Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:39:14 (1057)

1998-11-12 11:39:14# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:39]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Nú þegar við ræðum þetta mál sem oft hefur komið á dagskrá þingsins er rétt að átta sig á um hvað þessi umræða snýst í raun og veru, hverjar þær grundvallarspurningar eru sem við erum að reyna að svara hér. Um hvað snýst hvalaumræðan í rauninni?

Að mínu mati um snýst umræðan um tvær meginspurningar. Annars vegar um rétt og skyldu fullvalda þjóðar til þess að nýta auðlindir sínar og hins vegar um það hvort við höfum rétt á því, sem hluti af samfélagi þjóðanna, að vinna í anda þeirrar stefnumótunar sem ríkt hefur á alþjóðlegum vettvangi á umhverfissviðinu á undanförnum árum, þ.e. að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Flóknara er þetta mál ekki. Annars vegar snýr þetta að fullveldishugtakinu og hins vegar er þetta spurning sem við hljótum að svara okkur sjálfum og öðrum um það hvernig við stöndum að nýtingu náttúruauðlinda.

Við skulum ekki gleyma því að við háðum landhelgisstríð fyrir rétti okkar til þess sem sjálfstæð fullvalda þjóð að nýta sjávarauðlindir okkar. Um þetta snerust landhelgisátökin alla tíð frá því að við urðum fullvalda ríki. Þau sjónarmið sem við knúðum þannig fram og eru auðvitað greypt í alþjóðahafréttarsáttmálann voru síðan áréttuð í sumar af Kofi Annan framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í samtölum hans við hæstv. utanrrh. Með öðrum orðum er það óskoraður réttur okkar sem fullvalda og sjálfstæðrar þjóðar að nýta auðlindir okkar hvort sem það eru hvalir eða eitthvað annað ef við gerum það af ábyrgð.

Við Íslendingar höldum mjög einart fram þeirri stefnu okkar að nýta auðlindir okkar á ábyrgan hátt á grundvelli þess sjónarmiðs um sjálfbæra nýtingu auðlindanna sem við höfum haldið fram hvarvetna og alþjóðasamfélagið hefur í raun samþykkt í orði kveðnu. Að skila afkomendum okkar auðlindunum í ekki lakari ástandi en þær eru í í dag og ekki í lakari ástandi en svo að hægt sé að umgangast þær án þess að ganga á þær eru grundvallarsjónarmið sem við höfum viljað hafa í heiðri og nýta hvalastofnana í þessum dúr.

Í raun snýst málið um hluti sem okkur finnast sjálfgefnir, rétt hinnar fullvalda þjóðar og réttinn til að nýta náttúruauðlindir af skynsamlegu viti. Þess vegna er mjög einkennilegt þegar reynt er að halda því á lofti að þeir sem nýta vilja auðlindir með sjálfbærum hætti séu á einhvern hátt í andstöðu við náttúruverndarsjónarmið. Þessu er einmitt alveg öfugt farið. Áður fyrr óðu uppi menn sem héldu því á lofti að náttúruvernd væri að snerta ekki á náttúrunni, koma hvergi nálægt henni og vera ekki þátttakandi í lífríkinu ef þannig mætti að orði komast. Þeir vildu hverfa aftur til forneskjunnar. Þetta er löngu afgreitt mál. Það tala nánast engir þannig í alvöru lengur.

Í dag er grundvallaratriði í náttúruverndarstefnu heimsins að nýta auðlindirnar á skynsamlegan og ábyrgan hátt. Þess vegna höldum við fram rétti okkar til að hefja hvalveiðar og hér innan lands eru menn fyrir löngu hættir að tala um að þetta sé spurning um hvort gengið verði á hvalastofnana ef hvalveiðar hefjist. Auðvitað er öllum ljóst og margsannað af okkar eigin vísindamönnum, staðfest af vísindanefnd NAMMCO og kom glögglega fram á síðasta fundi NAMMCO að öll rök mæla með því að við hefjum þessar veiðar. Efnahagsleg rök mæla með því að við hefjum þessar veiðar vegna þess að ella er ljóst að aðrir nytjastofnar verða verr á sig komnir.

