Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:33:13 (916)

1998-11-05 11:33:13# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir fræðsluna en hún var óþörf vegna þess að í spurningu minni fólst akkúrat þetta, að mér er vel ljóst að einungis aðildarríki Evrópusambandsins geta verið fullgildir meðlimir í Vestur-Evrópusambandinu. Enda spurði ég hvort það væri skoðun hv. þm. að samtímis því sem við stefndum á fulla aðild að Evrópusambandinu, en ekki hægfara innlimun aftan frá eins og nú hefur verið í gangi, stefndum við einnig að fullgildri aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Það tvennt gæti að sjálfsögðu farið saman í stefnumótun stjórnvalda enda rökrétt að menn tækju afstöðu til þess í samhengi við það hvort menn ætla inn í Evrópusambandið eða ekki, hvort menn ætla þá jafnframt inn í Vestur-Evrópusambandið.

Ég er svo loks sammála hv. þm. um að ég hef ekki séð ljósið í því að efla þennan hernaðararm Evrópusambandsins til mikilla dáða og ég er ekki viss um að það væri framför frá því sem nú er, og er þá mikið sagt af minni hálfu. Ég tel þvert á móti að menn ættu að reyna að bakka út úr því og var á móti þessari aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu sem var troðið upp á Ísland á sínum tíma.

En mér finnst að hv. þm. ætti að tala hérna eins skýrt og honum er nokkur kostur. Það er lítil afgreiðsla á minni spurningu að segja að ekki sé tímabært að svara því hvort við eigum að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu ef við ætlum inn í Evrópusambandið. Það er einmitt tímabært og þarf að liggja fyrir hvað menn ætlast fyrir í þessum efnum hvað hina stóru drætti varðar.