Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:09:16 (920)

1998-11-05 12:09:16# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. eins og aðrir ræðumenn fyrir yfirgripsmikla ræðu en eyði tímans vegna ekki orðum í kurteisishjal. Ég ætla að snúa mér beint að því sem ég vil taka fyrir.

Í fyrsta lagi finnst mér óskaplega mærðarlegt tal hæstv. utanrrh. í ræðunni um 50 ára afmæli NATO. Þegar ég las þetta fékk ég þá tilfinningu að þetta hlyti að vera einhver ástkær fjölskylduvinur hæstv. ráðherra sem yrði fimmtugur á næsta ári, svo hlýlegur er textinn. Ég er viss um að þó að einhver af nánustu vinum eða ættingjum ráðherrans ætti í vændum stórafmæli, þá kæmist ráðherrann varla hlýlegar að orði.

Eins verð ég að segja að mér finnst hæstv. ráðherra hneigjast til að nánast umskrifa söguna þegar hann víkur að ágreiningi um utanríkismál á liðnum áratugum. Hann setur það t.d. alltaf þannig fram að enginn ágreiningur hafi verið um utanríkismál í Framsfl. og Alþfl. um aðild að Atlantshafsbandalaginu og gerð herstöðvarsamningsins. Er hæstv. ráðherra að reyna að umskrifa söguna svona 50 árum síðar og breiða yfir þá staðreynd að djúpstæður ágreiningur og hörð átök voru um þessar stóru ákvarðanir í Framsfl. og Alþfl.? Ég veit ekki betur en að þingmenn bæði úr Framsfl. og Alþfl. hafi setið hjá eða greitt atkvæði gegn NATO-samningnum á sínum tíma. Í Alþfl. voru það t.d. þeir Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson og a.m.k. einn nafngreindur þingmaður Framsfl., að því er ég best veit. Fleiri voru síðan andvígir gerð herstöðvarsamningsins. Um áratuga skeið var forusta Framsfl. klofin í þessu máli eða minnist enginn lengur Hermanns Jónassonar og fleiri forustumanna á þeim kanti? Það er auðvitað mál núv. formanns Framsfl. hvaða virðingu hann vill sýna sjónarmiðum genginna forustumanna flokksins.

Ég fagna í öðru lagi, herra forseti, ákvörðun um að opna skrifstofu fastanefndar Íslands í Vín við stofnunina um öryggi og samvinnu í Evrópu. Ég fagna sömuleiðis því að stefnt er að framboði í öryggisráðið og styð hvort tveggja heils hugar. Enn fremur tek ég undir það sem hæstv. ráðherra segir um stofnun alþjóðlegs sakadómstóls, þ.e. niðurstöðuna frá því í Róm á sl. sumri. Ég hvet hæstv. ráðherra til að reyna að hraða fullgildingu samningsins af Íslands hálfu. Það skyldi þó aldrei verða svo að við gætum orðið í hópi fyrstu þjóða því að síðast þegar ég vissi hafði engin þjóð fullgilt samninginn. Við vorum í hópi þeirra fyrstu sem skrifuðum undir hann og vissulega væri ánægjulegt ef það gerðist aldrei þessu vant að Íslendingar yrðu í hópi þeirra fyrstu eða jafnvel fyrstir til að fullgilda slíkan tímamótasamning. Fastadómstóll um glæpi gegn mannkyninu væri að sjálfsögðu stórkostleg framför í hinu alþjóðlega samfélagi hvað þessi réttarmál varðar.

Þá verð ég að segja, herra forseti, að ég tel orðalagið í kafla um auðlindir og umhverfi í ræðu hæstv. ráðherra ekki vandað. Ég er ekki sammála því að það verði okkur til framdráttar að reka þessi samskipti undir jafnneikvæðum formerkjum og mér finnst hæstv. ráðherra gera. Hér segir t.d., með leyfi forseta:

,,Umfjöllun um sjávarútveg á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tengist í síauknum mæli umræðu um umhverfismál. Þessi þróun þarf ekki að vera neikvæð.``

