. Nú er það þannig að ríkið leggur eignarskatt á eignir, en það metur líka eignina jafnframt og það getur oft og tíðum metið eignirnar óeðlilega hátt án þess að skattgreiðandi komi við vörnum, sérstaklega vegna þess að hið opinbera, sveitarfélögin, hafa skipulagsvald að auki. Gott og frægt dæmi er Fjalakötturinn sem var metinn á feiknaháa upphæð. En það mátti ekki gera neitt við hann vegna verndarsjónarmiða, húsafriðunarlaga og slíks þannig að eigandinn átti í rauninni einskis úrkosta. Hann gat ekki gert annað en að greiða ógnarupphæðir af eigninni sem ekkert gaf af sér og hann var algjörlega í klemmu.

Það er líka nýtilkomið að farið er að koma mat á tekjum. Þar vil ég nefna sérstaklega fyrirbæri eins og ,,opsjónir`` eða hlutafjárvild, þ.e. heimild til að kaupa hlutabréf á ákveðnu gengi. Þetta á eftir að valda skattyfirvöldum vandamálum og ég legg til að hv. efh.- og viðskn., sem um þetta mál mun fjalla, taki það mál líka inn í umræðuna hvernig eigi að meta viðskiptavild eða sem sagt hlutafjárvild sem ekki er komin til, þ.e. menn hafa heimild til að kaupa --- þetta hefur komið upp í sambandi við sölu á bönkunum --- hlutabréf á ákveðnu gengi og hagnaður eða tekjur einstaklingsins myndast þá fyrst þegar hann nýtir réttinn. En skattyfirvöld hafa að sjálfsögðu tilhneigingu til að meta þetta strax til tekna án þess að neinar tekjur séu komnar til. Þetta eru vandamál sem til viðbótar við mat á eignunum þarf að taka á.

Ég hef reyndar lagt til áður í frv. sem ég lagði fram um eignarskatt að ríkið væri skyldugt til að kaupa eignir á 80% af því mati sem það mæti þær á gegn staðgreiðslu þannig að það bremsaði ríkisvaldið og hið opinbera af í því að meta eignir mjög hátt.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. þm. Ég mun í hv. efh.- og viðskn. leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að þetta frv. fái hraða og góða afgreiðslu.