Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:48:09 (984)

1998-11-05 16:48:09# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:48]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við skjalavörslu og skjalaskráningu jarðadeildar landbrn. vegna jarðakaupa og að ekkert heildareftirlit væri með jarðakaupum. Landbrn. hefur svarað þessari gagnrýni með því að skýrsla Ríkisendurskoðunar hafi verið gerð meðan verið var að taka í notkun nýtt skráningakerfi í jarðadeild. Mér finnst sjálfsagt að taka tillit til þessara skýringa frá ráðuneytinu svo langt sem þær ná.

Aðfinnslum Ríkisendurskoðunar sem varða ábúendaskipti er að hluta svarað af hálfu ráðuneytisins með sömu tilvísun til kerfisbreytingar. Einhver fleiri vandamál virðast þó hafa hrjáð starfsemi deildarinnar. Af 23 jörðum sem hefði átt að auglýsa lausar til ábúðar árin 1996 og 1997 voru aðeins 11 auglýstar. Þar að auki telur Ríkisendurskoðun að umsækjendur um jarðir hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar og afgreiðsla á umsóknum þeirra verið eftir dúk og disk. Enn fremur telur Ríkisendurskoðun að upplýsinga- og gagnaöflun jarðadeildar um áhvílandi veðskuldir og aðrar kvaðir á mannvirkjum sem keyptar voru við ábúendaskipti hafi ekki verið fullnægjandi. Það er vissulega grafalvarlegt mál sem getur haft slæmar afleiðingar fyrir þá sem málið varðar.

Verklagsreglum um hvernig staðið skuli að jarðasölu virðist einnig vera mjög ábótavant. Jarðir eru ekki auglýstar eins og skylt er að gera samkvæmt jafnræðisreglu. Einnig er staða áhvílandi skulda og tilgreining þeirra í kaupsamningum og afsölum ófullnægjandi og afgreiðslutími óhæfilega langur.

Herra forseti. Hér vinnst ekki tími til að telja upp fleiri af aðfinnslum Ríkisendurskoðunar við starfsemi þessarar stofnunar. Við hverjum þeim sem les þessa skýrslu blasir að innan þessarar deildar er brýn þörf á að taka til hendinni.