Því er haldið fram að það þýði ekkert að hefja hvalveiðar vegna þess að við getum ekki selt vöruna. Þetta er mjög sérkennilegt sjónarmið. Það hlýtur að vera á ábyrgð þeirra sem veiða og vinna hvalafurðirnar að selja þær. Það er ekki á ábyrgð ríkisstjórnar eða hins opinbera. Engum hefur dottið í hug að fara fram á slíka ábyrgð. Þeir sem vilja hefja hvalveiðar og stunda þær sem hverja aðra atvinnugrein fara ekki fram á ábyrgð ríkisins. Því hefur verið haldið fram að hægt væri að beita okkur alls konar efnahagsþvingunum og hægt væri að koma því þannig fyrir að einstök ríki mundu neita að flytja inn hvalaafurðir. Þetta er líka rangt.

[11:45]

Fyrir ekki löngu kom upp mjög athyglisvert mál í Bandaríkjunum þar sem Bandaríkin hafa beitt efnahagsþvingunum og innflutningsbanni á rækjuafurðum sem veiddar hafa verið af tilteknum þjóðum vegna þess að grunur leikur á að þessar rækjuveiðar grandi líka sjávarskjaldbökum sem munu vera í útrýmingarhættu. Útrýmingarhættan er að sjálfsögðu ekki til staðar varðandi hvalveiðarnar. WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunin, komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, og frá því var greint í hinu virta blaði Financial Times, sem ég er hér með undir höndum, að þetta stæðist ekki. Bandaríkin gætu ekki beitt innflutningsbanni á rækjuafurðir þessara þjóða þrátt fyrir að grunur léki á að meðafli í rækjunni væru einhverjar tegundir sem væru ekki þóknanlegar bandarískum yfirvöldum.

Við sjáum því af þessu að jafnvel þó að sú ólíklega staða kæmi upp gagnvart ríkjum eins og Bandaríkjunum, sem kysu e.t.v. að fara þær einkennilegu leiðir að ráðast á gamalgróið vinaríki sitt eins og Ísland með einhverjum ofbeldisaðgerðum, kæmust þau ríki að öllum líkindum ekkert upp með það.

Síðan hafa menn verið að segja að við getum ekki hafið hvalveiðar þar sem það mundi granda hjá okkur alls konar öðrum atvinnugreinum. Við getum bara vísað til norsku reynslunnar, sem hefur margoft verið gert í þessari umræðu, sem sýnir fram á að þetta er allt saman vitleysa. Norski viðskiptaháskólinn í Bergen sýndi fram á það að útflutningurinn í Noregi hafði bara gott af hvalveiðunum. Hafði bara gott af þeim. Jafnframt kom fram í þekktu norsku viðskiptatímariti, Dagens Næringsliv, að aukningin í hvalaskoðunum hefur aldrei verið önnur eins í Noregi eins og eftir að hvalveiðarnar hófust, 50% aukning í hvalaskoðunum á þessu ári. Síðan til viðbótar er náttúrlega rétt að árétta það sem hér hefur verið bent á að vinnsla á hvalaafurðum var í sjálfu sér mikið túristaaðdráttarafl á þeim tíma sem þetta fór fram. Ég ætla að bæta því við, virðulegi forseti, rétt í lokin að þegar þær umræður hófust á sl. vori að hvalveiðar mundu væntanlega hefjast tóku íslenskar ferðaskrifstofur strax við sér, höfðu samband við hugsanlega hvalveiðimenn og hvalaverkendur og óskuðu eftir því að fá að koma með ferðamenn sína og sýna þeim þetta athyglisverða mál sem víðast annars staðar væri ekki hægt að fá að kynnast.