Siglingalög

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:04:42 (1020)

1998-11-11 15:04:42# 123. lþ. 22.5 fundur 80. mál: #A siglingalög# (sjópróf) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34 19. júní 1985, með síðari breytingum.

Forsaga þess að þetta frv. er flutt er sú að fyrir tæpum tveimur árum skipaði samgrh. nefnd alþingismanna til að fara yfir og fjalla um öryggismál sjómanna, einkum með það í huga að draga úr þeirri miklu slysatíðni sem er meðal þessarar starfsstéttar. Margt bar á góma í þeirri ágætu nefnd og því nefndarstarfi. Eitt af því var m.a. það sem hér er verið að fjalla um, þ.e. breyting á siglingalögum, en nefndarmönnum þótti ekki eðlilegt að taka það mál inn í þær tillögur sem voru lagðar til samgrh., heldur að flytja þetta tiltekna mál sem frv. til laga á hinu háa Alþingi.

Í nefndina voru skipaðir auk mín hv. þingmenn Gísi S. Einarsson, Guðjón Guðmundsson, Kristinn H. Gunnarsson og Stefán Guðmundsson.

Við leggjum til að við 1. gr. verði eftirfarandi breytingar gerðar á 220. gr. siglingalaga:

a. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Ef erlent skip skv. 2. og 3. mgr. er rekið eða gert út af íslenskum aðila eða er í ferð á hans vegum er honum heimilt að krefjast þess að sjópróf séu haldin vegna atvika sem tilgreind eru í 2. og 3. mgr., með sömu skilyrðum og þar greinir. Ef áhöfn eða hluti áhafnar er jafnframt í íslensku stéttarfélagi er viðkomandi stéttarfélagi heimilt að krefjast þess að sjópróf verði haldin vegna sömu atvika.

b. Í stað orðanna ,,2. og 3. mgr.`` í 4. mgr. kemur: 2., 3. og 4. mgr.

Í grg. segir svo, með leyfi forseta:

,,Síðari ár hefur mjög færst í vöxt að íslenskar skipaútgerðir noti í rekstri sínum skip sem skráð eru annars staðar en á Íslandi en manni þau eigi að síður með íslenskri áhöfn, alfarið eða að hluta til. Íslensk löggjöf hefur ekki náð að fylgja þessari þróun að öllu leyti og er í sumum tilfellum nauðsynlegt að laga löggjöfina að þessum veruleika. Má í því sambandi meðal annars benda á breytingu sem gerð var á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, á haustþingi 1997 um að slysatryggja íslenska sjómenn sem starfa um borð í erlendum skipum sem gerð eru út af íslenskum aðilum.``

Nokkur deila kom upp varðandi þetta mál, að íslenskir sjómenn á þessum tilteknu skipum nutu ekki tryggingar Tryggingastofnunar ríkisins.

,,Samkvæmt siglingalögum er einungis Siglingastofnun Íslands og rannsóknarnefnd sjóslysa heimilt að krefjast sjóprófs þegar um er að ræða erlend skip og skiptir þá engu þótt skipin séu rekin eða gerð út af íslenskum aðilum og mönnuð með íslenskri áhöfn. Upp hafa komið tilvik þar sem slíkt hefur verið til baga og má í því sambandi nefna alvarlegt vinnuslys um borð í kaupskipi sem var í leigu hjá íslenskri útgerð en sigldi undir erlendum fána. Í því tilfelli var útgerðaraðilanum mjög umhugað um að haldin yrðu sjópróf til þess að fullnægjandi sönnun fengist um aðdraganda slyssins. Atvik voru þau að gámagripla slóst í íslenskan sjómann, sem var fulltrúi útgerðarinnar um borð í skipinu, þegar verið var að losa skipið í höfninni í Argentia á Nýfundnalandi, með þeim afleiðingum að hann hlaut beinbrot á hægri lærlegg og missti þrjá fingur hægri handar, auk annarra meiðsla. Íslenska útgerðin, leigutaki skipsins, óskaði eftir því að sjópróf yrðu haldin vegna þessa slyss en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því með þeim rökum að útgerðarmanni skips væri ekki heimilt að óska sjóprófs þegar um væri að ræða erlend skip.

Mikilvægt er að tryggja bæði stéttarfélögum íslenskra sjómanna og útgerðaraðila skipsins rétt til þess að krefjast sjóprófs í slíkum tilfellum. Er slíkt til að auka réttaröryggi viðkomandi sjómanna og útgerðar þannig að tryggð verði fullnægjandi sönnun á tildrögum slysa og þannig megi með fyrirbyggjandi aðgerðum koma í veg fyrir frekari slys í framtíðinni.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að útgerðaraðilum verði tryggður réttur til að krefjast sjóprófa vegna atvika sem verða um borð í skipum sem þeir hafa í sínum rekstri að uppfylltum skilyrðum 2. og 3. mgr. 220. gr. laganna. Auk þessa er íslenskum stéttarfélögum tryggður sami réttur, þó að því tilskildu að um sé að ræða skip sem rekin eru eða gerð út af íslenskum útgerðaraðilum.

Tekið skal fram að ákvæði frumvarpsins ber að túlka með þeim fyrirvara sem greinir í 1. gr. siglingalaga um að virða beri reglu þjóðaréttarins við slík sjópróf og við mat á því hvort þau verði haldin.

Útgerðaraðili í frumvarpinu tekur hvort tveggja til útgerðaraðila kaupskipa og fiskiskipa, hvort sem félög eða einstaklingar standa að slíkum rekstri.``

Herra forseti. Ég legg til að eftir þessa umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hæstv. samgn.