Fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:01:52 (861)

1998-11-04 15:01:52# 123. lþ. 20.1 fundur 130. mál: #A fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á aðalskrifstofu menntmrn. hefur fækkað um 3,7 stöðugildi og má rekja þá fækkun til flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna. Þá er þess einnig að geta að í kjölfar flutnings grunnskólans til sveitarfélaga voru fræðsluskrifstofur lagðar niður en við þær voru 71,55 stöðugildi. Fræðsluskrifstofurnar sinntu stjórnsýsluverkefnum á vegum menntmrn. þannig að segja má að alls hafi stöðugildunum fækkað um 75 eða þar um bil hjá ríkinu við að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna, þ.e. ef litið er á aðalskrifstofu menntmrn. og fræðsluskrifstofurnar.

Starfsmannahaldið í ráðuneytinu hefur einnig tekið öðrum breytingum en þeim sem hér hefur verið lýst. Skipan ráðuneytisins hefur verið breytt. Sett hefur verið upp mats- og eftirlitsdeild sem tekið hefur að sér eftirlits- og matshlutverk varðandi grunnskólastigið og einnig hafa verkefni verið flutt frá ráðuneytinu til Sambands ísl. sveitarfélaga að því er varðar svokallaðar kennaraskrár og eftirlit með þeim. En stöðugildin sem fækkað hefur í ráðuneytinu og á vegum þess eru um 75.