Úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 14:31:52 (851)

1998-11-04 14:31:52# 123. lþ. 19.91 fundur 91#B úrræði fyrir ungmenni í vímuefnaneyslu# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Því miður er notkun fíkniefna orðin svo útbreidd hérlendis að æ fleiri þekkja í sínu nánasta umhverfi einhvern sem hefur eyðilagt líf sitt og sinna nánustu með neyslu. Ég ætla því ekki að endurtaka það sem hér hefur verið sagt um hörmungar þessa máls.

Stríðið gegn þessum vágesti þarf að heyja á mörgum vígstöðvum. Það er ekkert eitt úrræði sem dugar í þessari baráttu. Í fyrsta lagi þarf að huga að dreifingarleiðum efnanna en það er fyrst og fremst með tollgæslu og eflingu hennar sem það er gert. Það hafa verið lagðir auknir fjármunir til þess og það er nauðsynlegt að þeir nýtist sem best til þeirra hluta. Í öðru lagi er meðferð og rannsókn mála. Mjög mikið verk hefur verið unnið í því og í löggjöf á Alþingi að endurskipuleggja löggæslu og dómstóla í landinu og vonandi skilar það sér í auknum árangri í þessu efni. Hitt er ekki síst mikilvægt að forvarnir í þessu máli séu í lagi og séu eins miklar eins og mögulegt er. Auðvitað þarf að huga að öllum greinum í því. Það eru fjölmargir aðilar í samfélaginu sem geta tekið að sér hlutverk á þessu sviði. Skólarnir hafa verið nefndir hin frjálsu félagasamtök og samtök sem starfa sérstaklega á vettvangi fíkniefna- og vímuefnamála. Ég vil ekki síst undirstrika að starf hinna frjálsu félagasamtaka og sjálfboðaliða sem starfa á því sviði í landinu er afar mikilvægt í þessu efni og þarf að huga að starfsaðstöðu þeirra og þá ekki síður starfsaðstöðunni í skólunum.

Það sem mest hefur verið rætt um í þessari umræðu er eftirmeðferðin og úrræðin í þeim efnum þegar skaðinn er skeður og menn standa frammi fyrir hinum miklu hörmungum og afleiðingum af fíkniefnaneyslunni. Það hefur verið rakið hér að ýmislegt hefur verið gert til þess að auka meðferðarúrræðin og ég ætla tímans vegna ekki að endurtaka það en ég vil undirstrika í því sambandi að viljinn er áreiðanlega fyrir hendi að verja í þetta auknum fjármunum en þeir verða að nýtast til vel skilgreindra og afmarkaðra verkefna. Þeir fjármunir verða að koma að gagni og skipulagið verður að vera fyrir hendi. Ég hygg að hér séu meðferðarstofnanir sem eru fullfærar um að taka að sér meðferð með árangri.

En ef til vill er tíska og tíðarandi og sýndarveruleikinn í þjóðfélaginu hættulegasti áhrifavaldurinn í allri þessari þróun og sá þáttur sem erfiðast er að meta og berjast gegn.