Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:25:18 (896)

1998-11-04 16:25:18# 123. lþ. 20.7 fundur 154. mál: #A fræðsla fyrir erlenda ferðamenn# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:25]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að setja reglur um kynningu á hættum í íslenskri náttúru og það kemur á óvart að engar reglur skuli vera til. Í öðrum löndum, þar sem ferðaþjónusta er þróuð, eru slíkar kynningar í gangi fyrir hvern ferðamann sem kemur inn í landið. Í Afríku er t.d. varað við því að ekki sé óhætt að vera á gangi úti þar sem villt rándýr gætu verið og einnig varað við vatni sem ekki er drykkjarhæft o.s.frv.

Sérstaklega vil ég minna á slys þar sem ungur ferðamaður varð úti hér á landi þegar hann var á leið yfir úfið hraun. Það þarf því að vara við úfnum hraunum, hálendinu og jöklunum, landsvæðum sem geta verið viðsjárverð í slæmum veðrum.

Annað vil ég minna á varðandi lausagöngu búfjár og bílslys af hennar völdum, að nauðsynlegt er að setja upp skilti til að benda ferðamönnum á að þarna geti verið á ferðinni kvikfénaður sem hleypur óforvarandis yfir vegi. Í Ástralíu eru þeir með skilti um allt meðfram vegum þar sem kengúrur hlaupa gjarnan yfir og einnig í Evrópu eru víða slík skilti með myndum af villtum dýrum, t.d. elg, þar sem hætta er á að þeir hlaupi yfir vegi. Það er auðvitað nauðsynlegt að gera slíkt hér meðan búfé er hlaupandi yfir þjóðvegi landsins.