Þingfararkaup

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 16:02:34 (1076)

1998-11-12 16:02:34# 123. lþ. 23.22 fundur 104. mál: #A þingfararkaup# (laun, endurgreiðsla kostnaðar o.fl.) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og lögum nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Árni R. Árnason.

Herra forseti. Það er ákveðinn vandi á höndum við ákvörðun launa þingmanna. Við búum við þrískiptingu valdsins og þess vegna er erfitt að láta annaðhvort framkvæmdarvaldið eða dómsvaldið ákvarða laun þingmanna sem og öfugt.

Kjaradómur, þ.e. angi af dómsvaldinu, hefur ákvarðað laun þingmanna og það hefur ekki gefist vel vegna þrýstings annars staðar frá, m.a. frá framkvæmdarvaldinu. Sú lausn sem hér er stungið upp á er að fráfarandi þing ákveði tímanlega fyrir næsta þing laun þeirra þingmanna sem þá verða kjörnir. Þetta helgast af því að þingmannsstarfið er í eðli sínu skammtímastarf, menn eru jú kosnir til fjögurra ára, og þeir þingmenn sem nú sitja á Alþingi eiga ekki tryggt sæti á næsta þingi. Þetta gæti verið lausn til framtíðar, að Alþingi ákvæði þetta tímanlega.

Nú er því miður svo komið, herra forseti, að tiltölulega stutt er í kosningar. Á nokkrum stöðum á landinu er þegar búið að stilla upp eða verið að stilla upp listum. Prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjanesi hefur t.d. þegar verið lokað þannig að fólk getur ekki boðið sig fram þar úr þessu. Það að Alþingi ákveði laun næsta þings á þá ekki við um það kjördæmi. Hins vegar eru stór kjördæmi eftir, ég nefni Reykjavík og fleiri kjördæmi.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að fullur trúnaður ríki milli kjósenda og fulltrúa þeirra þannig að menn hafi ekki á tilfinningunni að þingmenn hafi önnur laun en þeir raunverulega hafa og ljóst sé hvaða laun þingmenn hafa, hvaða kostnað þeir fái greiddan og hvernig.

Laun alþingismanna hafa mikið verið til umræðu. Fáar launagreiðslur eru eins mikið í sviðsljósinu og hefur m.a. verið haldinn fjölmennur útifundur gagngert til að hafa áhrif á laun alþingismanna. Hið merkilega var að þeir sem þar gagnrýndu há laun alþingismanna eru margir hverjir með miklu hærri laun. Enn fremur hafa margir þær ranghugmyndir að alþingismenn fái alls kyns aukagreiðslur fyrir setu í nefndum þingsins og störf fyrir það erlendis. Reyndar fá varaforsetar Alþingis og formenn þingnefnda 15% álag á þingfararkaupið en að öðru leyti er ekki greitt fyrir nefndastörf þingsins eða störf erlendis sérstaklega.

Almenningur og lífeyrisþegar tóku á sig mikla kjaraskerðingu þegar syrti í álinn upp úr 1990. Þá var reynt að miða kjör lífeyrisþega við verðlag og þurfti að skerða þau aftur og aftur. Nú hafa laun hækkað umtalsvert og langt umfram hækkun launa í nágrannalöndum okkar. Við erum því aftur farin að nálgast þau laun sem greidd eru í nágrannalöndum okkar og er það vel. Sú hækkun þingfararkaups sem hér er lögð til hefur ekkert með þessa þróun að gera. Hún er að mínu mati algjörlega sjálfstæð. Spyrja má hvort þjóðin hafi efni á að greiða hásetum á þessari skútu svo illa að hún verði ekki toppmönnuð. Ég mun koma að því á eftir.

Áður fyrr komust þingmenn oft í hagkvæma aðstöðu, þá voru neikvæðir vextir og þar áður var skömmtun í gangi sem menn gátu notað sér í alls konar skyni. Þetta voru hlunnindi sem fylgdu þingmannsstarfinu. Svo voru stjórnarsetur úti um allt, þar sem menn komust í bankaráð og víðar og gátu drýgt laun sín allverulega og jafnvel tvöfaldað með bankaráðssetum í vissum bönkum.

Þetta er liðin tíð sem betur fer. Þetta á ekki að vera svona. Menn eiga ekki að hafa hlunnindi af óverðtryggðum lánum umfram aðra eða að fá sæti í alls konar stjórnum út og suður. Að mínu mati eiga laun þingmanna að vera alveg kristaltær. Enginn vafi má leika á því hvaða laun þingmenn hafa.

