Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:15:28 (846)

1998-11-04 14:15:28# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), DH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Undanfarin ár hafa umræður um áfengis- og vímuefnavandann verið fyrirferðarmiklar í samfélaginu. Í kjölfar aukinnar fíkniefnaneyslu sífellt yngra fólks hafa aðgerðir til að sporna gegn þessari óheillaþróun orðið fjölbreyttari og umfangsmeiri en áður var. Samspil reykinga, áfengisneyslu og eiturlyfja er margsönnuð. Sá unglingur sem byrjar að reykja er auðveldari bráð þegar honum eru boðin vímuefni. Þróun í fíkniefnaneyslu undanfarna áratugi er sífellt á verri veg og í kjölfarið hefur orðið veruleg vakning til vitundar um nauðsyn stefnumörkunar, skipulegs forvarnastarfs og faglegra vinnubragða í forvörnum. Það varðar þjóðarheill að við höldum vöku okkar í þessum efnum því að hver einstaklingur er okkur mikilvægur.

Í nýútkominni skýrslu frá fræðslumiðstöð í fíknivörnum um áfengis- og fíkniefnamál á Íslandi kemur margt athyglisvert fram en í þeirri skýrslu er í fyrsta sinn safnað á einn stað upplýsingum um stöðu og þróun þessara mála. Þar kemur m.a. fram að meðferðarrými og vistrými fyrir áfengis- og vímuefnafíkla eru samtals 445 fyrir alla aldurshópa. Bráðameðferð, greining, meðferð, eftirmeðferð fyrir börn og ungmenni eru 44 og vistrými í neyðarathvörfum og áfangastöðum eru á bilinu 15--20.

Í viðtölum mínum við foreldra sem eiga unglinga undir 18 ára aldri, sem eru í fíkniefnaneyslu, kemur fram að krafa þeirra númer eitt er að geta leitað á einn stað til hjálpar og leiðbeiningar í stað þess að vera vísað úr einum staðnum í annan. Það er erfið þrautaganga fyrir foreldra að koma börnum sínum í rétta meðferð og greiningu á vandanum.

Í nýlegri skýrslu heilbrrh. um geðvernd kemur í ljós að árangur á meðferðarúrræðum er harla lélegur. Er ekki ástæða til að gerð verði vönduð úttekt á meðferðarúrræðum þannig að það fé sem lagt er í þennan málaflokk nýtist sem best?

Hvað varðar forvarnir er það afar mikilvægt að félagslegt umhverfi sé þannig að fíkniefnavandi fái síður að þróast eða að úr honum dragi. Við foreldrar berum að sjálfsögðu mesta ábyrgð, síðan skólinn og umhverfið. Við verðum öll að taka ábyrga afstöðu og gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla einstaklinginn og gera hann sterkari.

Mörg sveitarfélög hafa í auknum mæli verið að móta sína eigin stefnu í skipulögðum forvörnum í samstarfi við foreldra, félagsmiðstöðvar og ungmenna- og íþróttafélögin. Það þarf að efla forvarnastarf hjá lögreglu og tryggja að löggæsla og tollgæsla hafi á að skipa þeim mannafla og búnaði sem gerir þeim kleift að stemma stigu við innflutningi, dreifingu, sölu og meðferð fíkniefna.

Virðulegi forseti. Við skulum hafa það í huga að börnin eru framtíð hverrar þjóðar. Þau eru okkar fjöregg.