Afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:23:57 (871)

1998-11-04 15:23:57# 123. lþ. 20.3 fundur 27. mál: #A afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrirspurn sem ég veit að hæstv. ráðherra er án efa mjög kærkomið að fá tækifæri til að svara og það er að fá nánari skýringar á ummælum sem hæstv. ráðherra lét falla á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins. Það voru auðvitað stórfréttir sem þar komu fram þegar hæstv. ráðherra lýsti því sem sérstöku forgangsverkefni eða áhugamáli sínu, með orðum sem ég man nú ekki nákvæmlega utan að en er auðvitað hægt að fletta upp, að afnema eða draga a.m.k. úr skerðingu bóta til öryrkja vegna tekna maka. Ég vísa þar sem sagt í yfirlýsingu hæstv. ráðherra á nefndum fundi.

Þetta er stórt hagsmunamál og hefur farið ákaflega fyrir brjóstið á mönnum af eðlilegum ástæðum því að þessi hópur er í rauninni í niðurlægjandi stöðu þegar fjölskyldur þar sem önnur fyrirvinnan er öryrki, geta ekki bætt stöðu sína með aukinni vinnuþátttöku hins aðilans eins og aðrar fjölskyldur í landinu heldur verða tekjur makans sjálfkrafa til þess að skerða bætur bótaþegans. Ég spyr því í fyrsta lagi, herra forseti: Hvenær er áætlað að afnám skerðingar bóta til öryrkja vegna tekna maka komi til framkvæmda? Í öðru lagi: Hvað kosta þessar breytingar og er gert ráð fyrir fjárveitingum í þessu skyni til að mynda í fjárlagafrv. næsta árs þannig að við megum vænta þess að ekki verði löng bið á því að þetta komi til framkvæmda, a.m.k. að framkvæmdin hefjist? Á mannamáli þýðir þetta auðvitað, herra forseti: Koma þessar breytingar til framkvæmda fyrir kosningar eða á að vísa því inn í framtíðina?