Þegar fólk sem starfar t.d. við stjórnun í atvinnulífinu eða hjá hinu opinbera er spurt hvort það vilji gefa kost á sér til starfa á Alþingi fást oft þau svör að það hafi ekki efni á því að fara á þing, það lækki svo mikið í launum. Svo getur fallið til mikill kostnaður við prófkjör. Við sjáum það sem er að gerast á Reykjanesi. Ég efast um að frambjóðendur þar sleppi við minna en 2 millj. í kostnað. Þeir lenda í þeim vanda að ef þeir ætla að fá styrki til að standa undir framboðinu þá verða þeir einhverjum háðir. Ef þeir fá ekki styrki til að borga þetta þá eru þeir jafnvel launalausir í eitt eða tvö ár á þingi. Hver hefur efni á því? Kannski að það sé aðeins á færi eignamanna að fara á þing. Er það virkilega vilji manna að eignamenn, þeir sem eru öðrum háðir eða þeir sem hafa fyrirvinnu sem séð getur fyrir þeim, verði þingmenn?

Svo gerist það þegar þingmenn hætta á þingi sem er ósköp eðlilegur hlutur og ætti kannski að gerast oftar, að menn komast í vandræði með að fá vinnu. Það eru ekki mörg fyrirtæki sem eru áfjáð í að hafa fyrrverandi þingmenn að störfum hjá sér, tengda ákveðnum flokkum. Þingmenn eiga í erfiðleikum með að fá vinnu að lokinni þingsetu frekar en hitt.

Það getur verið mjög skaðlegt fyrir þjóðina ef þessi hópur fólks, þeir sem standa framarlega í atvinnulífi og stjórnsýslu, gefur ekki kost á sér til setu á Alþingi, sérstaklega með hliðsjón af því hvað öll löggjöf er orðin flókin. Þetta fólk hefur oft á tíðum mesta þekkingu, reynslu og hæfileika til að takast á við það flókna verkefni sem löggjöfin er í dag. Það er t.d. verulega flókið að átta sig á almannatryggingalögjöfinni og ég efast um að nokkur þingmaður þekki hana í hörgul. Hvernig eiga menn að taka á vandamálum öryrkja, fatlaðra og ellilífeyrisþega, þegar menn skilja ekki dæmið til hlítar? Ég tel mjög brýnt að við fáum hérna inn virkilega hæfileikaríkasta fólkið sem þjóðin hefur.

Komið hefur fram að forsrh. landsins, sem jafnframt er alþingismaður, er með allt að helmingi lægri tekjur en margir forstjórar ríkisfyrirtækja og æðstu embættismenn og margir undirmanna hans í ráðuneytinu hafa hærri laun en hann. Menn hafa jafnvel í flimtingum að bílstjórinn hans gæti verið með hærri laun en hann vegna mikillar yfirvinnu. Þó vinnur hann ekki nema þegar forsrh. vinnur. Hinn vinnur oftar og lengur en bílstjórinn. Slík staða er illskiljanleg.

Mér finnst að forsrh. landsins eigi að vera með hærri laun en velflestir hér á landi og sambærileg laun við forstjóra stærstu fyrirtækja landsins. Hann er jú ábyrgur fyrir þjóðarskútunni.

Herra forseti. Þingfararkaupið er núna um 220 þús. kr. á mánuði. Ekki er greiddur þrettándi mánuðurinn. Hækkunin verður því 70% fyrir þá alþingismenn sem ekki sinna öðrum störfum jafnframt þingmennsku. Hækkunin verður minni hjá þeim þingmönnum sem ekki hafa haft þann kostnað sem fastar kostnaðargreiðslur, 25 þús. kr. bifreiðastyrkur og 40 þús. kr. föst kostnaðargreiðsla, eiga að dekka. Reyndar hafa ekki allir alþingismenn tekið við föstu 40 þús. kr. kostnaðargreiðslunni.

Þetta er sú hækkun sem um er að ræða. Hún virðist vera nokkuð mikil, 70% og alveg niður í 30% eða jafnvel neðar eftir því hver staða þingmanna er. Ég held að menn geti þó ekki borið þetta saman. Við erum að ákvarða laun fyrir næsta þing, og það verður ekki endilega sama fólkið.

