Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:53:01 (986)

1998-11-05 16:53:01# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:53]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ríkið er stærsti landeigandi á Íslandi. Hér er um að ræða verðmætar eignir í eign almennings. Þær eru ekki í eign landbrn., ekki í eign landbrh. sem embættismanns heldur í eigu þjóðarinnar. Landbrn. er hins vegar falið að forvalta þessar sameiginlegu eignir. Það er auðvitað alvarlegt þegar upp kemur að eignaumsýslan er eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar gefur lýsingar á. Það er mjög eðlilegt að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson taki það upp á Alþingi eins og hann hefur gert. Það er eini vettvangurinn fyrir Alþingi til þess að taka upp svona mál.

Það hefur oft verið rætt á Alþingi en aldrei orðið úr því að setja upp sérstaka nefnd til þess að taka athugasemdir Ríkisendurskoðunar fyrir, fara í gegnum þær og fylgja þeim eftir. Þrátt fyrir mikla umræðu um það hefur aldrei orðið af því. Þess vegna er Alþingi vanbúið til þess að taka við upplýsingum eins og þeim sem Ríkisendurskoðun kemur fram með. Þó vinnur stofnunin á vegum Alþingis, í umboði Alþingis og á ábyrgð Alþingis. Það gefur mönnum líka færi á að snúa út úr eins og hæstv. landbrn. hefur að nokkru leyti gert í svörum sínum, brugðist við með yfirlæti og sagt að ekki væri endilega nauðsynlegt fyrir hið háa ráðuneyti að taka mikið mark á svona skýrslum.

Ég hvet til þess, virðulegi forseti, að forsetar Alþingis muni, algjörlega óháð öðrum hugsanlegum breytingum á þingskapalögum, beita sér fyrir þeirri breytingu að gera Alþingi fært að taka við upplýsingum eins og þeim sem eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar og fylgja þeim eftir. Það er ekki nóg að hæstv. ráðherra lýsi yfir vilja sínum til breytinga. Ég dreg hann ekki í efa. En Ríkisendurskoðun sem starfar á vegum Alþingis gefur Alþingi þessar upplýsingar og Alþingi verður sjálft að sinna skyldum sínum við þessa stofnun með því að fylgja eftir upplýsingum sem Ríkisendurskoðun veitir Alþingi og sjá til að framkvæmdarvaldið hagi störfum sínum þannig að a.m.k. hvað þetta varðar brjóti það ekki lög um stjórnsýslu og eðlilega stjórnunarhætti sem þessi stofnun hefur sett.