Húsnæðissparnaðarreikningar

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:33:46 (1015)

1998-11-11 14:33:46# 123. lþ. 22.4 fundur 61. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það frv. sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich flytur er að mínu áliti mikið ágætismál. Hér er hvatt til aukins sparnaðar í þjóðfélaginu og er ekki vanþörf á. Stór hluti landsmanna leggur ekkert upp úr sparnaði og full ástæða er til að reyna að breyta þeim hugsunarhætti. Þetta frv. er að mínum dómi raunhæf tilraun í þá átt. Einmitt núna í góðærinu ætti að vera auðveldara að fá fólk til að leggja eitthvað til hliðar. Kaupmáttur hefur vaxið meira upp á síðkastið en áður hefur þekkst. En á sama tíma hefur eyðsla aukist mjög, með tilheyrandi viðskiptahalla. Það er auðveldara að fá lán en nokkru sinni fyrr. Nú geta menn keypt nánast hvað sem er án þess að eiga fyrir því. Skuldir heimilanna aukast og margir sjá aldrei til sólar í sínum fjármálum. Mér finnst sjálfsagt að nota skattkerfið til að hvetja landsmenn til sparnaðar. Það var reyndar gert á árunum 1985--1996 þegar í gildi voru lög um húsnæðissparnaðarreikninga sem sköpuðu svipaðan rétt til skattafsláttar og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég held það hafi verið mistök að afnema þetta sparnaðarform í árslok 1996, ekki síst þegar haldið er áfram að veita skattafslátt með vaxtabótum. Í raun virkar þetta þannig að fólki er ívilnað í sköttum fyrir skuldasöfnun en ekki fyrir sparnað.

Húsnæðissparnaðarreikningar hafa ekki bara þann kost að hvetja til sparnaðar. Þeir leiða líka til þess að fólk er betur í stakk búið til húsnæðiskaupa í fyllingu tímans. Það er auðvitað rétt sem fram kemur í geinargerð með frv. að það skiptir sköpum um möguleika ungs fólks, og fólks almennt á að eignast eigið húsnæði hversu mikinn hluta kaupanna er hægt að fjármagna með eigin fé eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich gerði góða grein fyrir.

En sé það svo, eins og fram kemur í grg., að algengt sé að eigið fé við fyrstu íbúðakaup sé 15% og að önnur 15% verði að fjármagna með skammtímalánum, en 70% með húsbréfalánum, verður dæmið mjög erfitt hjá almennum launamanni. Að ekki sé minnst á ef eigið fé er aðeins 10% eins og mörg dæmi eru um en þá eru 20% kaupverðsins fjármögnuð með skammtímalánum og greiðslubyrði þeirra svipuð og af húsbréfalánunum. Afleiðingin er svo botnlausir erfiðleikar sem margir komast aldrei út úr. Flestum er kunnugt um fjölda slíkra dæma, því miður. Ég er sannfærður um að húsnæðissparnaðarreikningar eins og þetta frv. gerir ráð fyrir mundu gjörbreyta þessu ástandi.

Hér er einnig lagt til að þennan sparnað megi nota til endurbóta eða viðhalds á eigin íbúðarhúsnæði ef kostnaður fer umfram 5% af fasteignamati. Þetta ákvæði var ekki í þeim lögum sem giltu til ársloka 1996 en er að mínum dómi til bóta. Full ástæða er til að hvetja menn til endurbóta og viðhalds á eldra húsnæði og alls ekki ástæða til að gera upp á milli þess og nýbygginga.

Ég er sammála hv. þm. Tómasi Inga Olrich um að ástæða sé til að ætla að þetta geti dregið úr nótulausum viðskiptum sem eru talin veruleg í þessari grein. Þessi svörtu viðskipti leiða auðvitað til þess að ríkissjóður verður af miklum tekjum eins og glöggt kemur fram í grg. með frv. Þessi viðskipti eru talin hafa aukist verulega eftir að hætt var að heimila skattaívilnanir út á viðhald húsa, en verði frv. að lögum eru líkur á að þeirri óheillaþróun verði snúið við.

Ég hef örlitlar efasemdir um eitt lítið atriði í þessu frv. en það er í 3. gr. þar sem segir að þeir sem orðnir eru 67 ára eða eru 75% öryrkjar geti fengið fé sitt til frjálsrar ráðstöfunar að fimm árum liðnum, en ekki 10 árum eins og aðrir reikningseigendur. Mér finnst þurfa að skoða hvort ekki sé ástæða til að hafa þennan tíma styttri fyrir öryrkja. Hagir manna geta breyst það mikið við örorku að þeir geta þurft að nota inneignir sínar fyrr en þeir höfðu gert ráð fyrir meðan heilsa og starfsþrek var óskert. Þetta vildi ég gjarnan að yrði skoðað í meðförum þeirrar nefndar sem kemur til með að fjalla um málið.

Ég vil ítreka stuðning minn við þetta frv. og vona að það verði að lögum sem fyrst.