Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:39:15 (927)

1998-11-05 12:39:15# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:39]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að við erum algerlega ósammála um þetta atriði. En ég vil spyrja hv. þm. hvernig í ósköpunum hann sér það að við ætlum að vernda norræna vegabréfasambandið án þess að ganga inn í Schengen vegna þess að Noregur mun ganga þar inn? Ég get alls ekki séð neina leið til þess.

Það er ekki þannig að menn þurfi að taka með sér passann til þess að fara til Norðurlanda og ef hv. þm. sýnir hann er það algerlega að óþörfu. Menn geta gengið þar í gegn án þess að sýna passa.

Það er alveg rétt að það var sagt að Norðurlöndin mundu fylgjast að varðandi Schengen og ég held að það sé bara mjög gott mál vegna þess að það eykur og bætir samningsstöðu okkar. Norðurlöndin eru að aðstoða okkur við að finna ásættanlega lausn til þess að við getum verið með í Schengen-samkomulaginu. Þau munu taka okkur með inn í það og aðstoða okkur við það. En að halda því fram að það hafi verið líklegt á sínum tíma að öll Norðurlöndin stæðu utan við Schengen held ég að sé mjög vafasamt að telja sjálfum sér trú um. Það er alveg ljóst að eitt af þeim atriðum sem hafa verið til grundvallar í Evrópusambandinu er frjáls för fólks. Ef öll Norðurlöndin ætluðu að vera fyrir utan þyrfti að gera einhverjar miklar ráðstafanir á landamærum Danmerkur og Þýskalands í framtíðinni og ég sé eiginlega engin rök fyrir því.

Ég sé hins vegar að ef við förum ekki inn í Schengen geti vel verið að það fæli ferðamenn frá Íslandi. Í framtíðinni, segjum eftir 10--20 ár, er alls ekki víst að allir verði sér úti um vegabréf í Evrópu, venjuleg vegabréf þannig að þeir aðilar sem ekki gera það og ferðast mest innan Evrópusambandsins, það eru og verða fjölmörg ríki í Evrópusambandinu mundu ekki hafa nein vegabréf til þess að sýna þegar þeir kæmu hingað.