Úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 15:52:21 (1072)

1998-11-12 15:52:21# 123. lþ. 23.20 fundur 8. mál: #A úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg útilokað að rökræða við hæstv. ráðherra. Það er einhver meinloka í málflutningi hans vegna þess að hann endurtekur bara ruglið sem var í fyrri ræðu hans. Af því að ég er búin með tíma minn og hef bara örstutt andsvar, þá vil ég svara honum þegar hann leyfir sér að segja að málflutningur minn þegar ég er að biðja um að skýringar komi fram fyrir þjóðina á 14 milljarða útlánatapi sem skattgreiðendur þurfa að greiða, þá heldur ráðherrann og leyfir sér að halda því fram, herra forseti, að þetta byggist allt á refsigleði af minni hálfu, refsigleði. Þetta er auðvitað rangt. Ráðherrann reynir líka í málflutningi sínum að koma sér hjá að svara kjarna málsins, því sem hann hélt fram þ.e. að allt í lagi væri með 14 milljarða útlánatöp og sagði að þetta væri um 1% af heildarútlánum. Ég hef sýnt fram á að þetta séu 2--2,5% og ráðherrann hefur ekki notað þær mínútur sem hann hefur haft til að hrekja þann málflutning heldur verið með tölur um húsnæðiskerfi sem standast ekki og ég hrakti í málflutningi mínum og þarf ekki að endurtaka hér.

Ráðherrann heldur því sí og æ fram að útlánatöpin hafi verið meiri á árunum 1990--1994 heldur en eftir þann tíma. Það er eðlilegra að miða við endanleg útlánatöp. Það er eðlilegra, herra forseti, og því er það sem ég nota þann samanburð.

Ég verð að spyrja og það skal verða mín lokaspurning: Telur hæstv. ráðherra það eðlilegt eins og hér er sagt að útlánatöpin hafi verið það sem samsvarar tekjuskatti einstaklinga á einu ári eða 14 milljarðar? Ætlar ráðherrann enn að halda sig við það að þetta sé ekki nema 1% af heildarútlánum bankanna? Finnst ráðherranum í lagi að hér sé um að ræða 2,5% útlánatöp á margra ára tímabili? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari því.