Aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:17:00 (1033)

1998-11-11 16:17:00# 123. lþ. 22.10 fundur 98. mál: #A aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna# þál., BG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:17]

Bryndís Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með flm. þessarar tillögu um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna. Ég held að það sé mjög þarft mál og brýnt að ræða og að það sé uppi á yfirborðinu. Þetta tengist að hluta til fyrri tillögu hv. þm. um reykingar. Það er stöðug krafa um fullkomið útlit hjá unglingsstúlkum og þær eru ekki gamlar þegar þær fara að velta því fyrir sér hvort þær falli inn í ákveðna ímynd. Ég hef í starfi mínu talsvert orðið vör við þunglyndiseinkenni hjá stelpum allt niður í 14, 15 ára. Það þarf því að ræða þessi mál af fordómaleysi og kynning þarf að vera aðgengileg þannig að konur geri sér grein fyrir því í tíma hvað er á seyði. Eins og kom fram hjá ræðumanni áðan eru konur oft undir miklu álagi og það eru samverkandi þættir sem valda því að þær finna kannski frekar fyrir þunglyndi en karlar. Engu að síður er þetta mjög þörf umræða fyrir bæði kynin, en sérstaklega held ég að nauðsynlegt sé að taka á því að gera átak í fyrirbyggjandi aðgerðum gagnvart þunglyndi kvenna.