Nokkuð er um fastar greiðslur til að mæta kostnaði. Það er eflaust mjög misjafnt eftir því hvernig alþingismenn kjósa að starfa hvernig þessar greiðslur koma út fyrir einstaka þingmenn. Sumir funda oft á tíðum með kjósendum o.s.frv. og af því er umtalsverður kostnaður. Landsbyggðarþingmenn þurfa að keyra mjög víða til að hitta kjósendur sína. En svo eru þingmenn líka að heimsækja fyrirtæki sér að kostnaðarlausu og spjalla við starfsmenn þeirra fyrirtækja. Þeir búa kannski á höfuðborgarsvæðinu og kosta því litlu til aksturs. Þannig er þetta mjög mismunandi.

Þegar við hv. þingmenn förum til útlanda fáum við 80% af dagpeningum og auk þess hótel greidd. Ég hef margoft gagnrýnt þetta og tel þær greiðslur allt of háar. Menn fá bara allt of mikla peninga þegar þeir fara til útlanda. Ég hef alltaf átt í erfiðleikum með að bóka þessar greiðslur í heimilisbókhaldinu því ekki er þetta kostnaður. Mér er lífsins ómögulegt að borða fyrir þessa peninga eða eyða þeim í leigubíla þegar ég fer til útlanda. (Gripið fram í: Þú ert meinlætamaður.) Þó er ég ekki meinlætamaður. Ég get ekki bókað þá sem kostnað. Nú, ekki eiga þetta að vera laun þannig að ég lendi í ákveðnum siðferðilegum vanda. Ég hef reyndar leyst hann.

Nú, svo eru greidd afnot af heimilissíma og dagblöðum og svo er okkur séð fyrir heimilistölvu auk tölvu hér á svæðinu.

[16:15]

Í frv. er gert ráð fyrir því að hverfa frá þessum föstu greiðslum sem eru óháðar kostnaði og taka upp greiðslur fyrir kostnað og gert er ráð fyrir því að sá kostnaður verði hreinlega gefinn upp, hann má hreinlega birta á internetinu mín vegna svo að kjósendur geti farið í gegnum það hver kostnaður þingmannsins þeirra sé. Hann verður svo að eiga það við sína kjósendur hvort þeim finnst það sanngjarnt eða ekki. Ég geri ráð fyrir því að kjósendur úti á landi taki því fagnandi ef þingmaður þeirra ákveður að hafa búsetu þeirra á meðal og þótt það leiði til kostnaðar við tvöfalt heimilishald sem að hann að sjálfsögðu fær greiddan og er færður inn á internetið. Ef þingmenn ákveða að halda fundi með sínum kjósendum með tilheyrandi kostnaði, aksturskostnaði, kostnaði við leigu á sal, kaffi og meðlæti þá mun hann þurfa að verja það fyrir sínum kjósendum og ef þeim finnst það sanngjarnt þá er þetta allt í lagi. Allt verður uppi á borðinu.

Í frv. er því gert ráð fyrir töluvert mikilli breytingu í þá veru að þingfararkaupið, laun þingmanna og allur kostnaður sem greiddur er, verði fært upp á yfirborðið þannig að hver og einn geti fylgst með því. Hins vegar er gert ráð fyrir því að laun þingmanna hækki allverulega til þess sem ég gat um áðan, að hvetja fólk til að bjóða sig fram til þings sem telur sig ekki hafa efni á því í dag.

Þeim sem finnst þessi hækkun vera mikil og þeir sem enn telja þingfararkaupið hátt eftir að búið væri að samþykkja það, eru bara boðnir fagnandi í hóp frambjóðenda til þings. Ég segi bara við þá: Þið skulið ganga í einhvern ágætan flokk sem stendur ykkur nærri, berjast þar til áhrifa og bjóða ykkur fram. Þá er virkilega kominn hvati fyrir ykkur til að láta að ykkur kveða. Og ég geri ráð fyrir því að þegar kjósendur hafa meira og ríkara mannval þá verði væntanlega betur mannað á þingi þó að ég sé ekki að segja þar með að hér sé illa mannað.

Herra forseti. Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum nokkrar greinar. Í 1. gr. er gert ráð fyrir því að taka út ákveðin forréttindi sem opinberir starfsmenn hafa umfram fólk á almennum vinnumarkaði, þ.e. að þeir halda starfi sínu í fimm ár, bjóði þeir sig fram til þings. Þetta gengur engan veginn. Það brýtur jafnræðisregluna að vegna þess að einhver borgari er opinber starfsmaður þá eigi hann að halda starfi sínu en allir aðrir sem bjóða sig fram halda ekki starfinu. Þetta gengur ekki. Hér er lagt til að þetta verði fellt niður. Þetta er reyndar í samræmi við tillögu sem liggur fyrir Alþingi frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, sem hann hefur þegar mælt fyrir á þskj. 43.