Dýpra er ekki tekið í árinni. Mér finnst þetta of neikvæð framsetning. Ég tel að við eigum að fagna því að aukin umræða og meðvitund í umhverfismálum sé á ferðinni varðandi nýtingu lífrænna auðlinda. Það mun fyrr en síðar verða okkur til góða og styrkja stöðu okkar, ef við bregðumst rétt við og látum það vinna með okkur. Þessi texti er að mínu mati óþarflega neikvæður. Við eigum auðvitað ekki að láta undan síga fyrir því sem við teljum óskynsamlegan áróður í þessum efnum. Við eigum hins vegar ekki að taka sjálfri grundvallarþróuninni að umhverfismálin séu í vaxandi mæli tvinnuð saman við atvinnulífið og auðlindanýtinguna sem neikvæðri, alls ekki. Þess vegna eigum við að segja: Við teljum það jákvætt að umhverfismál séu í vaxandi mæli á dagskrá samhliða nýtingu lífrænna auðlinda.

Sömuleiðis er, herra forseti, þetta afdráttarlausa orðalag um andstöðu okkar við ríkisstyrki ekki að öllu leyti réttlætanlegt og hægt sé að kenna styrkjunum meira og minna um alla ofveiði sem er í heiminum. Þá er talið að styrkirnir hamli frjálsri samkeppni o.s.frv. Erum við þá orðnir alveg sérstakir boðberar einhverrar frjálshyggju eða kapítalisma í þessum efnum? Ég kem reyndar að því síðar hvernig mér finnst hæstv. ráðherra vera fánaberi þeirrar hugsunar.

Ég er sammála því að við eigum að berjast gegn ríkisstyrkjum sem bjagar samkeppni þegar í hlut eiga stórútgerðir, úthafsútgerðir, t.d. styrkir Evrópusambandsins til togaraútgerðar o.s.frv. En er það alveg jafnvíst að við getum fordæmt með öllu stuðning t.d. við afskekkt byggðarlög í Norður-Noregi eða stuðning Færeyinga við smábátaútgerð og hefðbundna línubátaútgerð sem er undirstaða byggðar í mörgum byggðarlögum Færeyja?

[12:15]

Ef hlutirnir eru á þeim nótum, er það þá ekki nokkuð annað mál? Ég held að við eigum að vara okkur á því og gera þá a.m.k. skýran greinarmun á því sem er annars vegar það sem við teljum vera samkeppnisbjagandi ríkisstyrki til stórútgerðar og stórrekstrar og hins vegar því sem er í raun og veru byggðastuðningur við afskekkt byggðarlög, vistvænar veiðar, smábátaútgerð og annað því um líkt. Ég tek ekki undir þessar alhæfingar eða þetta afdráttarlausa orðalag sem þarna er á ferðinni.

Dapurleg er auðvitað áfram tvískinnungsframsetningin í sambandi við Kyoto, þar sem menn þykjast í öðru orðinu vera ákaflega áhugasamir um að mannkynið nái árangri í að takmarka losun en hins vegar er algjörlega ómögulegt fyrir Íslendinga að taka þátt í slíkum samningi.

Ég fagna því að komið er inn á þróunarsamvinnu og nefnt að hún er að aukast en minni á að það er úr grátlega lágum upphæðum og enn er óralangt í land að við Íslendingar komumst í hóp þeirra ríkja sem gera skyldur sínar í þessum efnum.

Þá vil ég nefna aðeins umfjöllun um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og efnahagsmál. Þar er orðalag hæstv. ráðherra --- og reyndar á nokkrum stöðum í viðbót --- í raun og veru ótrúlega blind frjálshyggja og markaðshyggja. Það segir t.d. að á fundum efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna leggi Ísland sérstaka áherslu á að þróunarríkin innleiði markaðsbúskap. Það er talað um þetta sama í sjávarútveginum. Og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði lesið ræðu sem hæstv. ráðherra hélt á ársfundi Íslensk-ameríska verslunarráðins og þar var enn fastar að orði kveðið. Þar er svo langt gengið í markaðshyggju, í frjálshyggju, að langt er síðan ég hef lesið slíkan texta. Í þeirri ræðu sem flutt var snemma í október sl., segir ef ég má, með leyfi forseta, vitna í þetta á enskri tungu:

,,The case for free trade remains an overwhelmingly strong one. Despite the temptation succumbed by many politicians to seek shelter from competition by putting up new barriers against trade, foreign investment or free flows of capital.``

Víðar hefur hæstv. ráðherra sett þessa skoðun sína fram, að nú megi hvergi hvika. Og þó að á bjáti í efnahagsmálum heimsins þá sé aðalatriðið að slá ekki undan í markaðshyggjunni og frjálshyggjunni. Það er langt síðan ég hef heyrt svona hetjulega málsvörn fyrir þessari óheftu markaðshyggju eins og maður heyrir nú frá formanni Framsfl. sem er greinilega orðinn sérstakur talsmaður þessara sjónarmiða og er á góðri leið með að gera Hannes Hólmstein óþarfan.

