Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:18:47 (894)

1998-11-04 16:18:47# 123. lþ. 20.7 fundur 154. mál: #A fræðsla fyrir erlenda ferðamenn# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Spurt er: Hvaða reglur gilda um fræðslu fyrir erlenda ferðamenn sem koma hingað til lands?

Ekki eru neinar reglur um fræðslu fyrir erlenda ferðamenn sem koma til Íslands. Þrátt fyrir það hefur verið lögð mikil áhersla á að auka kynningar- og upplýsingaþáttinn á undanförnum árum. Árið 1987 var opnuð Upplýsingamiðstöð ferðamála í Reykjavík þar sem erlendir ferðamenn leita sér upplýsinga um allt sem varðar ferð þeirra um Ísland. Nú koma um 90 þúsund gestir árlega í þessa upplýsingamiðstöð.

Í framhaldi af opnun hennar hafa síðan alls 42 upplýsingamiðstöðvar verið opnaðar á landinu og gegna þær lykilhlutverki í að koma réttum upplýsingum beint til ferðamanna og auka þannig öryggi ferðafólks á ferð um Ísland. Á þessu ári var opnuð upplýsingamiðstöð í Leifsstöð. Í bæklingi Ferðamálaráðs sem dreift er í 300 þúsund eintökum á níu tungumálum eru ýmsar leiðbeiningar um akstur á Íslandi og umgengni við landið.

Árið 1994 hóf Veðurstofan að gefa út veðurspá á ensku til ferðamanna og er sú spá nú á símsvara eins og aðrar spár. Á sama hátt gefur Vegagerðin einnig upplýsingar um færð á ensku. Viðkomandi símanúmer eru í kynningarefni Ferðamálaráðs.

Fyrir örfáum árum var unnið samstarfsverkefni samgrn., dómsmrn., umhvrn., Ferðamálaráðs, Náttúruverndarráðs, Vegagerðar, Slysavarnafélags og lögreglu, þar sem allar aðkomuleiðir að hálendinu voru merktar með varúðarmerkjum svo og gefinn út sérstakur bæklingur um akstur á hálendi og reglur um umgengni við landið.

Spurt er í öðru lagi: Hvaða kynningarefni fá erlendir ferðamenn í hendur við komu til landsins og hvert er inntak þess?

Erlendir ferðamenn koma til landsins aðallega á fjórum stöðum: Í Leifsstöð, á Reykjavíkurflugvöll, til Seyðisfjarðar og einnig til Akureyrar. Ekkert samræmt efni er afhent hverjum og einum ferðamanni sem kemur til Íslands. Alls konar upplýsinga- og fræðsluefni liggur frammi á upplýsingamiðstöðinni í Leifsstöð svo og við komu til Seyðisfjarðar. Þá liggur upplýsinga- og fræðsluefni frammi hjá bílaleigum auk áðurnefndum upplýsingamiðstöðvum.

Hvað varðar inntak þessa efnis þá er það mjög breytilegt en áhersla hefur verið lögð á, sérstaklega á Seyðisfirði og á bílaleigum, að þar væri áðurnefndur bæklingur og einnig bæklingur Umferðarráðs þar sem farið er yfir helstu reglur um akstur hér á landi.

Spurt er í þriðja lagi: Hvaða áform eru uppi um að bæta fræðslu fyrir erlenda ferðamenn í ljósi nýlegra slysa á ferðamönnum og gáleysislegrar umgengni þeirra við landið?

Eins og fram hefur komið í svörum hér að framan hefur stöðugt verið unnið að því að bæta og auka upplýsingaefni fyrir erlenda og innlenda ferðamenn og bæta aðgengi að því. Nú er unnið að endurbótum á vefsíðu Ferðamálaráðs þar sem enn frekari áhersla verður lögð á öryggis- og umgengnisþáttinn en fyrr. Kannanir sýna að stöðugt hærra hlutfall erlendra gesta okkar leitar sér upplýsinga á vefnum áður en ferð hefst.

Í stefnumótun samgrn. í ferðamálum og framkvæmdaáætlun hennar frá 1997 er lögð áhersla á að nýta nýjustu tækni til að reyna að tryggja að upplýsingar nái til ferðamanna. Í samræmi við þetta er nú unnið að frekari þróun rafrænnar upplýsingamiðlunar auk þess sem áhersla verður lögð á að kynna betur þá möguleika sem fyrir hendi eru nú þegar með upplýsingum til erlendra ferðamanna á símsvörum Vegagerðar og Veðurstofu.

Þá er einnig í samræmi við niðurstöður áðurnefndrar stefnumótunar að hefjast aukið samstarf á milli stofnana samgrn. og umhvrn. þar sem m.a. verður unnið að aukinni fræðslu varðandi umgengni ferðafólks við landið og einnig varðandi útbætur á ferðamannastöðum, þar með taldar merkingar t.d. við hveri og heitar laugar. Þannig er stöðugt verið að leita leiða til að koma upplýsingum til erlendra og innlendra ferðamanna og auk byltingarinnar, sem orðið hefur með tilkomu rafrænna upplýsingaleiða. Segir aukningin úr einni upplýsingamiðstöð á landinu 1987 í 42 ellefu árum síðar sína sögu um þær áherslur.

Ég vil síðan bæta því við að Vegagerð ríkisins hefur unnið mjög skipulega og vel að því að bæta merkingar úti á þjóðvegum landsins, bæði þar sem eru einbreiðar brýr og þar sem vænta má að búpeningur sé rekinn yfir hringveginn eða fjölfarna vegi og á hverju ári er unnið að því að loka hólfum eða girða meðfram vegum til þess að reyna að draga úr því að hætta sé á að kindur eða búpeningur hlaupi fyrirvaralaust út á þjóðvegi landsins.