Í stað þessara forréttinda opinberra starfsmanna og vegna þess sem ég gat um áðan er lagt til í 5. gr. að biðlaun þingmanna verði lengd og bætt, þ.e. raunveruleg biðlaun þeirra sem ekki fá vinnu. Þeir sem fá vinnu fá að sjálfsögðu ekki biðlaun nema launin í nýju vinnunni séu lægri, þá fá þeir mismuninn greiddan.

Í 2.--4. gr. er kveðið á um endurgreiðslu kostnaðar og að endurgreiðslurnar skuli vera í samræmi við sannanlegan kostnað. Ég tel mjög eðlilegt að þegar þessi breyting hefur átt sér stað, þ.e. eftir að horfið hefur verið frá föstum greiðslum, þá verði þessi kostnaður birtur á internetinu, mín vegna, þar sem yfirleitt allt er birt, ræður þingmanna og fleira.

Gert er ráð fyrir því að þau laun sem þingmenn hafa annars staðar skerði þingfararkaupið um helming þannig að ef þingmenn starfa annars staðar eins og oft og tíðum er eðlilegt og margir kjósendur telja æskilegt, þ.e. að þingmenn séu í tengslum við atvinnulífið, þá skerðast laun þingmanna um 50% vegna þeirra tekna sem menn hafa annars staðar. Þó verði þingfararkaupið aldrei lægra en helmingur af því sem hér er gert ráð fyrir, 375 þús. Þannig er tekið á því þegar menn eru í vinnu annars staðar sem óhjákvæmilega hlýtur annaðhvort að koma niður á vinnu þeirra á þingi eða í raun vera sama starfið, þ.e. að þeir séu að sinna sömu hagsmunum. Þá er í báðum tilfellum óeðlilegt að menn njóti tvöfaldra launa og gert er ráð fyrir að þingfararkaup verði skert, eins og ég gat um áðan, um helming af því sem menn hafa fyrir þessi störf.

Í 7. gr. er gert ráð fyrir því að felld verði brott sérstök heimild til að greiðsla þingfararkostnaðar sé framtalsskyld en ekki skattskyld. Það er talið eðlilegt að þingmenn falli undir skattalög eins og aðrir borgarar. Þetta er reyndar regla sem gildir annars staðar, í fyrirtækjum t.d., ef menn bera kostnað þá geta þeir í sumum tilfellum dregið hann frá og mér finnst mjög eðlilegt að þessi regla sé bara felld niður hérna og almenn regla skattalaga gildi um þingmenn eins og aðra borgara.

Í 8. gr. er gert ráð fyrir því að breyta grundvelli lífeyrisgreiðslna án þess þó að farið sé nánar út í það að breyta lífeyrisgreiðslunum verulega. Það væri þó virkilega ástæða til, herra forseti, að taka á lífeyrisréttindum þingmanna. Gert er ráð fyrir því að þessi hækkun á grunnlaunum eða þingfararkaupi valdi ekki samsvarandi hækkun á lífeyrisgreiðslum þingmanna heldur að lífeyrisgreiðslurnar standi nánast í stað og þar af leiðandi verði rétturinn miklu minni hlutfallslega miðað við hækkað þingfararkaup eins og hér er lagt til. Það getur vel verið að eftir þessa breytingu verði réttindin minna en 10% virði af hækkuðu kaupi og þá er náttúrlega sjálfsagt mál og mjög eðlilegt að þingmenn hætti í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, í sérdeild þar, og geti valið sér lífeyrissjóð af eigin vali eins og kjósendur þeirra, bara almenna lífeyrissjóði með 10% iðgjaldi og venjuleg lífeyrisréttindi. Ég hef alltaf talið mjög óeðlilegt að þingmenn séu með sérstök lífeyrisréttindi sem eru önnur og betri en kjósenda þeirra.

Herra forseti. Þessari breytingu er ætlað að taka gildi eftir næstu kosningar og enn er ekki búið að loka fyrir þátttöku í öllum prófkjörum eins og ég gat um áðan eða stilla upp listum. Því fólki sem finnst þetta há og eftirsóknarverð laun er því í lófa lagið að sækjast eftir kjöri til Alþingis og ber að fagna því ef mikið og aukið mannval býður sig fram þjóðinni til heilla. Þeir alþingismenn sem styðja þetta frv. eru ekki að skara eld að sinni köku heldur safna glóðum elds að höfði sér því að samkeppnin um þingsætin mun væntanlega stóraukast og það verður ekki eins auðvelt að komast á þing.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu.