Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:31:50 (1056)

1998-11-12 11:31:50# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:31]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér er enn á ný til umræðu tillaga um að Íslendingar hefji hvalveiðar. Ég vil eins og fleiri þakka hv. 1. flm. fyrir baráttu hans í málinu og að sjálfsögðu öðrum sem hafa tekið þátt í henni.

Þrátt fyrir miklar umræður um þetta mál þing eftir þing hefur allt of lítið gerst í málinu. Það liggur fyrir að yfirgnæfandi rök eru fyrir því að við hefjum hvalveiðar. Rökin hafa komið fram hjá þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það liggur fyrir að mikill meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi því að hvalveiðar verði hafnar á ný. Mér finnst því allt of lítið hafa gerst í málinu á undanförnum árum á hinum pólitíska vettvangi. Það eru jafnframt vísindalegar forsendur fyrir því að hefja hvalveiðar.

Hér hefur verið farið yfir það hvernig hvalastofnar hafa vaxið og dæmi verið nefnd og ég persónulega þekki ýmis dæmi í því sambandi. Það sem mér finnst kannski stóra málið í þessu er hin hatramma samkeppni sem er komin upp milli hvalastofnanna og okkar um nýtingu fiskstofna í hafinu. Það hafa verið lögð fram rök fyrir því að hvalastofnarnir eru farnir að taka til sín mjög mikið af fiskstofnunum. Meðan við erum að beita fiskveiðistjórnun til að nýta fiskstofnana sjálfbært þá getum við ekki horft upp á þetta án þess að grípa inn í atburðarásina.

Komið hefur fram að aðrar hvalveiðiþjóðir hafa þegar hafið hvalveiðar eða ætla að hefja þær. Norðmenn hafa gert þetta, Japanar eru farnir af stað og nýjustu fréttir þaðan eru þær að þeir hafi nýlega smíðað nýtt hvalveiðiskip, stórt skip, og sent suður í Kyrrahaf til hvalveiða. Bandaríkjamenn, sem hafa sýnt ótrúlegan tvískinnung í þessum málum í gegnum tíðina, eru sjálfir á kafi í að veiða hval en beita sér af hörku gegn öðrum þjóðum í því sambandi.

Hér á landi hafa viðskiptaleg sjónarmið helst ráðið afstöðu margra gegn hvalveiðum. Menn eru hræddir við að hvalveiðar bitni á okkur viðskiptalega. Út af fyrir sig er hægt að skilja þau sjónarmið en á hinn bóginn höfum við lítið gert, lítið beitt áróðri til að vinna málið okkur í hag á viðskiptasviðinu. Ég tel því að við höfum fallið á prófinu að vissu marki að því leyti.

Hvað viðskiptalegu hliðarnar á þessu máli varðar þá hefur hv. 1. flm. farið yfir það að Norðmennirnir hafa ekki lent í viðskiptalegum vandræðum út af hvalveiðum og ég tel að við þurfum ekki að óttast það heldur. Af því að ég hef nefnt það hér að við höfum lítið gert, þá verð ég að leyfa mér að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn, kannski fyrst og fremst hæstv. sjútvrh., fyrir aðgerðaleysið. Fyrir tveimur eða þremur árum var hér skipuð nefnd til að fara yfir þessi hvalveiðimál. Mér virðist ekkert hafa gerst í þessu. Við erum allt of mikið að hjakka í sama farinu ár eftir ár, við ræðum þessi mál, tökum afstöðu til og frá án þess að nokkrar aðgerðir fylgi.

Við vitum öll að öfgasamtök á náttúruverndarsviðinu hafa haldið okkur í heljargreipum í þessu máli í mörg ár. Við verðum einfaldlega að brjótast út úr þessu með ákvörðun um að hefja hvalveiðar. Í mínum huga er engin spurning um það. Við vitum að öfgasamtök eru farin að beita sér gegn nýtingu fiskstofna hafsins og vitum af umræðunni um að beita aðgerðum gegn fiskveiðiþjóðum við nýtingu einstakra fiskstofna. Þetta er þróun sem við getum ekki horft upp á. Þjóðin lifir á fiskveiðum og við verðum einfaldlega að beita þarna einhverjum ráðum til að snúa þessari þróun við.

Það hefur komið fram varðandi hvalveiðimálin að sumir óttast að sú ferðaþjónusta sem byggst hefur upp víða á landinu í kringum hvalaskoðunarferðir muni bíða tjón af hvalveiðum. Ég held að þetta sé ekki rétt. Ég held að það geti vel farið saman og ýmsir aðilar í ferðaþjónustu telja þetta vel geta farið saman. Ég vona að Keikó blessaður í Eyjum muni ekki valda okkur vandræðum í þessu máli. Ég verð þó að segja að ég óttast örlítið að svo geti farið vegna almenningsálits erlendis.

Varðandi ferðaþjónustuna held ég að þegar við hefjum hvalveiðar, þá eigi hvalveiðimenn að skoða möguleikann á að bjóða ferðamönnum upp á hvalveiðiferðir. Ég er viss um að fjöldi erlendra ferðamanna væri spenntur fyrir því að fá að fljóta með í hvalveiðiferðir og fylgjast með því þegar hvalir eru veiddir. Þar gæti verið innlegg í uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi.

Mér fannst athyglisvert það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi varðandi firringu nútímamannsins. Ég held að það sé hárrétt. Það er aumkunarvert að horfa upp á fólk fjalla um hvali eins og mannlegar verur með mannlega eiginleika. Það er náttúrlega með ólíkindum að stór hluti þjóða erlendis fjallar um þessar skepnur á þannig. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. að þar sé um algera firringu nútímamannsins að ræða.

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri hvetja til aðgerða í hvalveiðimálum og hér verði tekin ákvörðun um að hvalveiðar hefjist á ný á næsta ári. Allar vísindalegar forsendur eru fyrir hendi og við eigum að sjálfsögðu að nýta hvalastofnana sjálfbært eins og aðra fiskstofna í hafinu. Ég tel að ýmislegt á alþjóðavettvangi sé að breytast okkur í hag í þessu máli. Umfram allt er það þó skoðun mín að við verðum að sýna pólitískt hugrekki og taka ákvörðun um að hefja hvalveiðar við Ísland strax á næsta ári.