Þingfararkaup

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 16:34:26 (1082)

1998-11-12 16:34:26# 123. lþ. 23.22 fundur 104. mál: #A þingfararkaup# (laun, endurgreiðsla kostnaðar o.fl.) frv., LRM
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Lilja Rafney Magnúsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að þingfararkaup alþingismanna eigi að vera gott. Ég tel að miðað við þá ábyrgð sem fylgir þingmannsstarfinu eigi að launa það vel. Ég mundi telja það hluta þess að auka sjálfstæði þeirra þingmanna sem kosnir eru til Alþingis að vera fjárhagslega sjálfstæðir og geta starfað eftir hugsjónum sínum og samvisku.

Það hefur alltaf farið fyrir brjóstið á mér að þingmenn geti verið í mörgum störfum samtímis og þegið laun víða á meðan. Mér finnst eðlilegt að tekið sé á þeim þætti, eins og komið er inn á í frv. til laga um breytingu á þingfararkaupi, að þingmenn geti ekki nema upp að ákveðnu marki þegið fullt þingfararkaup og kaup annars staðar í þjóðfélaginu. Það hlýtur að vera takmörkum háð hvað menn komast yfir að sinna mikilli vinnuskyldu. Ég held að í ljósi þess eigi að greiða þingmönnum gott kaup svo að þeir geti sinnt því starfi með fullum þunga. Ég tel að það sé meira en fullt starf að sinna vel því sem starfinu fylgir.

Hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á að lagaumhverfið og sú stjórnsýsla sem við búum við í dag séu orðin mjög flókin og ég tek undir það. Mér fannst á máli hans að að þeim málum ættu einungis að koma fólk sem væri mjög inni í öllum lagamálum og lögfræðiflækjum sem fylgja því að fara í gegnum ýmsa lagabálka. Ég tel hins vegar að nauðsynlegt sé að á þingi sé þverskurður þjóðarinnar og þeir sem veljist þar til starfa nýti sér þá sérfræðiþjónustu sem þar er boðið upp á og vinni úr henni sem best þeir geta en nýti sér einnig þann bakgrunn og þekkingu sem þeir hafa úr fyrra umhverfi sínu og þeir komi sem víðast að úr þjóðfélaginu svo að þetta spili sem best saman og sem flest sjónarmið fái notið sín á Alþingi. Mörgum þykir einmitt vanta að sem flest sjónarmið komist inn á þing og fjallað sé um mál af sanngirni og réttsýni. Ég tel að það styrki lýðræðið og geri þingmenn sjálfstæða og óháða utanaðkomandi þrýstingi að hafa gott þingfararkaup.

Ég vil lýsa áhyggjum mínum af þróun prófkjörsmála eins og aðrir þingmenn. Ég tel að þau mál, eins og þau hafa þróast undanfarnar vikur, séu að fara út í algert óefni. Upphæðirnar þarna á bak við eru svo háar að það nær ekki nokkurri átt. Það þarf einhvern veginn að grípa þarna inn í, hvort sem það verða flokkarnir sjálfir eða aðrir sem móta þar reglur svo þetta fari ekki úr böndum eða að Alþingi fjalli um hvernig standa skuli að prófkjörum. Ég vil ekki sjá að á Alþingi sé hægt að segja að viðkomandi hv. þm. sé kostaður af einhverju fyrirtæki. Þess verður kannski ekki langt að bíða ef þessi þróun heldur áfram með þeim miklu fjármunum sem í spilinu eru. Menn berjast um að koma sér á framfæri með öllum tiltækum ráðum í fjölmiðlum landsins í dag. Það eru auðvitað ekki allir samkeppnisfærir í þeim mikla slag og geta aldrei orðið. Ég held að við viljum sjá alþingismenn sem hafa hugsjónir og telja sig hafa eitthvað til málanna að leggja en ekki aðeins að þeir hafi greiðan aðgang að fjármagni til að koma sér inn á hv. Alþingi. Ég tel þetta sé mjög hættuleg þróun og skoða þurfi þau mál í fullri alvöru.

Ég get tekið undir það að þó að kaup sé mjög misjafnt í landinu og verkafólk í landinu sé á allt of lágum launum, þá tel ég eðlilegt að þeir sem gegna jafnábyrgðarmiklum störfum og þingmenn hafi góð laun.