Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 19:12:42 (831)

1998-11-03 19:12:42# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[19:12]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær umræður sem hafa orðið um frv., sem er af hinu góða. Þetta hafa verið mjög góðar og málefnalegar umræður. Ég vil byrja á því að nefna það sem Össur Skarphéðinsson gat um, þ.e. er hvers eðlis þessi eign er í lífeyrissjóðunum.

Þetta er eign í réttindum, þ.e. sjóðfélaginn á ekki peningaeign hjá sjóðnum sínum, a.m.k. ekki þegar um er að ræða sameignarsjóð --- hann á það í séreignarsjóðum en ekki í sameignarsjóðum --- heldur á hann réttindi. Hann hefur þann rétt að maki hans fær makalífeyri og börnin barnalífeyri ef hann fellur frá um aldur fram. Hann á rétt á því að fá örorkulífeyri ef hann verður öryrki og hann á rétt á því að fá ellilífeyri verði hann gamall því verði hann mjög gamall þá eykst áhættan á að missa vinnuþrekið, jafnvel í 30 ár, frá sjötugu til hundrað ára aldurs.

Þetta eru réttindi sem hægt er að reikna upp á krónu og eyri. Það er hægt að reikna út með ákveðnum líkum hvað þessi réttindi eru mikils virði ef. Ef maðurinn fellur frá um sjötugt og á enga erfingja, hvorki börn né maka þá eru réttindin akkúrat engin á því augnabliki sem hann fellur frá. Þá lenti hann ekki í þeim áföllum sem sjóðurinn tryggði hann gegn, þ.e. að falla frá um aldur fram, verða öryrki eða verða gamall. Það eru ákveðnar, litlar, líkur á þessu en einnig því að maðurinn verði 100 ára gamall og taki því lífeyri í yfir 30 ár. Þetta er um réttindin.

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom inn á mjög mörg atriði sem að mestu leyti tengdust Lífeyrissjóði sjómanna. Meðhöndlun löggjafans á þeim ágæta sjóði er ein sorgarsaga. Til þess að liðka fyrir samningum í sjómannadeilu einhvern tíma lofuðu menn upp í ermina á sér með því að auka réttindi sjóðsins, auka réttindi sjóðfélaganna, auka skuldbindingu sjóðsins, án þess að neitt kæmi á móti. Lífeyrisaldurinn var lækkaður niður í 60 ár og ekkert var hugað að því hver ætti að borga. Og nú er komið á hreint að það er ekki ríkissjóður sem á að borga. Þetta verður því ekki greitt nema af sjóðfélögunum sjálfum og þeirra atvinnurekendum í formi annaðhvort hækkaðs iðgjalds eða með því að skerða réttindi sem ég hygg að verði lendingin. Löggjafarvaldið hefur því blandað sér í málefni þessa sjóðs á óviðurkvæmilegan hátt. Það er náttúrlega ófært að auka réttindin í sjóði með lögum án þess að gera ráð fyrir peningum til þess að greiða þau réttindi.

[19:15]

Hv. þm. kom líka inn á örorkuþáttinn sem er vissulega einn af agnúunum á núverandi kerfi vegna þess að starfsstéttir hafa mjög mismunandi örorkulíkur. Skrifstofufólk hefur allt aðrar örorkulíkur en sjómenn og verkamenn þannig að í raun þyrfti að vera hærra iðgjald í sjóði þar sem örorkulíkur eru háar.

Annað mál er að örorkuþáttur lífeyrissjóðanna hefur aukist mjög hratt á undangengnum árum. Mér finnst að lífeyrissjóðirnir þurfi að grípa til varna í því máli vegna þess að ég hygg að til séu dæmi um að þessi örorkulífeyrir sé misnotaður. Sú misnotkun kemur í veg fyrir að sjóðurinn geti borgað mannsæmandi og nauðsynlegan örorkulífeyri til þeirra sem raunverulega eru öryrkjar. Þetta er mjög mikið félagslegt vandamál sem taka þarf á.

Það að þessar bætur séu dregnar frá bótum tryggingafélaga er á margan hátt eðlilegt. Tryggingafélögin bæta mönnum það tjón sem þeir verða fyrir vegna slysa eða annars. Það á að draga frá allar bætur sem menn fá annars staðar frá. Aðild að lífeyrissjóðum er lagaskylda og þar með hafi löggjafinn fyrir fram bætt einstaklingnum það tjón sem hann kann að verða fyrir. Þetta er rökstuðningur fyrir því að tryggingafélögin geti notað þessar bætur til að minnka tjón sitt. Það á að sjálfsögðu að gilda um annan lögbundinn lífeyrissparnað, t.d. í séreignarsjóðum þannig að tryggingafélögin eiga ekki að bæta nema það tjón sem maðurinn verður fyrir.

