Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 12:52:21 (1067)

1998-11-12 12:52:21# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[12:52]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flytji till. til þál. sem þessa. En auðvitað verða menn í fyrsta lagi að spyrja hver tilgangurinn sé með flutningnum. Hann gæti verið þríþættur: Í fyrsta lagi sá að koma í veg fyrir áframhaldandi töp í þessum fyrirtækjum. Í öðru lagi gæti hann verið sá að hv. þm. sé að reyna að slá sér pólitíska keilu með málinu með því að taka enn einu sinni upp umræðu um útlánatöp og svo í þriðja lagi sá að fram fari rannsókn, og að á grundvelli rannsóknarinnar geti síðan farið fram refsing. Allt getur þetta verið nauðsynlegt að gerist en ég vil aðeins í því samhengi horfa til þess hvað við höfum verið að gera í þessum hlutum á undanförnum árum.

Í fyrsta lagi skal ég fullyrða að það mun draga úr útlánatöpum bankanna frá því sem verið hefur. Við höfum einmitt gert margt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þessi útlánatöp geti haldið áfram. En það var hins vegar hárrétt, án þess að hv. þm. segði það nákvæmlega berum orðum, að meginástæðan fyrir miklum útlánatöpum er sú að atvinnulífið hér á árunum 1989--1995 bjó við mjög erfiðar aðstæður og erfiðar efnahagslegar forsendur voru í landinu þannig að fyrirtækin töpuðu miklum fjármunum og gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þess vegna voru þessi töp umfram 1% eins og ég fer betur í á eftir.

Það sem gert hefur verið er að formi ríkisviðskiptabankanna hefur verð breytt yfir í hlutafélög. Breytt hefur verið um starfsreglur innan bankanna og ekki síst í kjölfar páskahretsins í bankamálum í fyrra hefur starfsreglum í öllu eftirliti verið breytt. Ábyrgð stjórnenda í rekstri þessara banka hefur verið aukin með skýrum samningum sem ekki voru áður til milli bankastjóranna annars vegar og svo bankaráðsins hins vegar um hver séu réttindi þeirra og skyldur.

Í fjórða lagi eru komnir nýir stjórnendur að þessum bönkum sem viðhafa önnur vinnubrögð en menn hafa haft fram undir þetta. Þetta kemur auðvitað ekki í veg fyrir að peningar geti tapast, en þetta kemur örugglega í veg fyrir að útlánatöpin verði eins mikil og þau hafa verið að undanförnu.

Ég efast hins vegar um að þessi tillaga þjóni nokkrum tilgangi, síður en svo, en óttast að hún geti jafnvel haft skaðleg áhrif á starfsemi þessara fyrirtækja sem nú er búið að breyta eins rækilega og raun ber vitni. Það eru ótvíræð merki þess að þjóðin hefur aftur orðið trú á Landsbankanum. Það kom fram í því að 12.200 einstaklingar skráðu sig fyrir hlutabréfum í bankanum. Þeir hefðu ekki gert það ef þeir hefðu haldið að bankinn væri að tapa stórkostlega. Þeir gerðu það vegna þess að þeir höfðu trú á þeim rekstri sem þar er í gangi.

Sama má, held ég, halda fram um Búnaðarbankann og mun kom í ljós þegar hlutafjáraukningin í Búnaðarbankanum fer fram. Því spyr ég: Ef þjóðin hefur trú á þessum fyrirtækjum og þeim sem þar stjórna, er það þá til einhvers að vera að velta upp hlutum eins og þessum, velta upp fortíðinni og spyrja sig þeirra spurninga af hverju gerðist þetta allt saman, ef við höfum skýringuna líka? Og skýringin byggist að stórum hluta til á erfiðu ástandi í atvinnulífinu.

Hverjir bera þessa ábyrgð? Er það ríkisstjórnin? Jú, ríkisstjórnin ber einhverja ábyrgð vegna þess að það er ríkisstjórnarinnar að skapa þau skilyrði í atvinnulífinu að atvinnulífið geti blómstrað. Að því leyti til ber hún ábyrgð. Hún ber hins vegar ekki beina pólitíska ábyrgð. Ber Alþingi ábyrgð? Að einhverju leyti vegna þess að á þessum tíma sem þarna er aðallega talað um eru bankaráðin kosin af Alþingi og bankaráðin bera þarna ábyrgð. En ég tók eftir því að hv. þm. vill bara tala um árin 1993--1997 og ber því við núna að hv. þm. Magnús Stefánsson hafi bara spurt um árin þar á undan. Það er hins vegar ekki svo því að hann spurði um árið 1994 líka.

