Fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:09:51 (865)

1998-11-04 15:09:51# 123. lþ. 20.1 fundur 130. mál: #A fjöldi starfsmanna í menntamálaráðuneyti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hlýt að bera af mér þessi algerlega tilhæfulausu orð hæstv. menntmrh. í minn garð. Það fólust engar dylgjur í máli mínu. Ég reyndi ekki að gera málið tortryggilegt eins og hæstv. ráðherra lét hér að liggja. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að hafa farið öfugu megin fram úr í morgun. Ég sagði þessar upplýsingar hins vegar áhugaverðar. Ég tel að þær séu athyglisverðar og það séu fullkomlega rök fyrir því sem ég sagði. Það hlýtur fleirum en mér að þykja fróðlegt að skoða hvernig mannahaldið hefur breyst, annars vegar hjá ráðuneytinu og hins vegar hjá sveitarfélögunum. Ef það kemur á daginn sem þegar virðist liggja fyrir, samanber það sem kom fram hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, þá hefur hæstv. menntmrh. síst allra tilefni til aðdróttana af þessu tagi í minn garð. Að ég hafi farið með dylgjur og verið að reyna að gera þetta tortryggilegt með einhverjum hætti, að ég viti ekkert um hvað málið fjalli, að mér hafi greinilega verið alls ókunnugt um hvernig stjórnsýslu grunnskólans var háttað áður en til flutningsins kom, það eru dylgjur. Þetta eru algerlega órökstuddir sleggjudómar hæstv. ráðherra en ekki orð mín áðan. Ég vísa þessu til föðurhúsanna og hvet hæstv. ráðherra til að huga betur að því á morgnana hvorum megin hann fer fram úr rúminu.