Staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:24:45 (1097)

1998-11-16 15:24:45# 123. lþ. 24.1 fundur 105#B staða íslenskrar tungu í fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:24]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Í svörum hans kemur fram að hann hefur fylgst með þessu máli og gerir sér grein fyrir því að hér þarf úrbóta við. Ég vænti þess að það verði þá skoðað eða lagst yfir það hvernig megi fara í eitthvert átak. Það mætti t.d. hvetja fyrirtæki til að setja sér þau markmið að gerðar séu kröfur um að viðkomandi hafi vald á íslenskri tungu og hafi jafnvel einhver ákveðin próf. Rétt eins og fyrirtæki setja sér jafnréttismarkmið ætti að vera hægt að setja þessi markmið.

Það er líka hægt að standa fyrir reglulegri úttekt svipaðri þeirri sem nemendur í hagnýtri fjölmiðlun gerðu svo hægt sé að fylgjast með stöðu ljósvakamiðlanna og grípa inn í ef málfar fer úr öllum böndum. Það er alveg rétt, það er ekki alltaf hægt að skilja það sem starfsmennirnir eru að koma frá sér. Það er óskýrt og erfitt fyrir fullorðið fólk að greina hvað sagt er.

En ekki má heldur gleyma því að áhrif enskrar tungu eru mikil og hennar gætir mest hjá unglingum og ungu fólki sem hlustar hvað mest á hinar svokölluðu síbyljustöðvar, enska söngtexta og netið.