Lífeyrissjóðirnir glíma við annan vanda og sumir eru byrjaðir að leysa hann. Sá vandi er fólginn í því að réttindin hafa verið óháð aldri þrátt fyrir að vitað sé að miðað við þá ávöxtunarkröfu sem gengið er út frá í útreikningum sjóðanna eigi ungur maður um tvítugt að fá þreföld réttindi fyrir sömu krónutölu á við mann sem er kominn yfir fimmtugt. Þetta hefur ekki verið gert. Ungi maðurinn hefur fengið sömu réttindi og sá aldraði og því hefur verið tilflutningur á réttindum milli aldurshópa. Þetta hefur svo leitt til þess að þegar sjóðir eru sameinaðir þarf að skerða réttindi þeirra sem skyldaðir voru af löggjafanum til þess að vera í lífeyrissjóði þar sem sjóðfélagar voru aldraðir. Ef maður var skyldaður til að vera í lífeyrissjóði þar sem voru eldri sjóðfélagar þá fengust ekki eins góð lífeyrisréttindi og hjá þeim sem var skyldaður til að vera í lífeyrissjóði með ungum sjóðfélögum. Þetta leiðir til þess að sjóðirnir standa mjög mismunandi að vígi. Það er algerlega óháð því hvernig sjóðstjórnunum hefur tekist að ávaxta sitt pund eða halda niðri kostnaði. Aldursdreifing sjóðfélaganna ræður mestu um hvort sjóðirnir standa vel eða illa. Þetta er náttúrlega ófært og þennan vanda þarf að leysa en hann er ekki auðleystur. Hugsanlega má nota þá háu vexti sem nú hafa verið í gildi til þess að leysa þennan vanda. Sumir lífeyrissjóðir eru að því en það gengur ekki fyrir alla sjóði. Þetta verður vandamál sem kemur væntanlega fram í að skerða þarf lífeyrisréttindi hjá sjóðunum sem hafa elstu félagana. Það er mjög hastarlegt að löggjafinn skuli skylda menn til að borga í slíka lífeyrissjóði. Svo eru réttindi þeirra skert af því að þeir voru skyldaðir í lífeyrissjóð sem er með mikið af gömlu fólki.

Hvers vegna er nauðsynlegt að breyta skipun stjórna núna? Það er vegna þess að 1. flm. telur sig hafa orðið þess áskynja að ekki séu miklar breytingar í stjórnum verkalýðshreyfingarinnar. Hann telur sig jafnvel skynja að lýðræðið sé ekki sérstaklega virkt í verkalýðshreyfingunni. Hann hefur áhyggjur af því hvað gerist með þessa miklu eign þegar þeir sem ekki eru lýðræðislega kosnir í verkalýðshreyfingunni stjórna lífeyrissjóðum. Í sjóðunum er jafnvel fjöldi félaga sem ekki eru í verkalýðshreyfingunni og hafa þar af leiðandi engin tök á því að hafa áhrif á stjórnina. Ég nefni t.d. Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda þar sem sjóðfélagar ráða engu um stjórnina. Ég tel það mjög brýnt vegna framtíðar þjóðarinnar, 20--40 ár fram í tímann ef við hugsum svo langt, að sjóðfélaginn komi að þessari eign sinni og geti haft áhrif á það hvernig eigninni er ráðstafað, í hverju er fjárfest og hverjir komi til með að stýra atvinnulífi þjóðarinnar í framtíðinni.

Varðandi það að sjóðstjórnirnar hafi ávaxtað vel, þá vil ég benda á að áður en Seðlabankinn fór að birta upplýsingar sínar úr reikningum lífeyrissjóðanna, eftir að löggjafarsamkundan ákvað að birta skyldi reikningana, þá voru margir sjóðirnir með allt að 30% af iðgjöldum sem rekstrarkostnað. Eftir að samanburðurinn kom fóru menn að skammast sín, þeir minnkuðu þennan kostnað og hann hefur minnkað mjög hratt. Sjóðirnir eru almennt mikið betur reknir nú en áður en þá kemur að ávöxtunarþættinum og ég held að enn hafi ekkert reynt á það, hvernig mönnum tekst til að ávaxta sitt pund.

Mér finnst mikilvægast í þessu máli að þegar löggjafinn skyldar fólk til að borga inn í svo stórt kerfi, þá geti fólk annaðhvort kosið með fótunum eða höndunum, þ.e. það geti valið sér lífeyrissjóð og losnað frá þeim lífeyrissjóði sem illa er stjórnað yfir í þá sem vel er stjórnað. En það má ekki skipta um sjóð, það eru a.m.k. mjög miklar hömlur á því. Þrátt fyrir allt hjal um félagafrelsi o.s.frv., að menn geti valið sér stéttarfélag og ég veit ekki hvað, þá eru menn nánast ánauðugir í stéttarfélögum og þar af leiðandi ánauðugir í viðkomandi lífeyrissjóði. Ég tel því mjög brýnt að þar sem menn geti ekki valið með fótunum eigi þeir að geta valið með höndunum, þ.e. kosið stjórnina. Ég tel mjög brýnt, þegar maður lítur 30 ár fram í tímann, að eitthvað í þá veru sem frv. gerir ráð fyrir verði samþykkt og sérstaklega verði tekið fram að sjóðfélagarnir eigi lífeyrissjóðinn sinn.