1998-11-11 16:21:27# 123. lþ. 22.11 fundur 193. mál: #A jafnræði kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs# þál., Flm. BG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Flm. (Bryndís Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 209 er varðar reglur um jafnræði milli kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs. Tillagan sem er flutt af mér og Guðnýju Guðbjörnsdóttur er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að setja reglur er kveði á um að við veitingu fjármuna opinberra aðila til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs skuli gætt jafnræðis milli kynja.``

Ég vona að fáir efist um gildi heilbrigðrar tómstundaiðju fyrir þroska ungmenna. Innlendar og erlendar rannsóknir hafa staðfest jákvæð áhrif íþróttaiðkunar og æskulýðsstarfs á andlegan, líkamlegan og félagslegan þroska einstaklingsins. Sjálfsmyndin eflist, félagsþroskinn eykst, auk þess sem heilbrigð íþrótta- og tómstundaiðkun reynist hafa ótvírætt forvarnagildi. Talið er að ungmenni sem stunda íþróttir og eru þátttakendur í vel skipulögðu tómstundastarfi leiðist síður út í vímuefnaneyslu. Jafnframt þykir víst að þau ungmenni sem hafa ákveðin og skýr markmið að keppa að finni fremur tilgang og kjölfestu í lífinu. Þeim líður betur, gengur gjarnan betur í námi, þau hafa oft meiri sjálfsvirðingu og sjálfsaga og bera virðingu fyrir viðurkenndum samfélagsgildum. Menn getur greint á um áherslur og hvernig staðið er að framkvæmd mála. Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið og valdið hefur ágreiningi er ráðstöfun fjármuna úr opinberum sjóðum. Telja margir að þar sé ekki gætt jafnræðis milli kynja og réttur kvenna sé þar fyrir borð borinn.

Margt bendir til verulegrar mismununar milli kynja í tómstunda- og íþróttastarfsemi hér á landi og þarf ekki annað en að líta til umfjöllunar fjölmiðla í þeim efnum. Sú skýring er oftast nefnd að karlar séu virkari en konur og áhugi almennings sé meiri á íþróttum karla en kvenna. Slík skýring tekur engan veginn til róta vandans sem margir telja að mótist af gamalgrónum viðhorfum. Þau viðhorf koma síðan fram í mun minni hvatningu og stuðningi við kvenkyns iðkendur íþrótta. Hlutur kvenna í umfjöllun fjölmiðla er rýr og alls ekki í samræmi við þátttöku kvenna almennt. Fjölmiðlar eru sterkur áhrifavaldur hvað varðar fyrirmyndir og það að viðhalda gömlum viðhorfum. Lítil umfjöllun fjölmiðla getur því leitt til þess að stelpur vanti fyrirmyndir, og umfjöllun þeirra skiptir því verulegu máli.

Áhugi og viðhorf almennings til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi getur og haft áhrif á löngun ungmenna til þátttöku. Konur eru í minni hluta í stjórnum æskulýðs- og íþróttafélaga en það hefur sýnt sig að þar sem konur eru í forustu hefur stuðningur við stelpur verið meiri. Hér er sannarlega þörf á skilningi á aðstæðum og vilja til breytinga. Skýrt dæmi um aðstöðumun kynja er sú staðreynd úr hóp\-íþróttum að oft er minna kostað til þjálfara í kvennaflokkum. Stelpurnar fá gjarnan reynslulitla og lítt menntaða þjálfara sem væntanlega krefjast minni launa. Einnig eru nýleg dæmi um að stúlknaflokkum hafi verið ætlað að keppa á malarvöllum á knattspyrnumótum þegar sjálfsagt þykir að strákarnir njóti bestu aðstæðna og keppi á grasvöllum.

Varðandi kostnað og þátttöku í mótum er það þekkt staðreynd að stelpunum sé ætlað að fjármagna þátttöku með söfnunum og sölumennsku hvers konar á sama tíma og strákarnir eru styrktir úr sjóðum félaganna. Nýjasta dæmið er af skákstelpunum sem máttu fara á mót, ef þær bara söfnuðu sjálfar fyrir kostnaðinum. Í raun má segja að stelpur innan íþróttahreyfingarinnar hafi verið fjárhagslega sveltar og þess eru dæmi að foreldrar hafa séð sig knúna til að stofna styrktarklúbba sem hafa það að markmiði að styrkja þær með mánaðarlegum greiðslum.

Konur á Alþingi hafa margsinnis sýnt vilja sinn til að stuðla að breytingum í þessum efnum. Á undanförnum árum hafa þingkonur ítrekað vakið máls á að tryggja beri að íþróttaiðkun kvenna sitji við sama borð og íþróttaiðkun karla, en treglega hefur gengið að þoka málum í átt til jafnréttis. Þingsályktunartillögur hafa verið fluttar og samþykktar og fyrirspurnum svarað. Á 115. löggjafarþingi var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um eflingu íþróttaiðkunar kvenna sem flutt var af Kristínu Einarsdóttur ásamt öllum konum sem þá áttu sæti á þingi. Lítið fór fyrir markvissum aðgerðum í kjölfar þeirrar samþykktar. Á 120. löggjafarþingi var flutt af Bryndísi Hlöðversdóttur og fimm þingkonum allra flokka þingsályktunartillaga um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Í kjölfar samþykktar þeirrar tillögu var sett á laggirnar nefnd sem skilaði álitsgerð með mörgum góðum tillögum, sem vissulega eru vænlegar til að rétta hlut kvenna á þessu sviði. Þar er m.a. að finna tillögur sem lúta að skiptingu opinberra fjármuna, ákvæði um jafnréttisnefnd, um auknar rannsóknir á íþróttum kvenna, styrktarsjóð ætlaðan konum, átak í fjölmiðlum og menntun tengdri íþróttum, þ.e. að þjálfarar allra flokka skuli hafa viðeigandi menntun. Ein helsta tillaga þessarar nefndar var í þremur liðum og er svohljóðandi:

