Bann við kynferðislegri áreitni

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:07:32 (1013)

1998-11-11 14:07:32# 123. lþ. 22.3 fundur 24. mál: #A bann við kynferðislegri áreitni# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:07]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Það er eins gott að fara hér að þingsköpum og gera ræðuhlé til að allt sé nú eftir því sem vera ber. Við 1. umr. um mál er flutningsmanni heimilt að flytja fyrst ræðu í 30 mínútur og síðan í 15 mínútur. Ég hyggst nýta mér þann rétt nú þar sem um mjög mikilvægt mál er að ræða og mér er mikið niðri fyrir.

Ef við snúum okkur, herra forseti, nánar að rannsóknunum þá var ég að ræða um ástandið í háskólum erlendis þegar ég lauk fyrri ræðu minni. Ég var að segja frá því að samkvæmt könnun jafnréttisnefndar Helsinkiháskóla árið 1995 töldu 10,8% starfsfólks og 5,5% stúdenta sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Af þeim voru 78% starfsfólksins og 70% stúdentanna konur.

Bandarískar rannsóknir á vinnustöðum benda almennt til að um 40% kvenna og um 15% karla verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum en evrópsku tölurnar eru almennt töluvert lægri eða 10--20% meðal kvenna. Skýringarnar á þessum mun eru að hluta til menningarlegar, en einnig getur verið um mismunandi skilgreiningar að ræða.

Ég ætla þá, herra forseti, að koma stuttlega að niðurstöðum íslensku könnunarinnar sem birt var í þessari viku. Niðurstöður hennar sýna alveg ótvírætt að þetta fyrirbæri er vel þekkt hér á landi sem annars staðar og ekki er ástæða til að ætla að önnur lögmál gildi um fyrirbærið hér á landi en annars staðar. Könnunin var send út til 970 einstaklinga hjá nokkrum verkalýðsfélögum en aðeins 313 svöruðu, eða 32%. Þetta svarhlutfall er ekki óeðlilegt miðað við viðkvæmni málsins en það gerir mjög erfitt að alhæfa nokkuð um tíðnina í því úrtaki sem um ræðir.

36% þeirra sem svöruðu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, en það eru eingöngu 11,7% af heildarúrtakinu. Líklega er tíðnin, hin raunverulega tíðni einhvers staðar þarna á milli. Að öðru leyti segir þessi könnun heilmikið um eðli og afleiðingar kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum. Og vil ég nú drepa á helstu niðurstöðum.

Um fjórðungur svarenda segist þekkja a.m.k. eina konu sem hafi verið áreitt kynferðislega á vinnustað, enginn segist þekkja karlmann sem hafi verið áreittur kynferðislega. Rúmur helmingur þolenda kynferðislegrar áreitni hefur orðið fyrir óvelkomnum snertingum, þ.e. um arma, axlir eða mitti, tæplega helmingur hafði orðið fyrir óvelkominni kynferðislegri snertingu í vinnunni, svo sem káfi, strokum eða klípum. Heldur færri höfðu orðið fyrir óvelkominni kynferðislegri athygli svo sem augngotum, glápi og bendingum í vinnunni eða fyrir óvelkomnum kynferðislegum athugasemdum við útlit, líkama, klæðaburð eða einkalíf. Tæplega helmingur þolenda segist hafa orðið fyrir óvelkomnum bröndurum eða klámi á vinnustað og alls fjórðungur þolenda hafði orðið fyrir óvelkomnum tillögum eða kröfum um kynferðislegt samneyti.

Þolendur eru fremur í yngri aldurshópum, bæði hvað varðar lífaldur og starfsaldur. Flestir þeir sem verða fyrir áreitni bregðast við með reiði, undrun, viðbjóði og vonbrigðum. Fæstir leita sér aðstoðar en þeir sem gera það leita sér yfirleitt aðstoðar á sjálfum vinnustaðnum, hjá yfirmanni eða samstarfsfélögum. Gerendur eru almennt karlmenn, eldri en þolandinn, oftast samstarfsmaður eða yfirmaður. Áreitnin átti sér oftast stað á sjálfum vinnustaðnum. Ekki er hægt að greina að kynferðislega áreitnin væri algengari á ákveðnum tegundum vinnustaða, þó má sjá að kynferðislegir brandarar og klámvísur eru algengari á vinnustöðum þar sem kynferðisleg áreitni átti sér stað.

Þolendur kynferðislegrar áreitni eru almennt neikvæðari gagnvart klámi en aðrir, en stór hluti þeirra telur daður vera jákvætt. Og ég vil undirstrika að þetta er töluverður munur, samanber það sem ég sagði áðan um Clinton Bandaríkjaforseta. Þetta bendir til þess, sem sýnt hefur verið fram á í öðrum könnunum, að fólk gerir stóran greinarmun á áreitni og daðri. Daður er samspil tveggja einstaklinga á jafnréttisgrundvelli en kynferðisleg áreitni er öðrum aðilanum á móti skapi.

