Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:26:52 (922)

1998-11-05 12:26:52# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. undir þessum málefnalegu formerkjum. Það er alveg guðvelkomið að ég skýri betur viðhorf mín til viðskiptamála í heiminum við betra tækifæri og þegar ég hef til þess tíma. Þau liggja reyndar fyrir með ýmsu móti í gegnum afstöðu mína á undangengnum árum til mála t.d. úr efh.- og viðskn. og víðar. Ég held því að hæstv. ráðherra þurfi ekki að koma með svona klisjur um afturhvarf til kommúnisma og að loka sig inni í klæðaskápum og eitthvað því um líkt.

Staðreyndin er sú að langur vegur er frá því að frjálsræði sé í viðskiptum í heiminum og eðlilegar og sanngjarnar leikreglur í þeim efnum. Að tollmúrar og annað því um líkt sé tekið niður og yfir í hitt að um sé að ræða algjörlega óheftan markaðsbúskap, algjörlega frjálsar fjármagnshreyfingar um heiminn í vélvæddu og rafvæddu kerfi þar sem ekkert tillit er tekið til umhverfismála, þar sem ekkert tillit er tekið til félagsmála, jöfnuðar í lífskjörum, þar sem þróunarlöndin eru alltaf í hlutverki þess sem tapar, þar sem vestrænu iðnríkin kúga út úr þeim hráefnin á undirverði og selja þeim svo aftur dýrar framleiðsluvörur. Það er uppáskrift á slíkt kerfi sem ég tek ekki að mér gagnrýnislaust.

Ég held að hæstv. ráðherra, sem einnig fer með þróunarmál, ætti frekar að ræða um þetta á málefnalegum nótum en að fara út í einhverjar klæðaskápalíkingar.

Og svo segir hann: Halda menn að ástandið batni í Rússlandi? Hvernig er ástandið í Rússlandi? Eigum við aðeins að ræða það? Tíu árum eftir fall hins bölvaða kommúnisma. Hver er blessun rússneskrar alþýðu af umbótunum sem ekki má hvika frá? Umbótum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Umbótum, umbótum, umbótum sem eru að svelta gamalt fólk í hel. Eru það umbætur úr munni hæstv. utanrrh. Íslands?

Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru. Þetta kerfi hefur ekki orðið mönnum alls staðar til blessunar. Það þjónar þeim ríku og þeim sterku vel að geta valsað með fjármagnið um allan heiminn. En hvað eru þeir að gera í Asíu og Rússlandi núna? Þeir taka til fótanna um leið og erfiðleikar kalla á.

Þetta kerfi, sem þjónar hinum ríku og mylur undir þá með hárri ávöxtun fjármagns á Vesturlöndum, er í raun og veru gildran sem mannkynið er statt í og fleiri og fleiri virtir hagfræðingar um allan heim hafa vaxandi efasemdir um, en ekki utanrrh. Íslands og arftaki Hannesar Hólmsteins íslenskra stjórnmála.