Stofnun þjóðbúningaráðs

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 17:02:56 (1043)

1998-11-11 17:02:56# 123. lþ. 22.12 fundur 203. mál: #A stofnun þjóðbúningaráðs# þál., Flm. DH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[17:02]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær undirtektir sem þessi tillaga fær á Alþingi. Í mínum huga er það aukaatriði hvar þetta ráð verður vistað. Aðalatriðið er að því verði komið á. Eins og ég minntist á hefur verið starfandi samstarfsnefnd um íslenska þjóðbúninginn. Ég legg til að sú nefnd verði þetta ráð sem verði skipað af ráðherra og að það verði í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands því að þar verður að geyma öll gögn. Það verður að varðveita þau þar.

Margir eiga þjóðbúninginn en nota hann aldrei. Hann er geymdur í kistum og kössum og ég held að það sé tilvalið verkefni fyrir þá sem vita af búningi í sinni vörslu eða fjölskyldunnar að taka hann upp og leita sér leiðbeininga um hvernig með hann eigi að fara. Konur hér áður fyrr voru bæði lágvaxnari og miklu grennri en konur eru yfirleitt nú. Ef maður horfir á búninga á söfnum þá eru þeir af konum sem hafa verið eins og tíu ára gömul börn í dag því að auðvitað hefur þjóðin breyst og fólk er hávaxnara en áður.

Það er ekki heldur sama hvernig með búninginn er farið. Við höfum horft upp á það að íslenskur þjóðbúningur er beinlínis afskræmdur og við megum ekki láta það líðast að þannig sé farið með hann. Þetta er menningararfur og við verðum að fara vel með hann.