Þriggja fasa rafmagn

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 10:38:22 (1049)

1998-11-12 10:38:22# 123. lþ. 23.18 fundur 204. mál: #A þriggja fasa rafmagn# þál., Flm. DH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[10:38]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um þriggja fasa rafmagn á þskj. 222. Þessa tillögu flyt ég ásamt hv. þm. Hjálmari Jónssyni og Ísólfi Gylfa Pálmasyni. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á því hve mikið vanti á raflagnir fyrir þriggja fasa rafmagn í landinu. Nefndinni verði falið að meta þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn og jafnframt að leggja mat á kostnað við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því.``

Í greinargerð segir: ,,Á undanförnum árum hefur búsetuþróun á Íslandi leitt til umtalsverðrar fólksfækkunar á sumum landsvæðum. Áframhaldandi fólksfækkun á landsbyggðinni er þjóðhagslega óhagkvæm og nauðsynlegt er að stjórnvöld grípi til aðgerða til þess að sporna við henni.

Um 13% þjóðarinnar búa í sveitarfélögum sem sýna hættumerki í búsetuþróun. Þar eru ráðandi atvinnuvegir annaðhvort landbúnaður eða fiskveiðar og fiskvinnsla.

Búum með framleiðslurétt hefur fækkað en jafnframt hafa þau stækkað. Sífellt eru gerðar meiri kröfur um hagræðingu og arðsemi. Raforkukostnaður í landbúnaði hækkar með öflugri vélum og aukinni tækni. Með þriggja fasa rafmagni mun raforkukostnaður minnka og um leið skapast betri skilyrði fyrir þá sem stunda landbúnað og iðnað.``

Eins og staðan er í dag stendur skortur á rafmagni uppbyggingu víða á landinu fyrir þrifum. Margir telja eins fasa rafmagn ekki vera rafmagn. Mikill munur er á þriggja fasa rafmagni og einfasa. Þriggja fasa rafmagn býður upp á mun meiri möguleika þar sem það er öflugra og hægt er að láta mótora snúast í báðar áttir. Það fer minna fyrir þiggja fasa mótorum og þeir eru mun ódýrari.

Þurfi bóndi að endurnýja mjólkurtank þá er allt að 140 þús. kr. verðmunur milli einfasa rafmagns og þriggja fasa rafmagns. Mörg framleiðslutæki bæði fyrir landbúnað og smærri iðnað eru eingöngu framleidd með þriggja fasa rafmagn í huga. Í landbúnaði eru þetta súgþurrkunarblásarar, lokunarbúnaður í heyturna, talíur o.fl. Vöntun á þriggja fasa rafmagni til sveita stendur í vegi fyrir því að hægt sé að stofna fyrirtæki í smærri iðnaði þar sem ekki er hægt að fá tæki fyrir einn fasa eða þá einfasa tækin eru mun dýrari og um leið ekki samkeppnishæf. Þetta geta verið rennibekkir, fræsarar, rafsuðuvélar og ýmis járnsmíðaverkfæri, færibönd og allt það sem nota þarf mótora við. Einnig á þetta við í listiðnaðinum þar sem notaðir eru rennibekkir og leirbrennsluofnar.

Það er viðurkennd staðreynd að atvinnulíf er einhæft á landsbyggðinni. Þar þyrfti markvisst að auka fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu. Í grein eftir Stefán Ólafsson sem birtist nýverið segir, með leyfi forseta:

,,Á 7. áratugnum tapaði landsbyggðin frá 200--780 íbúum á ári en á 8. áratugnum snerist þróunin við. Þá fluttu fleiri frá höfuðborgarsvæðinu út á land, einkum á milli 1975 og 1980 en árið 1973 voru búferlaflutningar í jöfnuði. Frá árinu 1981 hafa hins vegar orðið mikil umskipti til hins verra fyrir landsbyggðina, enda hefur hún tapað frá tæplega 600 til tæplega 1.800 íbúum á ári.``

En hverjir flytja á brott? Það er hrygningarstofninn, það er unga fólkið milli tvítugs og þrítugs og raunar flest rétt yfir tvítugt. Nærri lætur að fimmta hver kona á aldrinum 20--24 ára flytji lögheimili sitt milli sveitarfélaga innan lands á ári hverju. Flutningurinn er minni hjá körlum í flestum aldursflokkum en fylgir um það bil sömu aldursdreifingu. Þetta er mjög alvarleg þróun sem sporna verður við.

Í skoðanakönnun kemur þó fram að afstaða fólks til búsetu á landsbyggðinni er á margan hátt jákvæð og mun fleiri vilja flytja út á land en þaðan til höfuðborgarsvæðisins. En hvað er þá í veginum? Almenn þjónusta er víðast í mjög góðu horfi á landsbyggðinni og í byggðaáætlun forsrh. er það eitt af markmiðunum að íbúum á landsbyggðinni fjölgi um 10% til ársins 2010. Til þess að það geti orðið þarf að koma til aukin fjölbreytni í atvinnulífi. Bættar samgöngur eru lykilatriði fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu og skóla langt frá heimilum sínum. Það þarf að gera stórátak í varanlegri vegagerð.

Að flytja börn í skóla um langan veg á ónýtum malarvegum jaðrar við að vera barnaverndarmál. Það þarf að lækka húshitunarkostnað. Það er eitt af því sem fólk setur fyrir sig varðandi búsetu úti á landi hve húshitun, sérstaklega rafhitun, er stór liður í útgjöldum heimilanna. Í rannsókn Stefáns Ólafssonar í byggðaþróunarmálum fyrir Byggðastofnun kemur fram að húshitunarkostnaðurinn er beint kjaraatriði fyrir almenning en íbúar þeirra svæða sem ekki njóta jarðhitaveitna greiða allt að tvöfaldan húshitunarkostnað á við það sem tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. Þetta á líka við sum hitaveitusvæðin. Meðalhúshitunarkostnaður á köldum svæðum er nú nærri heilum mánaðarlaunum verkamanns á einu ári.

Annað mesta umkvörtunarefni er verðlag og verslunaraðstæður sem tengjast auðvitað aðgengi að verslunarþjónustunni sem erfitt er að veita svo fullnægjandi teljist nema í stærri þéttbýliskjörnum. Þeim kjarabótum sem almenningur hefur fengið með lægra vöruverði og til eru komnar vegna samkeppninnar er ekki til að dreifa í strjálbýlinu. Þar getur verslunin ekki keppt við stóru aðilana en aftur á móti er ætlast til sömu þjónustu og fjölbreytni í vöruvali.

Það er viðurkennd staðreynd að þáttur menntunar og menningar er mikill. Þar sem menntastofnanir hafa verið efldar og þá sérstaklega á framhalds- og háskólastigi hefur það um leið eflt þær byggðir sem þess hafa notið, bæði hvað varðar mannafla og fé. Fjárveitingar til menningarmála á landsbyggðinni hafa verið auknar nú síðustu ár og gildi menningar er alþekkt.

Að mörgu þarf að huga þegar fjallað er um byggðamál en mest er um vert að um það sé fjallað af þekkingu og sanngirni. Við búum hér ein þjóð í einu landi.

Herra forseti. Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til hv. iðnn.