Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 18:56:02 (828)

1998-11-03 18:56:02# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[18:56]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta er um margt merkilegt mál og hið athyglisverðasta og kannski málflutningurinn ekki síður. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á það að eðlilegt væri að löggjafinn hafi átt að skipta sér af þessum málum svo mjög sem ríkisvaldið hafi áður komið inn á þessi mál. Alþingi eigi að tryggja rétt sjóðfélaganna og eigi að blanda sér þar með í starfsemi lífeyrissjóðanna.

Mig langar aðeins í þessu sambandi, herra forseti, að vitna til skrifa hvað áhrærir Lífeyrissjóð sjómanna og ítök og afskipti ríkisvaldsins af þeim sjóði. Þar segir m.a. ,,Þrátt fyrir að ríkisvaldið hafi ekki tekist á hendur neina almenna ábyrgð á skuldbindingum Lífeyrissjóðs sjómanna gagnvart sjóðfélögum hefur það hins vegar gerst að ríkisvaldið hefur haft afskipti af réttindamálum sjóðfélaga þegar það hefur þurft að ná efnahagslegum markmiðum sínum, t.d. við lausn sjómannadeilna. Gleggst dæmi slíkra afskipta er frv. til l. um breyting á l. nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, sem lagt var fyrir Alþingi á 103. löggjafarþingi 1980--1981. Í almennum athugasemdum með þessu frv. segir að það sé borið fram vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga sjómanna í febrúar sl. Frv. þetta varð að lögum nr. 48/1981 og fól m.a. í sér að sjóðfélagar sem fullnægðu vissum skilyrðum gætu hafið töku óskerts ellilífeyris frá 60 ára aldri. Þessi aukning á réttindum sjóðfélaga í Lífeyrissjóði sjómanna var af ríkisvaldinu hvorki borin undir stjórn sjóðsins né heldur lét ríkisvaldið kanna fjárhagslega þýðingu hennar fyrir sjóðinn. Ríkisvaldið lagði sjóðnum hvorki til fjármuni til að mæta þessum auknu skuldbindingum sjóðsins gagnvart sjóðfélögum né heldur var lögð sú kvöð á sjóðsaðila að þeir hækkuðu iðgjöld til sjóðsins.``

Þetta voru afskipti ríkisvaldsins þá og ekki í fyrsta eða eina skiptið sem það hefur gerst og líklega ekki það síðasta því að fram undan eru breytingar hvað áhrærir lög lífeyrissjóðsins sem lögum samkvæmt var settur innan dyra Tryggingastofnunar ríkisins vegna þess að þegar lífeyrissjóðurinn var stofnaður 1957 fundu menn þessu afkvæmi sínu hvergi stað nema innan vébanda Tryggingastofnunar ríkisins og það er kapítuli út af fyrir sig vegna þess að sjóðstjórnir undangenginna ára, t.d. Lífeyrissjóðs sjómanna, vildu bera ábyrgð á sjóðnum. En við slíka meðferð sem þessa þar sem lífeyrissjóðurinn var orðinn leiksoppur ríkisvalds vegna kjarasamninga sjómanna kunni náttúrlega ekki góðri lukku að stýra. En allt um það.

Í 2. gr. þessa frv., segir svo, með leyfi forseta:

,,Þetta er í samræmi við þá grundvallarhugsun laganna að með skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé verið að firra ríkið ábyrgð á skakkaföllum við tekjumissi sem einstaklingurinn verður fyrir vegna örorku, dauða um aldur fram eða langlífis. Það væri í andstöðu við þau markmið ef eignin gæti orðið að engu vegna fjárhagslegra vandræða einstaklingsins einhvern tíma á ævinni.``

Nú hafa lífeyrissjóðirnir svokallaða samtryggingu sem hér kemur fram og það er vel. Hins vegar er ég alveg sannfærður um að þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir hafa þeir sem stóðu að stofnun lífeyrissjóðanna aldrei gert sér í hugarlund að örorkuþáttur þeirra yrði jafnmikill og raun ber vitni. Það er sérkapítuli út af fyrir sig og hefði kannski þegar betur er að gáð aldrei átt að fara inn í ákvæði lífeyrissjóðanna að þeir greiddu örorkulífeyri nærri takmarkalaust þó að þar sé nokkur munur á þegar litið er til starfsemi hinna fjölmörgu sjóða. (Gripið fram í: Mest til sjómanna.) Jú, Lífeyrissjóður sjómanna stendur hvað verst hvað það varðar. Hins vegar er athyglisvert að í lífeyrissjóði verkafólks, t.d. í fiskvinnslu, hafa örorkubæturnar aukist verulega.

