Áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:36:34 (902)

1998-11-04 16:36:34# 123. lþ. 20.8 fundur 155. mál: #A áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:36]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Svar hæstv. samgrh. er dæmigert fyrir íslensk stjórnvöld. Hér hefur þetta stóra mál, aðildin að Schengen-samkomulaginu, verið til umræðu ár eftir ár. Samt hefur ekki verið gerð nein úttekt á áhrifum aðildarinnar á ferðaþjónustuna. Það er auðvitað alveg ljóst að ferðaþjónustan mun a.m.k. að hluta til þurfa að greiða töluverðan kostnað.

Mér er það minnisstætt að ég hitti einn af forráðamönnum Flugleiða fyrir svona tveimur árum. Hann hafði gríðarlegar áhyggjur af þessu. Fyrst og fremst þyrftu Flugleiðir hugsanlega að endurskipuleggja allt sitt ferðaprógramm vegna aukinnar tollgæslu í Keflavík og hvort þeir næðu að senda sína farþega áfram vegna þessarar tollgæslu. Það er alveg ljóst að þetta samkomulag mun hafa víðtæk áhrif fyrir utan aðrar hliðar á því og hvort við eigum eitthvert erindi þangað inn þegar allt kemur til alls. Einnig varðandi eiturlyfjamálin og lögreglusamvinnu og hitt og þetta. Þetta er mál sem kallar á mikla umræðu en það er auðvitað dæmigert að íslensk stjórnvöld reyna ekkert til þess að átta sig á afleiðingum samningsins.