Þetta er annað en maður les í mörgum virtum dálkum og efnahagstímaritum um þessar mundir þar sem hagfræðingar, viðskiptafræðingar og efnahagsrýnendur --- jafnvel af ysta hægri kanti sem inn að miðju --- eru komnir á þá skoðun að þetta gangi ekki eins og þetta er. Að hið frjálsa og stjórnlausa fjármagnsflæði sé að leiða okkur í gífurlegar ógöngur. Þetta rafvædda kerfi sem meira og minna er farið að fúnkera sjálft er stórhættulegt. Það er orðið að ófreskju sem menn hafa meira og minna misst stjórn á. Þegar tölvur eru sjálfar farnar að kaupa og selja verðbréf samkvæmt innbyggðum skipunum, samkvæmt viðmiðunum sem eru byggðar inn í prógrömmin og forritin, þá er það orðið meira en lítið alvarlegt mál. Ef Dow Jones vísitalan sígur um þetta eða vextir á ríkisskuldabréfum hækka um þetta, eða ef verðfall verður í Tókíó þá fer af stað forrit og tölvan fer að selja verðbréf á fullu. Og milljarðar og milljarðatugir og þúsundir milljarða flæða um í þessu stjórnlausa kerfi, sem allir sem ég hef rætt við eru orðnir sammála um að sé stórhættulegt og sé í raun og veru það sem magni núna þær kreppur sem eru að hrista efnahagslíf heimsins. En formaður Framsfl. efast ekki. Hann slær ekki undan. Sá skal sigla á móti vindinum. Og þó að Hannes Hólmsteinn kunni að bila þá gerir hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, það ekki. Mér finnst þetta sérkennilegt, herra forseti, og ég hlaut að koma aðeins að þessu. Orðalag í ræðu hæstv. ráðherra gaf tilefni til þess.

Þá vil ég aðeins koma að kröfum Spánverja um áframhaldandi greiðslur okkar í Þróunarsjóð EFTA eða þróunarsjóð á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ég og hæstv. ráðherra skiptumst á orðum um þetta sl. mánudag og þá kom fram, sem reyndar hafði áður komið fram í ummælum ráðherra við fjölmiðla, að hvað sem líður niðurstöðu varðandi greiðslur í Þróunarsjóðinn þá hefur ríkisstjórn Íslands tekið um það ákvörðun að fara í viðræður við Evrópusambandið um mögulega greiðslu okkar Íslendinga í kostnaði vegna stækkunar Evrópusambandsins. Ég lýsti því sjónarmiði á mánudaginn, og ég endurtek það, að ég tel að hér séu stórtíðindi á ferðinni. Og ég sakna þess að um þetta mál hafi ekki verið fjallað með eðlilegum hætti í utanrmn. Alþingis og á Alþingi og það rætt hvort ríkisstjórn Íslands ætti að fara með samningsumboð í þessar viðræður. Því að hér er stórmál á ferðinni. Þó að enn liggi ekki fyrir hver kostnaður, viðbótarkostnaður Evrópusambandsins, verður vegna stækkunarinnar er flest sem bendir til að hann verði gífurlegur. Það er þegar mikil spenna innan Evrópusambandsins vegna þess að ríkin í suðrinu og þau fjögur ríki sem eru nettó þiggjendur að þróunaraðstoð, þ.e. Grikkland, Spánn, Portúgal og Írland, eru þegar farin að byggja upp varnir sínar gegn því að hróflað verði við þeim stuðningi sem þau fá úr sjóðum Evrópusambandsins. Og hvað á þá að gera? Þá verður að auka álögur á hin til að greiða kostnaðinn af stækkuninni. Ef Íslendingar lenda í því að 115. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á svæðinu, þ.e. öllu EES-svæðinu og þá stækkuðu Evrópusambandi þegar það kemur til, ef við lendum í að vera varanlega fastir í þeirri gildru að Evrópusambandið geti alltaf komið og sagt: Og svo verðið þið að koma með og borga, og borga og borga. Þá erum við komnir í mjög vonda stöðu. Ég tel að það sé misráðið að ljá máls á samningaviðræðum um þetta atriði yfirleitt. Eða lá það einhvern tíma fyrir þegar texti 115. gr. var settur niður að hann gæti tekið til stærra svæðis en þá var verið að semja um? Lá það fyrir? Er það óhrekjandi að við séum búin að tapa því máli? Ég spyr. Hefur verið farið lögfræðilega yfir það?

