Húsnæðissparnaðarreikningar

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:45:29 (1017)

1998-11-11 14:45:29# 123. lþ. 22.4 fundur 61. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:45]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir stuðningi við frv. sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich og Jón Kristjánsson flytja og tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram umræðunni.

Eins og fram hefur komi er það ugglaust eitt mikilvægasta verkefni þjóðarinnar að efla sparnað, ekki síst í svokölluðu góðæri þegar kaupmáttur eykst allverulega. Ég tel að það sé eitt brýnasta og jafnvel albrýnasta mál í efnahagslífi okkar. Óhætt er að segja að við Íslendingar séum skuldaglöð þjóð eins og fram hefur komið í umræðunum. Segja má að lagaumhverfi og reglugerðar- og viðskiptaumhverfi allt hvetji þjóðina mjög til skuldsetningar. Henni er í rauninni umbunað fyrir skuldsetningu eins og m.a. hefur komið fram í flestum úttektum á stöðu heimilanna.

Ég er sammála því að það hafi verið mistök að fella sparnaðarákvæði úr gildi árið 1996. Um leið ítreka ég mikilvægi þess að breyta lagaumhverfi okkar þannig að það hvetji almenning til að efla sparnað í stað þess að steypa sér í skuldir. Hlutverk löggjafarsamkomunnar er að búa þegnum landsins ákveðið umhverfi og í því umhverfi þarf án nokkurs vafa að vera hvatning til sparnaðar. Svo er ekki sem stendur en í frv. er einmitt tekið á þeim þætti og hvatt til sparnaðar. Þess vegna tel ég það gleðiefni og styð það heils hugar.

Það er ekki nokkur vafi, eins og fram kemur í frv., að það er mikil kjarabót fyrir fólk sem lagt getur fyrir í húsnæðissparnaðarreikning og er bent á að þar geti verið um allt að þreföldun kaupmáttar að ræða ef vel er að staðið. Nú er ljóst að eitt mikilvægasta viðfangsefni allra fjölskyldna er að ráða yfir þaki yfir höfuðið. Það er sú leið sem flestar fjölskyldur fara, þ.e. að koma sér í eigið húsnæði og þess vegna hlýtur það að vera eitt mesta kjaramál fyrir íslenskar fjölskyldur að komast yfir slíkt húsnæði með auðveldum hætti og auka kaupmátt sinn allt að þrefalt með þessum sparnaðarhugmyndum. Því má segja að frv. sé ekki aleinasta þjóðhagslega hagkvæmt með því að ýta undir sparnað almennt í þjóðfélaginu og styrkja þar með stoðir efnahagslífsins heldur ekki síður fyrir almenning í landinu með því að geta aukið kaupmátt sinn svo um munar.

Ég tek jafnframt undir hugmyndir í frv. um að láta þetta ekki aðeins gilda um kaup á húsnæði heldur ekki síður um viðhald á húsnæði. Eins og fram hefur komið í ræðum manna og í greinargerð með frv. hefur tilhneigingin verið sú að leggja áherslu á að byggja nýtt en minni áhersla á að endurnýja og taka í notkun eldra húsnæði fyrir fjölskyldur sem þar gætu flutt inn. Ég tel þess vegna ekki síður mikilvægt að opna fyrir þann þátt og sinna hinni mikilvægu viðhaldsþörf á húsnæði, ekki bara í eigu einstaklinga og fyrirtækja heldur ekki síður í eigu hins opinbera. Til lengri tíma litið hlýtur það ávallt að teljast sparnaður að geta haldið húsnæði vel við í stað þess að þurfa að ráðast á hús þegar þau eru komin nánast í niðurníðslu.

Það þarf ekki að bæta mörgum orðum við það ákvæði frv. sem felur í sér aðhald gagnvart skattsvikum eins og lýst var af hv. frummælanda, Tómasi Inga Olrich. Það ákvæði eitt ætti í raun að réttlæta frv. en grunur leikur á að skattsvik í þessum geira séu gífurlega mikil.

En ég hefði viljað beina til hv. frummælanda nokkru sem óbeint tengist þessu frv. Nú er það svo að séreignarstefna er mjög ráðandi hjá okkur Íslendingum. Á bak við það er ákveðið gildismat sem ég hef í sjálfu sér engar athugasemdir við. Hins vegar er það svo að ýmsir kjósa að vera á leigumarkaði og leggja tekjur sínar fyrir með öðrum hætti, fjárfesta ekki í eigin húsnæði en vilja ávaxta sitt pund með öðrum hætti. Þá kviknar auðvitað sú spurning hvort þeir sem ekki vilja endilega leggja fyrir í sérstökum húsnæðissparnaðarreikningum af því að þeir kjósa að hafa annan hátt á, þ.e. ekki að eignast sitt eigið húsnæði, þurfi ekki að eiga kost á annarri leið. Sér hv. frummælandi leið fyrir þá aðila út frá, við getum sagt jafnræðisreglu? Hér má segja að skorti hið sama og víða er í Evrópu þar sem m.a. tryggingafyrirtæki og slíkir öflugir aðilar standa fyrir leiguhúsnæði þar sem fólk getur leigt húsnæði og í öryggi en síðan einbeitt sér að því að láta peninga sína eða tekjur vinna fyrir sig með öðrum hætti. Á bak við þetta er ákveðið gildismat og væri gaman að heyra viðbrögð hv. frummælanda við þessu sjónarmiði. Þó það snerti ekki beinlínis þetta frv. þá tengist þetta atriði því óbeint.

Ég ítreka stuðning minn og vonast til þess að þetta frv. fái farsæla afgreiðslu á hv. Alþingi.