Aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:08:33 (1030)

1998-11-11 16:08:33# 123. lþ. 22.10 fundur 98. mál: #A aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna# þál., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:08]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna. Eins og tillagan sem var til umræðu á undan var þessi tillaga einnig lögð fram á síðasta þingi en varð þá eigi útrædd.

Þessi tillaga hefur vakið nokkra athygli vegna þess að mörgum finnst sérkennilegt að það þurfi að grípa til einhverra sérstakra aðgerða til að draga úr þunglyndi kvenna. En það er nú svo, hæstv. forseti, að fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því að bæði hvað varðar sjúkdóma og ýmiss konar aðstöðu og hegðun er munur á körlum og konum. Eins og kemur fram í grg. þá kom fram á ráðstefnu heilbrrn. um heilsu kvenna, sem ég vitnaði áðan til, að u.þ.b. helmingi fleiri konur verða veikar eða fá þunglyndiseinkenni einhvern tíma á ævi sinni, helmingi fleiri konur en karlar.

Þetta eru í rauninni hrikalegar tölur, það eru um 20% kvenna sem finna einhvern tíma á ævinni fyrir þunglyndi á móti eru u.þ.b. 10% karla. Þunglyndi er afar alvarlegur sjúkdómur og veldur fólki miklum hörmungum. Því miður getur þunglyndi leitt til sjálfsvíga og langvarandi veikinda. Því er afar brýnt að reyna að átta sig á orsökum sjúkdómsins og ekki síst því hvað hægt er að gera til þess að koma í veg fyrir þunglyndi. Þunglyndi er að því er talið er oft tengt félagslegum aðstæðum og ýmsu því sem fólk verður fyrir í lífinu eins og við ábyggilega þekkjum.

Á ráðstefnu heilbrrn. varpaði Halldóra Ólafsdóttir geðlæknir fram þeirri hugmynd hvort ekki væri ástæða til þess að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, til þess að efna til einhvers konar kynningarherferðar hvað varðar þunglyndi rétt eins og hefur verið gert hvað varðar hjarta- og æðasjúkdóma með mjög góðum árangri. Málið snýst um það að kynna fyrir fólki einkennin, kynna fyrir fólki hvað getur leitt til þunglyndis þannig að fólk átti sig á einkennunum og leiti sér þá hjálpar í tíma eða þá að t.d. ættingjar átti sig á því hvað þarna er á ferð.

Þunglyndi er afar erfiður og alvarlegur sjúkdónur eins og ég nefndi hér áðan og ekki þarf annað en að skoða tölur Hagstofunnar yfir öryrkja og ástæður þess, ástæður örorku til að sjá það að sjúkdómar eins og þunglyndi leiða marga og sérstaklega konur til hreinnar örorku. Fólk verður óvinnuhæft.

Hér er því um mjög brýnt heilsufarslegt mál að ræða. Með þessari tillögu er ég að vekja athygli á þessu máli og jafnframt að fá þingheim til þess að ganga í það verk að samþykkja tillögu um það að heilbrrh. setji á fót nefnd sem kanni hvort og hvernig hægt sé að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða á þessu sviði sem beinist sérstaklega að konum og að tillögu nefndarinnar verði síðan fylgt eftir með sérstöku átaki heilbrigðisyfirvalda.

Að lokinni umræðunni, hæstv. forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og hv. heilbr.- og trn.