Þingfararkaup

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 16:27:08 (1080)

1998-11-12 16:27:08# 123. lþ. 23.22 fundur 104. mál: #A þingfararkaup# (laun, endurgreiðsla kostnaðar o.fl.) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sýnir í þessu máli eins og oft áður að hann er kjarkmaður mikill því hér hreyfir hann mjög viðkvæmu pólitísku máli sem er þeim mun viðkvæmara sem nær dregur kosningum, og sýnir e.t.v. þátttaka í umræðunni og fámenni í þingsalnum að þetta er pólitískt viðkvæmt mál og hefur löngum verið.

Ég ætla ekki að fjalla efnislega um einstakar greinar frv. en tek undir þau sjónarmið sem hv. þm. Pétur Blöndal kynnti áðan um mikilvægi þess að sem flestir úr öllum stéttum þjóðfélagsins eigi þess kost að gefa kost á sér til að starfa á Alþingi þannig að það verði ekki forréttindi eignafólks eða hinna efnameiri. Það er í rauninni grundvallaratriði fyrir lýðræðið. Ef málum er svo komið, eins og þingmaðurinn að sumu leyti vildi halda fram, að fólk veigri sér við, m.a. af efnalegum ástæðum, að gefa kost á sér til starfa hér, þá má segja að það sé tilræði við lýðræðið, ógnun við störf lýðræðisins.

Hins vegar hreyfði hv. þm. mjög mikilvægu máli, þ.e. kostnaði vegna prófkjörs. Ekki fer fram hjá neinum að um þessar mundir stendur yfir prófkjör, m.a. á Reykjanesi og hv. þm. nefndi að ætla mætti að hver og einn þátttakandi þar verði sem næmi 1--2 millj. kr. til þess. Ég er ekki frá því að sá kostnaður hljóti að vera mun hærri. Þetta er prófkjör sem virðist ætla að standa í um það bil tvo mánuði og heildarkostnaðurinn virðist ætla að hlaupa vel á annan tug millj. kr. ef ekki verða enn hærri. Hér hafa verið færð rök fyrir því að laun þingmanns standi varla undir slíkum kostnaði eða slíkum útgjöldum og þá kvikna auðvitað þær spurningar hvaðan féð komi og hver sé staða verðandi þingmanns sem í prófkjörsbaráttu neyðist til þess að leita á náðir fyrirtækja og einstaklinga um fjárhagslegan styrk til að standa undir prófkjörsbaráttu. Hver er staða frambjóðanda, ef hann nær kjöri, þegar hann er kominn inn á þing og þarf að véla um mál sem snerta meintan styrktaraðila hans?

Segja má að þetta sé í rauninni ákveðin ógnun við lýðræðið. En ég spyr hv. þm. hvort hann sjái fyrir sér einhverja leið til að taka á slíkum vanda. Er hægt eða æskilegt að setja reglur við slíku? Ég tel að prófkjörsformið sé komið á villigötur. Það er farið að snúast of mikið um fjölmiðlamennsku, of mikið um peninga og er þar af leiðandi að mörgu leyti ógnun við lýðræðið. Hefur þingmaðurinn skoðun á þessu? Það væri gaman að heyra hana.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um launakjör þingmanna. Það er erfitt að finna lausn á því og spurning er hvort þingmenn séu yfir höfuð færir um að fjalla um það, of málinu tengdir. Þingmönnum er það augljóslega feimnismál að ræða þetta opinberlega eins og ég gat um áðan. Þó vil ég leyfa mér að varpa fram í lokin og fá álit hv. þm. á ágætri hugmynd sem var skotið að mér, þ.e. að þingmenn beittu sér fyrir því að þeir færu á dagsbrúnartaxta.

Nú eru dagsbrúnarmenn síður en svo vel settir af sínum launum. Þau eru skammarlega lág, undir það get ég tekið. En með dagsbrúnartaxta fylgir auðvitað að honum skal framfylgt í hvívetna og hef ég grun um að laun þingmanna mundu þá a.m.k. tvöfaldast frá því sem nú er með tvöfaldri dagvinnu eða næturvinnutaxta eftir langa næturfundi, síðan hefjast þingstörf að morgni og útköll eru um helgar til að sinna ýmsum skyldum þingmanna. Ég veit ekki hvort undir það mundi falla ýmiss konar óþægindaálag og fleira í þeim dúr. Þessi hugmynd finnst mér í sjálfu sér ekkert vitlausari en hver önnur.

Ég ætla að öðru leyti ekkert að tjá mig um efnið. Það var fyrst og fremst þessi prófkjörsþáttur sem hv. þm. hreyfði við og ég hefði viljað heyra álit hans á honum.