Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:47:41 (1110)

1998-11-16 16:47:41# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:47]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér hafa menn skipst á skoðunum um ný vegabréf. Allt er þetta nokkuð gott. En annað mál er það sem snýr að fólki sem þarf að endurnýja vegabréfin sín. Nú er þess sérstaklega getið að ekki megi setja nöfn barna inn í þau vegabréf sem foreldrar bera með sér. Af því leiðir að gefa verður út fleiri vegabréf þannig að dýrara verður fyrir fjölskyldur að fá vegabréfin. Aukin heldur eru menn að tala um að rétt væri að framleiða þau í dreifbýlinu sem þýðir aukinn kostnað vegna sendinga á vegabréfum til framleiðsluaðila.

Ég skil hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mjög vel að vilja efla atvinnu í hinni dreifðu byggð en ég get hins vegar ekki tekið undir það í þessu tilfelli. Það hlýtur að hafa aukinn kostnað í för með sér ef framleiðsla vegabréfa verður gerð einhvers staðar úti á landi þar sem mikill sendingarkostnaður hlýtur að koma til ofan á þann kostnað eins og ég gat um áðan sem verður hjá hverri fjölskyldu þegar hver og einn einstaklingur þarf að hafa sitt vegabréf. Það er því talsvert til margra átta að líta þegar frágangur laga um vegabréf verður allur.