Skaðabótalög

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:19:32 (1105)

1998-11-16 16:19:32# 123. lþ. 24.25 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:19]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum um, eins og hefur reyndar komið fram, ákaflega flókið mál. Við erum að fjalla um bætur fyrir tjón sem menn verða fyrir. Þeim bótum má skipta í tvennt. Það eru annars vegar miskabætur sem maðurinn fær vegna alls konar röskunar á högum sínum, einnig sársauka og annað slíkt sem menn verða fyrir þegar þeir verða fyrir tjóni.

Hins vegar eru það bætur fyrir tekjutjón, þ.e. bætur fyrir þær tekjur sem falla niður vegna þess slyss eða tjóns sem maður varð fyrir. Þessu tvennu vil ég halda algerlega aðgreindu.

Herra forseti. Í svari sem ég fékk frá hæstv. forsrh. á 121. löggjafarþingi, 581. mál á þskj. 1340, kemur eftirfrandi fram:

Ég spurði um hvað maður sem er með 80 þús. kr. á mánuði fengi í bætur frá, í fyrsta lagi almannatryggingum, í öðru lagi lífeyrissjóði sínum og svo í þriðja lagi samkvæmt skaðabótalögum ef hann yrði 100% öryrki vegna slyss.

Hann fær 43.858 kr. frá SAL-sjóði í lífeyri, þ.e. rétt rúmlega helming af þeim tekjum sem hann hafði. Síðan fær hann frá Tryggingastofnun ríkisins í örorkulífeyri að teknu tilliti til lífeyrisins frá lífeyrissjóðnum 37.730. Samtals fær þessi maður sem var með 80 þús. kr. á mánuði í laun frá þessum tveimur aðilum 81.588 kr. Hann fær meiri lífeyri vegna þessa tekjutjóns en hann hafði í tekjur, hann er oftryggður. Ef sami maður hefur lent í slysi sem fellur undir ákvæði skaðabótalaganna fær hann 13,9 millj. kr. til viðbótar því að hafa hagnast á slysinu. Ef þeim bótum er dreift á starfsævina kemur það út sem 61.896 kr. á mánuði eða 75--80% þeim tekjum sem hann hafði. Samtals fær þessi maður 143.485 kr. á mánuði en hann hafði 80 þús. kr. áður. Við erum að tala um gífurlega oftryggingu þegar um er að ræða slys sem fellur undir skaðabótalögin. Þetta er samkvæmt svari forsrh. sem birtist á þskj. 1340.

Herra forseti. Menn eru alltaf að velja milli þess að hafa kerfi einföld eða flókin. Einfaldleikinn þýðir að ekki er tekið tillit til persónulegra aðstæðna nema að litlu leyti og á móti kemur að réttlætið í einhverjum skilningi missir marks. Flækingin, þ.e. að taka tillit til fleiri og fleiri þátta, gerir það að verkum að til fellur kostnaður. Það er miklu dýrara að reka mál sem tekur mjög mikið tillit til persónulegra aðstæðna. Það þarf tryggingafræðing, það þarf lögfræðing og allt kostar þetta mikið og það er spurning hvort það borgar sig. En síðan er það spurningin hvort það sem við töpum með því að hafa einfaldleikann of mikinn sé of mikið. Hér þarf að finna einhvers konar meðalhóf. Það sem mér sýnist að ráði ríkjum þegar menn sömdu núgildandi skaðabótalög er það að menn hafi hreinlega gleymt lífeyrissjóðunum og almannatryggingum sem eru þó ekkert sérstaklega fyrirferðarlitlir aðilar, hvorki í fjárlögum né á fjármagnsmarkaði né í bótarétti og metið tjón mannsins eingöngu út frá slysinu en ekki tekið tillit til þess að slysið er bætt af þessum tveimur aðilum, meira að segja ofbætt í því tilviki sem ég nefndi. Svo eru að sjálfsögðu til dæmi um fólk sem er með hærri tekjur þar sem tjónið er ekki bætt 100% heldur kannski bara 70--80% og jafnvel neðar fyrir mjög háar tekjur.