Um Schengen ætla ég að tala stutt, herra forseti, tímans vegna. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekkert erindi inn í Schengen-samninginn nema við ætlum að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Það mun valda endalausum vandræðum. Eftir að búið er að innlima Schengen-samninginn í Evrópuréttinn, og þar á meðal að hluta til í fyrstu stoð, þ.e. stoð hinna yfirþjóðlegu ákvarðana, mun það valda eldalausum vandræðum að við séum að þvælast þarna með. Það hefur ekki verið kannað hvaða áhrif þetta hefur á íslenska ferðaþjónustu, það var upplýst hér í gær. Og ég vek athygli á því að einn af talsmönnum Sjálfstfl., hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sagði trekk í trekk í þeirri umræðu: Ef --- ef við gerumst aðilar að Schengen --- með þeim hætti sem nú er stofnað til. Er þetta þá kannski mál sem stjórnarflokkarnir þyrftu að ræða aðeins betur í sínum hóp? Er hæstv. ráðherra Framsfl., utanrrh., kannski kominn pínulítið fram úr, ef ekki sjálfum sér þá a.m.k. öðrum í þessu máli?

Þennan dapurlega mærðartexta um NATO og herinn sem kemur svo í ræðu hæstv. ráðherra kýs ég að leiða að mestu leyti hjá mér. Það er langt síðan ég hef lesið jafndapurlegan texta og þennan um að ,,Samhliða endurskoðun öryggismálastefnu bandalagsins ...`` --- sem ekki þarf að nefna fullu nafni því að allir eiga að vita hvað við er átt, það er auðvitað NATO --- ,,munu íslensk stjórnvöld vinna að aðlögun stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum ...``

Þetta er frumkvæðið. Þarna er nú aldeilis sjálfstæð utanríkismálastefna á ferð. Nei, NATO ætlar að ákveða hvernig það vill hafa þetta og samhliða verður svo unnið að aðlögun Íslands að því. Þetta er frumkvæðið, sjálfstæðið, kjarkurinn sem sýndur er í að móta einhverja sjálfstæða, íslenska utanríkisstefnu og segir í raun og veru allt sem segja þarf. Þvílíkt stolt sem þarna er á ferðinni.

Gaman væri líka að fá útskýringar hæstv. ráðherra á því hvað orðið gagnsæi þýðir í samhenginu að það sé sérstakur styrkur varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna, það sé bæði gagnkvæmnin en líka gagnsæið. Gagnsæið. Þetta hefur líklega heldur betur allt saman verið uppi á borðinu í samskiptunum við herinn og Bandaríkjamenn gegnum tíðina, er það ekki? Hvers vegna er þá verið að leyna öllum pappírunum? En sérstaka athygli vekur í skjalasöfnum í Washington að óvenjuleg leynd er yfir öllum pappírum sem varða samskipti Íslands og Bandaríkjanna á þessum tímum. Er það gagnsæið, hæstv. utanrrh., sem þarna er verið að vitna til?

Herra forseti. Ég held að fróðlegt væri að heyra hæstv. utanrrh. fjalla aðeins nánar um þessi mál því ljóst er hvaða lífssýn hann hefur í þessu. Hann er frjálshyggju- og markaðssinni þannig að hann er að slá Hannes Hólmstein út. NATO er heilagt friðarbandalag, vammlaust í hvívetna, herinn er lífsnauðsynlegur í landinu, ekki síst á friðartímum og þannig mætti áfram telja.