Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:26:56 (897)

1998-11-04 16:26:56# 123. lþ. 20.7 fundur 154. mál: #A fræðsla fyrir erlenda ferðamenn# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það kemur mér á óvart að engar reglur skuli vera í gildi hér um fræðslu til erlendra ferðamanna og má nú undarlegt heita miðað við þau fjölmörgu slys sem hafa orðið á undanförnum árum og áratugum. Fyrir utan þau dæmi sem hafa verið nefnd í umræðunni þá minnist ég þess að hörmuleg slys hafa orðið í jökulám, ísköldum jökulám, þar sem fólk áttar sig ekki á hversu hættulegar íslenskar ár geta verið. Það hafa orðið mjög alvarleg brunaslys í laugum og hverum. Fólk hreinlega áttar sig ekki á því hvað íslensk náttúra getur verið hættuleg um leið og hún er ægifögur. Og hingað koma flestir til að skoða íslenska náttúru.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að setja reglur um þetta til að reyna að tryggja að þessi mjög svo nauðsynlega fræðsla berist hverjum einasta ferðamanni sem hingað kemur. Það er ekki þar með sagt að fólk lesi þær upplýsingar sem það fær, það þarf ekki endilega að vera lesefni, og hægt er með ýmsu móti að koma upplýsingum til fólks. Við eigum að gera það sem við getum til að efla hér ferðaþjónustu. En við þurfum líka að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir hörmuleg slys og einnig auðvitað til að verja íslenska náttúru því að hún er eitt það dýrmætasta sem við eigum.