Vegabréf

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 16:58:40 (1114)

1998-11-16 16:58:40# 123. lþ. 24.26 fundur 231. mál: #A vegabréf# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[16:58]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hjá síðasta ræðumanni kom fram að hann gæfi ekki mikið fyrir það sem ég hefði sagt og það er kannski allt í lagi. (SJS: Málið snýst um kostnað.) Já, málið snýst um örlítinn kostnað. Síðan getur hann þess að hægt sé að senda vegabréfið heim til hvers og eins sem sækir um vegabréf.

Hæstv. dómsmrh. kom einmitt inn á það að meginmálið sem snertir þessa breytingu á lögum um vegabréf er að verið er að setja upp sérstaka vinnslu til að komast hjá því að vegabréf verði fölsuð. Ég er ansi hræddur um að einhverjir vankantar yrðu á því máli ef senda ætti fólki vegabréfin heim í pósti. Hvar á þá hin eiginlega undirritun að fara fram á vegabréfunum? Ég hélt að það gerðist alltaf við móttöku. Það eru því ýmsir vankantar á þessu þó að menn geri lítið úr því að hér er um aukinn kostnað fyrir fjölskylduna að ræða. Það er sú staðreynd sem blasir við og sá kostnaður mun aukast ef menn ætla að senda vegabréf í pósti. En meginmálið er að þetta er til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að falsa vegabréf. Það hefur of mikið verið gert af því og ég sé ekki annað en verið sé að kalla á þá hættu ef sú meðferð verður tekin upp á vegabréfunum og þau jafnvel send heim til viðkomandi aðila án þess að hin eiginlega undirritun um þá staðfestingu að handhafi vegabréfsins sé sá sem hann segist vera hafi farið fram. Það eru því margar hliðar á þessu máli. En ég ætla að biðja menn orða lengst að taka ekki orð mín þannig að ég sé á móti hinni dreifðu byggð. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að reyna að efla störf þar. En það verður auðvitað að gerast á þann hátt að ekki sé verið að efna til frekari kostnaðar ef hægt er að komast hjá því.