Ég held að það sé mjög mikilvægt í þessu sambandi að rifja upp að árin 1991--1994 er tapið a.m.k. mest. Nú er ég ekki með endanleg útlánatöp. Þau komu jú fram í svarinu. En ég er með skýrslu bankaeftirlits Seðlabankans um það hvað lagt var í afskriftarsjóði á þessum tíma til þess að verjast yfirvofandi töpum. Það er eðlilegt. Síðan getur verið að ákveðinn hluti þeirra tapa innheimtist og sé jafnvel enn að innheimtast þó menn hafi lagt það til hliðar á sínum tíma af því að fyrirtækin hafa aftur komist á fæturna og einstaklingar líka.

1991--1994 eru 9,3 milljarðar kr. lagðir í afskriftarsjóð, 1 milljarður 1991, 4 milljarðar 1992, 2 milljarðar 1993 og 2 milljarðar 1994 í Landsbankanum. (JóhS: Hvað 1991?) 1991 1 milljarður kr. Síðan á árunum 1995--1997 eru þetta 3,5 milljarðar fyrir Landsbankann eða með öðrum orðum, og við færum þetta upp á ríkisstjórnir af því að við segjum að ríkisstjórnin beri ábyrgð á ástandinu í atvinnulífinu, þá var þetta á þeim tíma sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ríkisstjórn ... (JóhS: Sem viðskrh.?) Ekki sem viðskrh. að ég hygg. En hv. þm. hafði víða áhrif í ríkisstjórninni með þeirri framgöngu sem hv. þm. hafði tamið sér sem ráðherra í ríkisstjórn á þeim tíma og hafði þess vegna líka áhrif á marga aðra ráðherra. Ég hefði betur viljað að hv. þm. hefði beitt sér jafnvel gagnvart atvinnulífinu og baráttunni fyrir því á þessum tíma í ríkisstjórn eins og hún beitti sér fyrir mörgum öðrum málum sem ekki voru öll skynsamleg.

Staðreyndin er þess vegna sú að árin 1991--1994 voru lagðir í afskriftarsjóði í Búnaðarbanka og Landsbanka 12 milljarðar kr., en í tíð þessarar ríkisstjórnar sem af er þessu kjörtímabili hafa verið lagðir 4,8 milljarðar. Hvað þýðir að leggja í afskriftarsjóð? Endurskoðendur fyrirtækjanna eru þá að meta hvað muni hugsanlega tapast. (JóhS: Vill ráðherrann ekki fara yfir endanleg útlánatöp?) Endanleg útlánatöp er ég ekki nákvæmlega með (JóhS: Nei.) vegna þess, hv. þm., að enn er ekki hægt að segja til um hver endanleg útlánatöp verða, heldur hafa menn notað varúðarregluna í því að leggja til hliðar. Ég vildi gjarnan, og ég veit að hv. þm. vonar það líka, að mikið af þessu muni innheimtast til að styrkja bankakerfið. Það er aðalatriðið.

En af því að hv. þm. --- og nú er tíminn orðinn naumur --- taldi óeðlilegt að þetta væri svona í bönkunum og mætti ekki vera meira en 1% og vitnaði í viðtal við mig í Degi ekki alls fyrir löngu og bar síðan saman húsbyggingarsjóðina, Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins, þá er það samanburður sem náttúrlega ekki er hægt að leyfa sér að hafa hér í frammi einfaldlega vegna þess að öll útlán byggingarsjóðanna, bæði Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, eru tryggð með 1. veðrétti í þeim eignum sem um er að ræða. En þarna er ekki um neinar tryggingar að ræða nema á síðari veðréttum eða hugsanlega persónulegar tryggingar. (Forseti hringir.) En hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem ráðherra félagsmála og berandi ábyrgð á Byggingarsjóði verkamanna tapar 6 milljörðum kr. af eigin fé þess sjóðs frá árinu 1986 til ársins 1995. Í þeirri skýrslu sem hér er um byggingarsjóðinn er eigið fé byggingarsjóðsins 9 milljarðar kr. í upphafi árs 1986 en komið niður í rétt tæpa 3 milljarða kr. 1995. Fyrir utan það að ætla að reyna að bera þetta saman þá verður hv. þm. líka að halda því til haga hvað tapaðist í hennar tíð sem hæstv. félmrh. á þessum tíma í Byggingarsjóði verkamanna samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar. (Forseti hringir.) Þingið hefur lagt í vana sinn að trúa öllu því sem Ríkisendurskoðun kemur með, það geri ég og ég veit að hv. þm. vill gera líka.

[13:00]