[19:00]

Það er dálítið merkilegt að í þessu frv. skuli ekki vera komið að því sem nú er mjög í umræðunni og er umhugsunarefni, að þeir sem kaupa sér réttindi til lífeyris eða örorkubóta standa frammi fyrir því ef annars staðar hefur verið keypt trygging, t.d. hjá tryggingafélögum, að þessi tilteknu réttindi lífeyrissjóðanna skuli vera dregin frá þeim bótum sem menn hafa áunnið sér hjá tryggingafélögunum. Hvernig í ósköpunum getur það gerst að löggjafinn skuli standa að baki tryggingafélögunum og stuðla að því og gera engar athugasemdir við það að tryggingafélögin skuli geta hagað sér á þennan hátt? Eins og flm., hv. þm. Pétur Blöndal, kom inn á hafa menn hreint og beint verið skyldaðir til þess að fara í lífeyrissjóðina, já og kannski bara þökk sé að það skyldi hafa gerst. Það væri ábyggilega margur maðurinn sem nú er kominn á eftirlaun illa staddur ef þetta hefði ekki gerst með þessum hætti. Og það var rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á að þetta er eitt albesta lífeyrissjóðakerfi sem fyrirfinnst á byggðu bóli og er það mjög athyglisvert.

Þess vegna hlýt ég að spyrja sjálfan mig: Hvers vegna vill þingmaðurinn fara að blanda sér í þessi mál og setja það fram af hálfu löggjafans um hvernig skipan sjóðstjórnar og nánast umfjöllun og meðferð lífeyrissjóðanna skuli háttað þegar það liggur ljóst fyrir að í frjálsum kjarasamningum milli launþega og vinnuveitenda hafa menn fundið sér ákveðinn farveg? Ég vildi að þessi orð hefðu verið sögð og þetta mál frekar rætt þegar Lífeyrissjóður sjómanna var stofnaður þannig að hann hefði sjálfur getað ráðið sínu heimilisfangi og hvernig farið yrði með sjóðstjórnun.

Eins og mönnum er kunnugt sitja nú að öllu jöfnu sex manna stjórnir eða svo og þær skiptast á milli launþega og vinnuveitenda. Og hvort sem það er eftir þeirri reglu sem hér kemur fram um að atvinnurekendur borga 6% og launþegar 4% eða hvaða formúla sem þar hefur verið fundin varðandi skipan stjórnar þá ætla ég ekki að blanda mér í það eða bæta neitt þar um. En eitt er ljóst og það er að mönnum getur verið mikill vandi á höndum að skipa stjórnir lífeyrissjóða eins og hér er getið um. Þar koma tvær ástæður til. Í fyrsta lagi ber að líta aðeins aftur í tímann, eins og hér hefur verið gert í umræðunni, til ársins 1980 í allri þeirri óðaverbólgu sem þá blossaði er sjóðfélagar fengu e.t.v. lánaðar 100 krónur en þurftu ekki að borga nema kannski 20 krónur til baka o.s.frv. Þá var stjórnum lífeyrissjóðanna mikill vandi á höndum og það er fortíðarvandi sem lífeyrissjóðirnir eru nú að komast upp úr og eru nú flestir svo staddir að þeir eiga fyrir skuldbindingum sínum.

En aðeins af því að tíminn flýgur frá mér þá vildi ég nefna hvað sagt er um 4. gr. frv. og það segir einmitt allt um þann vanda sem flutningsmenn standa frammi fyrir við að finna einhverja formúlu um það hvernig eigi að kjósa í stjórn og hvaða atkvæðavægi hver og einn sjóðfélagi eigi að hafa. Ég ætla aðeins að vitna, með leyfi forseta, í grg. Þar segir svo:

,,Gert er ráð fyrir að atkvæðisréttur sjóðfélaga á félagsfundi fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra en ekki er kveðið nánar á um hvernig það skuli gert. Gert er ráð fyrir að þessi vandi verði leystur með nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Atkvæðavægi og þar með áhrif eldri sjóðfélaga verða mikil ef eingöngu er miðað við áunnin réttindi eða inneign. Þeir hefðu því hugsanlega of mikil ítök. Ef miðað er við höfðatölu fá þeir sem eiga mjög lítil réttindi, t.d. vegna hlutastarfs, of mikil ítök. Þeir geta auk þess átt atkvæðisrétt í tveimur eða þremur sjóðum samtímis. Koma má í veg fyrir það með því að miða við þann rétt sem sjóðfélaginn kemur til með að ávinna sér um starfsævina (framreiknaðan rétt), en þá er hugsanlegt að yngri sjóðfélagar fái of mikil ítök miðað við hagsmuni þeirra. Lausnin gæti falist í því að miða við blöndu af áunnum og framreiknuðum réttindum.

