Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:41:03 (928)

1998-11-05 12:41:03# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:41]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fylgdist ágætlega með því hvernig þetta mál bar að innan Norðurlandanna og hefur þróast síðan og var þá kominn inn í Norðurlandaráð eins og hv. þm. og kann a.m.k. alveg mína útgáfu af þeirri sögu hvernig það var. Það sem gerðist var í mínum huga í raun og veru mjög grár leikur. Menn voru látnir halda að útkoman gæti orðið á hvorn veginn sem var, að ríkin héldu saman utan Schengen eða fyndu viðunandi lausn gagnvart Schengen þó sum þeirra yrðu aðilar. Svo breyttist þetta yfir í það að Svíar, Finnar og Danir fóru ákveðið inn og þá voru kostirnir náttúrlega ekki orðnir eins góðir fyrir Ísland og Noreg. Þó veit ég t.d. ekki til þess að látið hafi verið á það reyna á nokkurn hátt hvort unnt hefði verið að semja um sérstakt vegabréfaleysi fyrir Ísland og Noreg gagnvart þessum þremur aðildarríkjum, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi þó að þau væru með. Ég held að það hafi t.d. ekki verið látið á það reyna hvort hugsanlega fengist viðauki við Schengen eða breyting sem virti þetta eldra norræna vegabréfasamband. Af hverju mátti ekki reyna það o.s.frv. Það voru margar leiðir færar í þessu. En það sem gerðist var að tekin var pólitísk ákvörðun um að Íslendingar og Norðmenn skyldu fara inn og það var notað sem réttlæting, öðruvísi væri ekki hægt að bjarga norræna vegabréfasambandinu án þess að það væri á nokkurn hátt kannað hvort fleiri leiðir væru þar í stöðunni.

Það er vissulega rétt sem hv. þm. nefndi að Danir höfðu þarna áhyggjur og voru í sérstakri stöðu vegna landamæra við Þýskaland. Finnar áttu þá engin landamæri og eiga reyndar ekki enn að Evrópusambandslandi fyrr en þá Eistar komu með og þannig gátu Svíar og Finnar valið hvorn kostinn sem var og spurningin var um að leysa þessa stöðu gagnvart landamærum Danmerkur og landi við Þýskaland. En það var ekkert látið á það reyna.

Svo minni ég á það að þarna hanga líka á spýtunni allt aðrir og stærri hlutir sem eru réttarfarsþátturinn, lögreglusamstarfið, spurningin um eftirlit með eiturlyfjadreifingu. Menn ættu að hafa af því einhverjar áhyggjur á Íslandi eins og umræðan hefur verið þessa dagana. Loks er það kostnaðurinn sem verður umtalsverður fyrir Ísland og mikið óhagræði fyrir íslensk flugfélög.