,,Allur stuðningur, fjármagn og aðstaða, sem ríki og sveitarfélög veita til íþrótta, skiptist hlutfallslega jafnt á milli karla og kvenna.

Þeir sem fá slíkan stuðning, fjármagn og aðstöðu sýni fram á að skiptingin sé sem jöfnust.

Eftirlit verði með skiptingu fjármagnsins, t.d. mætti festa ákvæði þess efnis í íþróttalögum eða í lögum ÍSÍ.``

Því miður náði efni þessarar tillögu ekki inn í endurskoðun íþróttalaga á síðasta þingi. Talsverðum fjárhæðum er varið af hálfu ríkis og sveitarfélaga til íþrótta- og æskulýðsmála og til þessa án nokkurra skilyrða um hvernig því fé skuli ráðstafað. Félagasamtök hafa því getað útdeilt þeim fjármunum sem þau fá til umráða að vild og án þess að gera grein fyrir skiptingu þeirra.

Á síðasta þingi lagði Kristín Halldórsdóttir fram fyrirspurn um fjárframlög til íþróttastarfsemi. Meðal þess sem leitað var svara við var hvort sett hafi verið skilyrði af hálfu ríkisins um jafnræði milli kynja við nýtingu fjárframlaga. Í svari menntmrh. kom fram að á fjárlögum hafi ekki verið sundurgreind framlög til karla annars vegar og til kvenna hins vegar og segir það sína sögu.

Þrátt fyrir gagnrýni um misskiptingu og skarðan hlut kvenna, síendurtekin tilmæli þingkvenna í þá veru að ekki sé hallað á konur og reynt sé að sjá til þess að íþróttaiðkun kvenna sé ekki sett skör lægra hafa stjórnvöld hvorki séð ástæðu til að setja skilyrði um það hvernig opinberum fjárframlögum skuli varið, né talið sig þurfa að gera grein fyrir þessari misskiptingu.

Víða erlendis hefur verið unnið markvisst að breyttri stefnu með auknum stuðningi við konur í íþróttum. Það hefur tvímælalaust skilað miklum árangri. Markvisst hefur verið reynt að efla þátttöku kvenna í íþróttum, auka fjölda þeirra innan forustu hreyfinga, búa konum betri aðstöðu til iðkunar og ákvarðanatöku hvers konar. Dæmi um árangur slíkra aðgera er átak Norðmanna í kvennaíþróttum á árunum 1984 til 1986 er þeir vörðu jafnmiklum fjármunum til uppbyggingar landsliða karla og kvenna í handknattleik. Það skilaði sér síðan í stórbættum árangri kvennalandsliðsins í alþjóðlegum stórmótum næstu ár á eftir.

[16:30]

Á liðnu sumri urðu töluverðar umræður um aðstöðumun kynja til þátttöku í knattspyrnu og öðrum íþróttagreinum. Landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu tjáði sig skýrt og greinilega um þessi mál í fjölmiðlum og lagði áherslu á að minni fjármunum væri varið til íþrótta kvenna en karla. Til þess mætti meðal annars rekja minni þátttöku kvenna í íþróttum og lakari árangur. Nú nýlega varð uppi fótur og fit þegar það fréttist að Skáksamband Íslands hefði ákveðið að greiða fyrir þátttöku drengja í skákmóti erlendis en ekki fyrir þátttöku stúlkna í sama móti. Sú umræða leiðir hugann að því hvort ekki sé nauðsynlegt að setja í lög eða reglur ákvæði þess efnis að fjárframlögum opinberra aðila til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttamála skuli skipt þannig að fyllsta jafnræðis sé gætt milli kynja.

Með tilliti til umræðunnar í samfélaginu mætti ætla að fyrir hendi væri skilningur og vilji til jafnræðis en staðreyndir tala sínu máli. Konur í íþróttum eiga á brattann að sækja í flestu tilliti. Þeirra ástundun nýtur ekki sömu virðingar og strákanna. Fjölmiðlar sýna afrekum þeirra lítinn áhuga, jafnvel þótt þau séu meiri og eftirtektarverðari. Þeim gengur erfiðlega að fá styrktaraðila á meðan karlarnir njóta stuðnings fjársterkra aðila. Þær njóta engan veginn sambærilegs skilnings, stuðnings eða hvatningar.

Kynbundið misrétti á hvergi rétt á sér og stríðir gegn tilgangi og markmiðum jafnréttislaga. Það er því vilji okkar kvennalistakvenna að settar verði skýrar og ákveðnar reglur með fortakslausum skilyrðum um skiptingu opinberra fjárframlaga til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs. Því er þessi tillaga flutt.

Herra forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.