Herra forseti. Lokaorðin í grg. með þessu frv. eru eftirfarandi:

,,Umræðan í þjóðfélaginu bendir ótvírætt til að töluvert vanti á að fólk skilji að kynferðisleg áreitni er einelti og mannréttindabrot sem ekki á að líða, hver sem í hlut á. Flest nágrannalanda okkar hafa brugðist markvisst við og hér er lagt til að svo verði gert.``

Mér finnst, herra forseti, að þessi skilningur fari vaxandi og fyrir fyrirtæki vil ég að lokum benda á ágæta tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun gegn kynferðislegri áreitni sem fram kemur í áðurnefndu riti um kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Þar er m.a. byggt á BS-prófsritgerð frá Samvinnuskólanum að Bifröst eftir Áslaugu B. Guðmundsdóttur. Ég tel mikilvægt að benda á slíka aðgerðaáætlun vegna þess að ef þetta frv. eða annað svipað verður lögfest verða fyrirtæki og stofnanir að koma sér upp farvegi til að taka á málunum. Reynslan sýnir að örfáir kæra þessi mál til dómstóla og því er mikilvægast að hægt sé að taka á þeim strax og þau koma upp innan viðkomandi stofnana.

[14:15]

Ég efast um að ég hafi nægan tíma til að lesa upp alla tillöguna um stefnu fyrirtækis gegn kynferðislegri áreitni, en vil þó gera tilraun til þess. Það er í fyrsta lagi yfirlýsing. Helstu atriði sem þurfa að koma fram eru að atvinnurekandi lýsir því yfir að allir starfsmenn eigi rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og að kynferðisleg áreitni verði ekki liðin og undir þessum lið verði stefna fyrirtækisins kynnt og helstu markmið hennar.

Í öðru lagi komi fram skýrar skilgreiningar.

Í þriðja lagi er talað um boðleiðir, að það komi skýrt fram hvaða leiðir þolendum kynferðislegrar áreitni eru færar og það er gert ljóst að þeir geti farið þá leið sem þeir telja henta sér best. Þá séu starfsmenn hvattir til þess að nýta sér þessar leiðir til fyrirspurnar, ráðgjafar eða fræðslu. Ítrekað er að fyllsta trúnaðar verði gætt.

Í fjórða lagi er talað um trúnað. Það þarf að undirstrika greinilega að fyllsta trúnaðar sé gætt til að vernda hagsmuni allra. Það þarf m.a. að taka fram að hans verði gætt varðandi öll gögn sem tengjast málinu.

Í fimmta lagi eru skyldur fyrirtækisins og alls starfsfólks þess. Það þarf að koma skýrt fram að atvinnurekandinn eða fyrirtækið rannsaki öll mál og styðji þá starfsmenn sem telja sig beitta kynferðislegri áreitni. Að sama skapi þarf að koma skýrt fram að það er skylda starfsfólks að taka þátt í að skapa umhverfi sem er laust við kynferðislega áreitni.

Í sjötta lagi. Viðbrögð. Það þarf að greina frá því hvernig verður staðið að rannsókn málsatvika eftir að kvörtun hefur verið lögð fram, munnleg eða skrifleg. Í flestum gögnum sem ég hef kynnt mér er lögð áhersla á skriflega kvörtun.

Í sjöunda lagi. Falskar ásakanir. Það þarf að koma fram hvernig tekið verður á öllum fölskum ásökunum.

Í áttunda lagi segir: Tölvupóstur og fax. Reynslan hefur sýnt að töluverð kynferðisleg áreitni á sér stað í gegnum þessa tvo miðla. Því getur verið nauðsynlegt að setja reglur sem gera slíkt erfiðara. Þær reglur þurfa að koma fram í stefnu sem þessari.

Herra forseti. Að lokum vil ég vekja athygli á ágætum ráðum sem koma einnig fram í áðurnefndri bók til einstaklinga sem verða fyrir kynferðislegri áreitni. Þetta er á bls. 88 í nefndri bók. Í fyrsta lagi: ,,Ef þú verður fyrir kynferðislegri áreitni, hættu að leyna áreitninni fyrir samstarfsfólki. Ekki kenna sjálfri þér um. Lýstu nákvæmlega því sem gerist hverju sinni. Haltu dagbók. Fylgstu með hvort það verða einhverjar breytingar á verkefnum þínum. Kannaðu hvort einhver vinnufélaga þinna hefur orðið fyrir slíkri áreitni. Ræddu við hann um málið. Fáðu stuðning vinnufélaga. Eru þeir tilbúnir til að vitna í málinu? Haltu því fram að áreitnin sé vandamál er varðar alla á vinnustaðnum. Ræddu af hreinskilni við trúnaðarmann. Ræddu af hreinskilni við starfsmannastjóra. Reyndu ekki að standa ein í stríði við samstarfsmenn eða yfirmenn þína.``

Við þetta má bæta að það þarf auðvitað að fara eftir áætlun viðkomandi stofnunar og það þarf að kalla eftir því að slík áætlun verði til.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við mest af því sem ég ætlaði að segja og er það mjög mikið ánægjuefni að þessi könnun er komin út og vissulega vonast ég til þess að á þessum málum verði tekið af festu, bæði innan Alþingis og úti í þjóðfélaginu.