Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:15:43 (893)

1998-11-04 16:15:43# 123. lþ. 20.7 fundur 154. mál: #A fræðsla fyrir erlenda ferðamenn# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:15]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Í sumar varð nokkur umræða um hvernig erlendir ferðamenn sem hingað koma eru upplýstir um þau lög og reglur sem hér gilda eða þær hættur sem kunna að leynast í íslenskri náttúru. Þessi umræða varð í kjölfar hörmulegs umferðarslyss þegar frönsk kona lét lífið í bílslysi eftir að bíllinn sem hún var í ók á sauðkind. Þá gerðist það einnig að bíll með erlendum ferðamönnum valt af sömu ástæðu, vegna lausagöngu búfjár meðfram vegum landsins. Og í þriðja lagi gerðist það að þýskir ferðamenn festu bíl sinn í leir utan vega uppi á hálendinu, en einnig varð umræða um það vegna þess að sýslumaður viðkomandi sýslu ákvað að láta ferðamennina sleppa við sektir og fresta því að taka á málinu um eitt ár þegar yrði komið í ljós hvort verulegar skemmdir hefðu orðið á náttúrunni. Þessu mótmælti umhvrn. Allt þetta olli því að hér urðu töluverðar umræður um hvernig ferðamenn sem hingað kæmu væru upplýstir. Það vekur spurningar um hvort ekki þurfi að taka verulega á í þeim efnum.

Það kom fram að Umferðarráð hefur unnið að því að koma upplýsingum til erlendra ferðamanna um ástand vega og umhverfi þeirra á Íslandi. Ráðið hefur látið gera myndbönd og bækling á fimm tungumálum sem dreift hefur verið á bílaleigur. En í blaðaviðtölum við fulltrúa Umferðarráðs kom fram að þeir hefðu miklar efasemdir um að þær upplýsingar kæmust til skila.

Það koma auðvitað ýmsir fleiri að þessum málum, eins og Ferðamálaráð og fleiri aðilar. En það er hræðilegt að horfa upp á fólk láta lífið, slasast og bíla eyðileggjast, m.a. vegna lausagöngu búfjár, og ekki síst að menn vinni tjón á íslenskri náttúru vegna þess að þeir telja sig ekki vita hvaða lög og reglur gilda hér.

Vegna alls þessa beini ég þremur spurningum til hæstv. samgrh.

Í fyrsta lagi: Hvaða reglur gilda um fræðslu fyrir erlenda ferðamenn sem koma hingað til lands?

Í öðru lagi: Hvaða kynningarefni fá erlendir ferðamenn í hendur við komu til landsins og hvert er inntak þess?

Í þriðja lagi: Hvaða áform eru uppi um að bæta fræðslu fyrir erlenda ferðamenn í ljósi nýlegra slysa á ferðamönnum og gáleysislegrar umgengni þeirra við landið?