Nú kann einhver að spyrja, herra forseti, hvort þetta sé ekki allt í lagi, að maðurinn fái þarna 145 þús. kr. á mánuði út starfsævina þar sem hann hafði 80 þús. kr. áður. Þetta sé bara ágætt fyrir þennan einstakling og hið besta mál. Því er til að svara að allt er þetta greitt einhvern veginn af einhverjum og það er greitt af almennum tryggingum í gegnum skattkerfið, af lífeyrissjóðnum gegnum iðgjöldin og af tryggingafélögunum gegnum iðgjöld þeirra sem eiga að taka mið af áhættunni, þ.e. tjóninu ef þokkaleg samkeppni ríkir á þeim markaði sem er nú verið að stefna að. Það þýðir að oftryggingin sem er allt of mikil er greidd af bíleigendum, skattgreiðendum og iðgjaldsgreiðendum í lífeyrissjóði. Það er grundvallaratriði í allri tryggingastarfsemi að menn hagnist ekki á tjóninu. Menn eiga ekki að hagnast á tjóni og það á að bæta þannig að menn séu jafnsettir eftir sem áður en ekki að þeir hagnist og helst ekki að þeir tapi heldur.

Nú er það svo að ýmis kostnaður er fólginn í því að sækja vinnu. Það eru t.d. ferðir á vinnustað. Það er fatnaður og annað slíkt sem menn þurfa að kaupa sér. Það er eitt og annað sem veldur kostnaði og svo auk þess menn sem eru heima, þeir geta hugsanlega stundum unnið eitthvað heima við en eins og ég gat um áðan getur verið heilmikill kostnaður fólginn í því að vera öryrki. Menn hafa kostnað af því. En þetta er ákaflega einstaklingsbundið og mismunandi.

Ég tel mjög brýnt, herra forseti, að menn taki tillit til allra þátta bóta. T.d. vil ég nefna vaxtabætur, húsaleigubætur og barnabætur sem eru háðar tekjum en þegar tekjurnar koma fram sem eingreiðsla samkvæmt skaðabótalögunum teljast þær væntanlega ekki sem tekjur það sem eftir er starfsævinnar þannig að þessi maður getur notið vaxtabóta, húsaleigubóta og barnabóta í auknum mæli miðað við þær tekjur sem skaðabótalögin og eingreiðslan gefa tilefni til að meta, þ.e. 143 þús. kr. Hann getur verið miklu betur settur eftir slys en fyrir að teknu tilliti til þessara atriða líka.

Herra forseti. Í frv. er gert ráð fyrir því og rökstutt þannig að 60% af bótum úr lífeyrissjóði skuli koma til frádráttar og síðan tveir þriðju af því að teknu tilliti til skattskyldu, þ.e. 40% af bótum frá lífeyrissjóði. Þetta er rökstutt þannig að atvinnurekendur greiði 6% iðgjald í lífeyrissjóð á móti 4% launþegans. Ég hef margoft bent á að ekki skiptir máli hver borgar þetta iðgjald í lífeyrissjóðinn. Það mætti hækka laun allra Íslendinga sem nemur 6% iðgjaldi atvinnurekandans og láta launþegann greiða allt iðgjaldið í lífeyrissjóðinn og allir aðilar eins settir, það breytti nákvæmlega engu. Ég skil því ekki almennilega þessa röksemdafærslu. Hugsunin er sú að allt sem er félagslega bætt eigi að koma til frádráttar en það sem ekki er félagslega bætt eigi að koma þeim til góða sem verða fyrir tjóni. Hugsunin er sú að maður sem tryggir sig prívat og persónulega eigi ekki að fá minni bætur fyrir bragðið og ég er sammála því. En menn sem tryggja sig samkvæmt lagaskyldu þar sem löggjafinn er að setja skyldu á fólk til að greiða í lífeyrissjóði til þess einmitt að létta byrðinni af ríkinu vegna þess áfalls sem menn verða fyrir vegna örorku og ef menn deyja of snemma eða þá ef menn verða mjög gamlir. Það er sett lagaskylda til þess að létta byrðinni af ríkinu. Slík lagaskylda hlýtur að koma að fullu til frádráttar í svona dæmi, þ.e. að í stað þess að taka 60% af lífeyri eða leggja til grundvallar 60% af lífeyri frá lífeyrissjóðum, eigi að taka allan lífeyri af lífeyrissjóði til frádráttar. Það á hreinlega að draga það frá tekjum mannsins áður en dæmið verður gert upp. Þá kemur í ljós hvert raunverulegt tjón mannsins er og þá er hægt að beita reglum frv. eða laganna á þennan einstakling.

Herra forseti. Þetta frv. er eins og hefur komið fram ákaflega flókið og ég skora á hv. allshn. sem fær það til umfjöllunar að skoða allt bótakerfið í heild sinni og taka sérstaklega tillit til þess að lífeyrir frá lífeyrissjóðum er lögbundinn. Þetta er aðildarskylda samkvæmt lögum og þarna getur ekki verið um frjálst val einstaklings að ræða hvort hann greiðir í lífeyrissjóð eða ekki og þess vegna er eðlilegt að sá lífeyrir sem hann fær þannig lögbundið komi að fullu til frádráttar samkvæmt þessum lögum.