Fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:06:40 (864)

1998-11-04 15:06:40# 123. lþ. 20.1 fundur 130. mál: #A fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mér finnst viðbrögð hv. fyrirspyrjanda benda til þess að hann hafi ekki áttað sig á því hvernig grunnskólahaldinu var háttað í höndum ríkisvaldsins. Yfirstjórn stjórnsýslu grunnskólanna hafði þegar verið flutt að verulegu leyti úr menntmrn. til fræðsluskrifstofanna þannig að það var aldrei við því að búast að veruleg mannafækkun yrði í menntmrn. sjálfu við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, enda var aldrei lagt upp með að fækka ætti verulega starfsfólki ráðuneytisins. Því hefur á hinn bóginn fækkað og það að stofnuð var mats- og eftirlitsdeild er ekki til marks um að fjölgað hafi verið í öðrum störfum. Þar var um tilflutning á fólki innan ráðuneytisins að ræða. Menn verða að meta stöðuna fyrir og eftir flutning grunnskólans og kynna sér verkefni ráðuneytisins til þess að hafa uppi þá gagnrýni sem hv. þm. var með. Hann vænti þess að meiri fækkun yrði í starfsliði ráðuneytisins við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Verkefnin höfðu þegar verið flutt úr ráðuneytinu til fræðsluskrifstofanna.

Sveitarfélögin hafa síðan tekið á þessu hvert með sínum hætti og skipulagt skólaskrifstofur öðruvísi en var þegar ríkisvaldið eða menntmrn. stóð að rekstri fræðsluskrifstofanna. Því miður hef ég ekki þær tölur enda er það ekki skylda sveitarfélaga að gera ráðuneytinu grein fyrir því hvernig þau haga mannaráðningum sínum fyrir grunnskólann að þessu leyti. Þess vegna hef ég ekki tölurnar en að sjálfsögðu væri hægt að afla þeirra. Ef þess væri óskað og fyrirspurn lögð fram um það þá yrði að sjálfsögðu hægt að afla slíkra upplýsinga frá sveitarfélögunum. Starfslið á skólaskrifstofum hlýtur að liggja fyrir í hverju sveitarfélagi fyrir sig og ekki um nein leyndarmál að ræða af hálfu sveitarfélaganna.

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta það að mér þótti hv. fyrirspyrjandi gefa allt annað til kynna en er í raun og veru með starfsemina og hvernig henni var háttað í menntmrn. áður en grunnskólinn fluttist frá ríkinu til sveitarfélaganna. Hann var að dylgja um að illa væri að starfsmannahaldi staðið af hálfu ráðuneytisins og lét í það skína að um óeðlilega hluti væri að ræða. Hann hefur engar forsendur til að komast að þeirri niðurstöðu. Mér virtist hann alls ekki vita hvernig þessum málum hefði verið háttað.