Þegar aðili, t.d. ríkissjóður eða sveitarfélag, ber ábyrgð á lífeyrissjóði, beina eða óbeina, er eðlilegt að hann hafi öll tök á stjórn sjóðsins og breytingum á samþykktum hans því að hann á allt undir því að skynsamlega sé staðið að rekstri sjóðsins.

Nauðsynlegt getur verið að grípa til póstatkvæðagreiðslu ef aðstæður eru þannig að sjóðfélagar geta ekki kosið beinni kosningu á félagsfundi. Það getur átt við ef lífeyrissjóðurinn er mjög fjölmennur eða sjóðfélagar mjög dreifðir, t.d. sjómenn.``

Póstatkvæðagreiðsla meðal sjómanna hefur vissulega farið fram í sambandi við kjarasamninga eða greiðslu atkvæða um verkfallsheimild o.s.frv. Það er alveg rétt. Hitt er annað mál að því sem hér á undan kom fram um þá formúlu sem á að liggja að baki vægis hvers atkvæðis eða hvers sjóðfélaga, er náttúrlega þannig háttað að menn mundu líklega gleyma því meginmarkmiði sínu að ávaxta sjóðinn og hugsa um að hann ætti fyrir skuldbindingum sínum vegna ársfundar. Þeir hefðu nóg að gera í því að reikna út hvernig ætti að fara með atkvæðavægi hvers sjóðfélaga því hér er ekki komið með konkret tillögu heldur er talað um að þetta megi vera svona, hvar menn hafa of mikið atkvæðavægi eða að þeir hafi of lítið atkvæðavægi o.s.frv.

Ég verð að segja að mér kemur mjög á óvart að slíkur lýðræðissinni sem hv. þm. Pétur Blöndal vilji blanda sér í þá sátt sem almennt hefur ríkt milli vinnuveitenda og launþega um hvernig skuli fara með þessi mál. En ég get heils hugar tekið undir með honum að það er eðlilegt og rétt að halda aðalfundi í sjóðunum þar sem menn geta að sjálfsögðu komið og fylgst með reikningum, ársreikningum, og gert athugasemdir. Hins vegar er ég honum ekki sammála um það hvernig halda skuli á málum þegar kemur að kjöri stjórnar því að þau ákvæði sem hér eru lögð til um atkvæðavægi og hvernig eigi að haga kjöri stjórnar, geta leitt marga lífeyrissjóði í ógöngur.

Hv. þm. Pétur Blöndal kom áðan réttilega inn á vandamál sem nú blasir við en engir hefðu trúað fyrir um þremur til fjórum árum síðan að gæti komið til, þ.e. að ávöxtun ætti eftir að fara niður fyrir 4%. Þá hringja allar viðvörunarbjöllur lífeyrissjóðanna. Þetta er mál sem lífeyrissjóðirnir þurfa að taka á og mæta með þeim hætti sem best getur tryggt enn frekari ávöxtun sjóðanna. Og það hafa þeir gert. Þeir hafa keypt bréf og fleira á erlendri grund. Ekki er langt síðan að hér kom fram í blöðum fyrir hvað háar upphæðir þeir hafa fjárfest erlendis, og það er vel.

Allir stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum, hvorum megin borðsins sem þeir sitja, hvort heldur er vinnuveitenda- eða launþegamegin, leggja sig fram um að ávaxta sjóðina svo vel sem hægt er til þess að tryggja það að sjóðurinn standi við skuldbindingar sínar og til þess auðvitað að greiða mönnum út hæsta mögulega lífeyrinn þegar svo ber undir.

Eitt hefur stundum gleymst, eins og ég gat um í upphafi máls míns, og það er sá stóri þáttur sem lýtur að samtryggingunni, örorkunni, sem er orðinn allt of stór hluti af greiðslum lífeyrissjóðanna og er umhugsunarefni hvort ekki væri eðlilegt að beina því í annan farveg. En það er seinni tíma mál.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég get ekki stutt þetta frv. því að ég veit að meginhluti þess sem hér hefur verið sett á prent, a.m.k. hugurinn sem því máli fylgir, á að gera lífeyrissjóðina lýðræðislegri. En því fylgir ákveðinn vandi því að hér er um geysilegt fjármagn að ræða eins og flm. kom inn á. Málið verður ekki leyst með því sem hér hefur verið sett á prent í ljósi þess að menn leggja sig fram um að láta lífeyrissjóðina standa við skuldbindingar sínar og í annan stað vegna þess að frjálsir kjarasamningar hafa tekist milli verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda um það hvernig með skuli fara. Menn hafa treyst þeim aðilum fram til þessa og gera það væntanlega enn.