Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 19:23:55 (833)

1998-11-03 19:23:55# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[19:23]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki mótsögn vegna þess að ég gat þess sérstaklega að sjóðirnir væru ekki tryggingafræðilega réttir. Þeir eru ekki rétt útreiknaðir og það er mjög brýnt að taka á því þannig að yngra fólkið öðlist meiri réttindi en gömlu sjóðfélagarnir. Þegar búið er að gera sjóðina tryggingafræðilega rétta er enginn vandi að flytja réttindi á milli og þá geta menn valið. Ég sagði að það væri ekki heimilað að menn gætu valið um sjóði með fótunum og taldi því að menn yrðu að geta valið með höndunum. Hitt er ekki heimilað. Um leið og menn mundu opna fyrir val á lífeyrissjóðum, þá yrði að hafa réttindin háð aldri, kyni og jafnvel hjúskaparstöðu. Þeir sem eiga börn þyrftu að borga hærra iðgjald en þeir sem eru barnlausir út af barnalífeyrinum, og giftir þyrftu að borga hærra iðgjald út af makalífeyrinum. Um leið og menn kjósa að fólk geti valið um lífeyrissjóði, þá eru þeir um leið að segja að sjóðirnir þurfi að vera tryggingafræðilega réttir, þ.e. að réttindin verði háð aldri, kyni og hjúskaparstöðu.